28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi borið fram tvær lítils háttar brtt. við frv. nú. Vill svo vel til um þær báðar, að vakist hafa upp menn til að mæla með þeim.

Önnur er um fjárveiting til Einars Hjaltested. Háttv. framsm. (P. J.) tók það fram, að hann hefði sjeð ummæli um þenna mann frá sænskum prófessor í New York, sem verið hefðu mjög lofsamleg, og kvaðst þar af hafa sannfærst um, að þessi maður, Einar Hjaltested, væri maklegur þess að fá styrkinn. Jeg þarf ekki að endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt um manninn; læt mjer nægja að skírskota til þess og þeirra brjefakafla, sem jeg vísaði þá til. Að eins vil jeg leyfa mjer að benda hæstv. forseta á, að í tillögu minni er prentvilla, svo löguð, að styrkurinn á ekki að vera nema 1000 kr. fyrra árið, í stað þess, sem í tillögunni stendur, 1000 kr. hvort árið. Brtt. er alveg sams konar sem liður sá, er hjer var áður samþyktur í deildinni; býst jeg því við, að menn hafi ekki skift svo um skoðun, að þeir greiði ekki atkvæði með tillögunni, sem þá voru með liðnum.

Hin brtt. mín er að eins formbreyting og fer fram á það, að styrkur til Alexanders Jóhannessonar verði fluttur úr 14. gr. í 15. Vitanlega er hjer að ræða um háskólakenslu, en með því að suma kann að ugga, að með þessu spretti upp vísir til nýs háskólaprófessors, þá hefir mjer þótt rjett að hafa styrkinn á þeim stað, sem vant er að hafa bráðabirgðastyrki, enda er það ekki tilætlan mannsins, að hann njóti styrks lengur en næsta fjárhagstímabil.

Þá eru nokkrar brtt., sem jeg vil leyfa mjer að minnast á.

Hæstv. ráðherra ber fram tillögu um 600 kr. launaviðbót handa þjóðmenjaverðinum. Hann hefir nú boðist til þess, að taka að sjer gæslu á myndasafni landsins. Hafði jeg hugsað mjer að koma fram með þingsályktunartillögu um að fela honum það, en þess þarf nú ekki, með því að orðið er samkomulag um þetta með honum og forsetum þingsins. Fyrir þessi auknu störf er eðlilegt, að hann fái einhverja þóknun. Í annan stað er nauðsynlegt, að umsjón sje með myndasafni landsins; hefir hún engin verið til þessa, svo að myndirnar hafa verið í hers höndum, og mildi, að ekki skuli hafa glatast. En nú, er þær eru komnar í höndur góðs manna, má búast við því, að þeim sje vel borgið.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) mælti heldur á móti því, að veitt væri fje nokkurt til þess að lagfæra Þingvöll, varna því, að áin spilli völlunum framar en orðið er o, fl. Rök hana voru þau, að fjeð væri oflítið; en þetta er misskilningur. Þessar 2000 kr., sem til viðgjörðar eru ætlaðar, eru góðar í bráðina; smátt og smátt má auka við og bæta.

Hann sagði, að gjöra þyrfti veg annars staðar um völlinn en nú er; þótt kostnaður yrði við það að breyta veginum, þá þyrfti ekki að greiða hann af þessu fje, með því að vegamálastjórnin hefir lýst yfir því, að hún mundi leggja fram fje til þess. Girðing um vellina þarf ekki að vera dýr, vegna þess, að hún þarf ekki að standa lengur en vellirnir eru að gróa upp. Sama er að segja um það að grafa niður árfarveginn; það má gjöra út af — fyrir sig, án þess að aðrar framkvæmdir til umbóta þar á þingstaðnum fari fram samtímis. Það er enginn bagi, þótt lagfæringin fari ekki öll fram á sama tíma. Þykir mjer auðsýn skylda hins opinbera að hlynna að þessum fornhelga stað, einkum þar sem hið opinbera hefir gjört sitt til þess að spilla staðnum með illum vegalagningum, sem marga hafa hneykslað, eins og sjá má af einni ritgjörð dr. Finns Jónssonar og fleiri manna, er á þetta hafa minst.

Háttv. þm. N.-Íaf. (Sk. Th.) hefir borið fram tillögu um að veita Guðmundi E. Guðmundssyni 12000 kr. lán, til að vinna kolanámu á Vesturlandi. Þessi tillaga er af því sprottin, að nefndur Guðmundur bryggjusmiður fór fram á 30 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til verksins. Undirtektir undir þá beiðni hafa orðið heldur daufar, og heldur þótti mjer háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) taka dræmt í, að nokkurt fje yrði veitt til þessa. Þar talar háttv. þingmaður ekki fyrir hönd kjósenda sinna. Jeg hefi ekki orðið þess var, að almenningur hafi veitt nokkru máli betri meðmæli en þessu, eins og þráfaldlega hefir mátt sjá í blöðunum, einkum í Morgunblaðinu og Vísi, t. d. síast í morgun í Morgunblaðinu, í grein eftir síra Ólaf Ólafsson fríkirkjuprest, þar sem skorað er á þingið að bæta úr kolaskorti þeim, sem nú er hjer, með því að styðja Guðmund að þessum atvinnurekstri.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók það . fram, að ekki væri unt með þessu að bæta úr kolaakortinum nú, í fyrsta lagi vegna þess, að ekki væri unt að veita umrætt lán, fyrr en eftir nýjár, og í öðru lagi af því, að þótt tillagan yrði samþykt, væri óvíst, hvort nokkurt fje væri til í landssjóði, til þess að fullnægja lánsheimildinni.

