28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Skúli Thoroddson :

Jeg er hjer riðinn við brtt. á 3 þingskjölum, og skal því leyfa mjer, að gjöra grein fyrir þeim í fám orðum.

Fyrsta brtt. er á þgskj 609, þar sem farið er fram á það, að í stað þess, er strandferðanefndin hefir að eina ætlað 5 þús. kr. ári til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp, þá verði sá liður nú hækkaður upp í 6500 kr.

Jeg skal geta þess, í sambandi við nefnda brtt. mína, að í núgildandi fjárlögum er liður þessi talsvert hærri, enda jafnframt ætlast þá og til þess, að báturinn fari nokkrar ferðir til Húnaflóa.

Á hinn bóginn hefir niðurstaðan þó nú orðið sú, að það sje ekki heppilegt að halda sama fyrirkomulaginu framvegis, heldur sje báturinn að eins ætlaður Ísafjarðardjúpi, ásamt öðrum pörtum N.-Ísafjarðarsýslu, ef eigi og V.-Ísafjarðarsýslu, en fari þá alls eigi til Húnaflóa.

En þó að þessi takmörkun hafi nú verið ráðin, þá hefir sýslunefndin í Norður-Ísafjarðarsýslu þó engu að síður litið svo á, sem til bátaferða þessara þurfi þó talsvert meiri styrk en samgöngumálaráðunauturinn, og nefndirnar, sem um málið hafa fjallað, hafa gjört ráð fyrir, eins og skjal, sem legið hefir í lesstofu Alþingis í sumar, ber með sjer.

Í von um, að málið fái þá betri byr, hefi jeg þó ekki farið fram á jafn háa upphæð, sem sýslunefnd Norður-Ísfirðinga telur æskilegast, að fengist, en látið nægja, að fara að eins fram fram á 6500 kr. og til vara 5500 (ekki 5590, eins og í þgskj. stendur; það er prentvilla), og er vara krafan þá alveg samhljóða því, er samgöngumálaráðunauturinn hefir talið þurfa, og hvað sem öðru líður, þá vona jeg að menn fylgi þó tillögu hans og samþykki því að minsta kosti varatillögu mína.

Önnur brtt. er á þgskj. 581, og fer í þá átt, að Einari Þorkelssyni, skrifstofustjóra Alþingis, sjeu veittar 800 kr., til þess að semja sögu landafjórðunga og hjeraða á Íslandi.

Að því er tillögu þessa snertir, skal jeg og geta þess, að hún er fram komin af því, að fjárlaganefnd barst skrifleg beiðni hans í greinda átt, og getur hann þess þar, að hann hafi þegar safnað talsverðu til þessa verks, og undirbúið það.

Það er og kunnugt, að maðurinn er mjög góðum hæfileikum gæddur, enda myndi hann eigi hvað eftir annað hafa verið kjörinn skrifstofustjóri þingsins, ef svo væri eigi. Sýnir skráin, sem hann hefi samið, og fylgir þingtíðindunum síðustu (um þingmanna. og forsetatal) mjög ljóslega elju hans, og áhuga, og að vel er honum því treystandi, til að leysa verkið vel af hendi.

Í sambandi hjer við, skal jeg og geta þess, að jeg hefi alt af litið svo á, sem það sje mjög mikils vert, að rituð sje ekki að eins saga landsins í heild sinni, heldur og saga landsfjórðunganna og einstakra hjeraða (eða sýslna), og jafnvel einstakra sveita, og sje því rjett, að hvetja alþýðamenn eigi síður, en aðra, til þess að safna til slíks, og semja slík rit.

Hvílíkur unaður það væri, að hver sveit á landinu ætti sem greinilegasta sögu sína, vel sagða, þarf jeg eigi að lýsa, nje heldur hve gagnlegt það væri, að vita glögt, hvað gjörst hefði á liðnum árum, um tíðarfar, skepnuhöld, jarðabyltingar, fædda menn og dána, giptingar, fundahöld, ritstörf o. s. frv., o. s. frv.

Vetur, eftir vetur, og öld, eftir öld, væri sveitarsagan síðan lesin á kvöldvökunum, og löngu dáinna, sem þar er getið, væri þá hlýlega minst, kynslóð eftir kynslóð, — væru sendir æ nýir, og nýir, kærleiks-straumar, til góðs fyrir alla.

Ekki væri þá og sá vinnumaðurinn, eða vinnukonan, nje unglingurinn, eða gamalmennið, er eigi vissi sig sögu skapandi, ef eigi þenna daginn, þá hinn, vissi sig og eftirtíðina gleðjandi, í sí og æ vaxandi mæli.

Kappið, sem öllum skapaðist þá og þannig, löngunin til þess, að vera þá og, eigi öðrum síður, fyrr eða síðar, að einhverju góðu getið — yrði þá og sveitinni, og hverjum einstakling hennar, til ómetanlegs góðs, auk þess er hver sveitin vildi þá og eiga annari fegurri sögu.

Íslendingar hafa og löngum haft það orð á sjer, að þeir sjeu söguþjóð, og því hygg jeg, að ýmsir geti og orðið mjer samdóma um það, að hjer sje um spor í rjetta átt að ræða.

En af því að jeg veit, að menn horfa í skildinginn, þá hefi jeg til vara lagt það til, að veittar verði þó 600 kr. á ári.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta, en vona, að tillögur mínar fái góðan byr hjer í deildinni, þótt meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki sjeð sjer fært, að veita málinu fylgi sitt, líklega af sparnaðarástæðum.

Háttv. deildarmenn munu og án efa sjá, að jafn lítill styrkur, sem hjer um ræðir, gjörir landinu hvorki til eða frá.

Hinn sanni, rjetti stórhugur á og einatt, að lýsa sjer í því, að láta eigi bugast af örðugleikunum, en halda sínu stryki, og færast þá æ því meira í aukana, sem meira að kreppir. — Hitt er lítilmenskan, að gjöra sig þá einatt þegar að vesæling, er á móti blæs, og vona jeg, að háttv. deildarmenn láti hvorki þm. Suður-Þingeyinga, nje aðra, innræta sjer þann hugsunarhátt, þótt eigi verði því neitað, að um of hafi að vísu viljað á honum brydda, á þinginu, sem nú stendur yfir.

Þá vil jeg minnast á br.tillögu, á þgskj. 598, frá háttv. þm. Dal. (B. J.), um styrk til cand. mag. Jakobs Jóhannessonar, til að rita íslenska setningarskipunarfræði, og vildi jeg mæla sem best með henni.

Jeg þekki pilt þenna nokkuð, og veit, að hann er gáfu- og hæfileikamaður, og efa alls eigi, að hann sje mjög vel fallinn til þess, að leysa verk þetta vel af hendi, en nauðsynin á því, að það verði sem fyrst unnið, og vel af hendi leyst, dylst að líkindum engum.

Þá er jeg loks við riðinn eina brtt., ásamt háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), og hefir hann nú þegar mælt svo vel með henni, að jeg þarf þar að vísu engu við að bæta.

Breytingartillagan lýtur að skáldunum og listamönnunum.

Jeg felli mig alls ekki við það, að úthlutun styrksins til þeirra sje eingöngu á valdi ráðherra.

Í tíð landshöfðingjadæmisins, var svo hagað, að landshöfðingi hafði einatt nokkra upphæð til umráða, er verja skyldi til eflingar vísinda og bókmenta m. m., en landshöfðingi þótti þá eigi ætíð verja fjenu svo vel, sem skyldi, og því var það ráðs tekið, að þingið skyldi útbýta styrknum.

Á hinn bóginn hefir þó bólað að mun á því, á nokkrum undanförnum þingum, að sumir hafa viljað láta þessa úthlutun hverfa undir stjórnina aftur, en jeg hefi þá einatt verið því mjög mótfallinn, og er það enn.

Í sambandi hjer við skal jeg og geta þess, að það er algjör misskilningur, að það hafi nokkuð að þýða, þótt fjárlaganefndin telji upp í nefndarálitinu, hverja hún telur styrksins maklegasta, með því að stjórnin er ekki bundin við það, — fjárlaganefnd í Nd. ekki það fjárveitingarvald, sem öllum sje skylt að beygja sig fyrir.

Gjörum og ráð fyrir, að nefndin í Ed. nefni í nefndaráliti sínu aðra menn, en nefndin í Nd. benti á, og hvað á þá stjórnin að gjöra? Og sama er að vísu, þótt eigi sje annað en það, að þingmenn, sem utan nefndarinnar eru, telji aðra, í ræðum sínum, maklegri, en þá, sem nefndarálitið bendir á.

Hins þarf og ekki að geta, hve ilt það væri, ef skáld, og aðrir listamenn, yrðu að eiga alt undir náð stjórnarinnar, og gætu þannig orðið henni háðir. Það gæti haft alt annað, en holl áhrif, eina og jeg benti á við aðra umræðu fjárlaganna, og vil jeg því mæla sem best með marg-nefndri tillögu okkar.