Jeg skal nú geta þess gagnvart fyrra atriðinu, að þótt Guðmundur Guðmundsson gæti ekki fengið landasjóðslánið fyrr en eftir nýjár, þá mundi hann þó að líkindum geta fengið lán annarsstaðar upp á þetta landssjóðslán, ef það væri heimilað. En gagnvart síðara atriðinu skal jeg benda á það, að engin vissa er fyrir því, að landssjóður verði verr staddur en áður, og í annan stað má með rjettu skoða þetta lán sem árbótarráðstöfum, og ætti það því að ganga fyrir öðrum lánum, eins og nú stendur á.

Það er ekki að sjá, að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) telji landssjóð í ýkjamiklum fjárskorti, þar sem hann ber fram tillögu um að gefa 25 þúsundir króna til kolanámurannsókna hjer á landi: Jeg býst nú við, að sú tillaga verði feld, og gjöri þá ráð fyrir, að þingmaðurinn telji landssjóðinn færan um að lána tólf þúsund kr.

Að vísu er nú svo áliðið, að ilt er að ná kolum að vestan í haust, en þó mundi það ekki frágangssök. Hefir þessi maður reynst áræðinn og duglegur, og sýnt það, að hann sparar enga fyrirhöfn til þess að ná kolum. Hann hefir nú rannsakað kolanámur vestra um alllangan tíma, og telur sig nú hafa fundið stað, þar sem fá megi góð kol.

Háttv. 1. þingm. Rvk. lagði áherslu á, að nú væri, vegna dýrtíðarinnar, sjerstök ástæða til þess að rannsaka kolanámur á Vestfjörðum; en ef mönnum þykir langt að bíða eftir kolum frá Guðmundi bryggjusmið, af því að hann geti ekki fengi fje til kolanáms fyrr en eftir nýjár, þá hygg jeg, að mönnum fari að leiðast eftir kolum, sem fást eiga eftir að vísindalegar rannsóknir hafa farið fram, enda óvíst, hver árangur yrði af slíkum rannsóknum fyrst um sinn, eftir þeirri reynslu, sem menn hafa hjer af »vísindalegum námurannsóknum«.

Jeg get t. d. bent á hlutafjelagið »Málm«, sem stofnað var hjer í Reykjavík, til þess að vinna gull úr Vatnsmýrinni. Þetta fjelag hafði æðstu menn landsins í stjórn, mikinn höfuðstól og innborgað hlutafje nam miklu; en hvernig fór? Alt fjeð tapaðist; ekkert var gjört, og enn í dag veit enginn, hvort nokkurt gull er til í Vatnsmýrinni eða ekki. Mjer er ókunnugt um, hvort svo nefnt »Námufjelag Íslands« er áreiðanlegra, en eftir því að dæma, sem eftir það liggur, þá virðist mjer að minsta kosti ekki vera ástæða til að fá því fje í hendur. Að minsta kosti tókst því ekki giftusamlega, þegar það týndi bæði áhöldum sínum og húseignum (!) vestur í Arnarfirði, sem frægt er orðið.

Jeg vænti þess nú, að þingið verði við þeirri almennu ósk, að veita Guðmundi lán til þess að halda áfram kolagreftinum þar vestra. Hann á það fyllilega skilið fyrir dugnað sinn í þessu máli.

Hæstv. ráðherra spurði, hvort Guðmundur gæti sett nokkurt veð til tryggingar láninu. Eins og tekið er fram í tillögunni, þá er ætlast til að hann veðsetji námurjettindi sín og áhöld. Annað veð mun hann ekki hafa, en þótt það sje ekki fulltrygt veð, þá er á hitt að líta, að hjer er verið að gjöra tilraun til árbótar, hjálpa mönnum í Reykjavík og annarsstaðar, til þess að fá kol með skaplegu verði, og þar sem sú er jafnframt tilætlunin með lánveitingunni, þá tjáir ekki að ganga jafn ríkt eftir fulltryggu veði, sem annars væri skylt og sjálfsagt.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á, styrkinn til Ólafs Jónssonar prentmyndasmiðs. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) var, að því er mjer skildist, móti því að veita lánið, vegna þess, hvaða manni ætti að veita það. Jeg vil benda hv. þm. á það, að hjer á landi er enginn annar en þessi eini maður, sem kann þessa iðn. Jeg er viss um, að ekki þarf að óttast það, að maðurinn fái ekki nóg að gjöra. Nú, síðan ófriðurinn hófst, er alveg ómögulegt að fá myndir frá útlöndum, og yrði því nóg fyrir hann að gjöra, ef hann ætlaði sjer að fullnægja eftirspurninni. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) var hræddur um, að myndirnar kæmu ekki að almennum notum, vegna þess, að Ólafur myndi gjöra samband við einhverja vissa prentsmiðju, og yrði með því lögð einokun á myndirnar. Jeg veit ekki hver hefir komið þessari flugu í munn háttv. þm., en hitt veit jeg, að þessi skoðun hans er ekki bygð á neinum rökum. Jeg tel það alveg víst, að Ólafur myndi sjá sjer hag í því, að hafa viðskifti við sem flestar prentsmiðjur, því að með því móti fengi hann mesta atvinnuna. Ótti háttv. þm. í þessu efni er því áreiðanlega ástæðulaus.