12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

30. mál, vörutollaframlenging

Bjarni Jónsson:

Að eina smáathugasemdir. Jeg hafði það ekki sem aðalástæðu til að greina á milli þessara tveggja tolla, að annar væri ranglátur en hinn ekki. Heldur hjelt jeg því fram, að annar væri ranglátari en hinn. Og af tvennu illu eru skynsamir menn vanir að taka það skárra. (Björn Kristjánsson: Það verða þá að vera skynsamir menn). Já, skynsamari en háttv. þm. G.-K. (B. K.). Háttv. þm. talar mikið um grundvöll þessara laga, og sá grundvöllur á að vera mjög djúpskilinn. Jeg fæ aldrei sjeð, að hann sje annar en sá, að fara í vasa manna og ná úr þeim aurum. Viðvíkjandi specialistunum, sem háttv. þm. (B. K.) talaði um, skal jeg geta þess, að jeg fæ ekki betur sjeð en að einmitt vörutollurinn gjöri alla specialista ómögulega. Þegar svo hár tollur er á ódýrum vörum, hvernig eiga menn þá að geta verslað eingöngu með þær vörur? — Jeg hygg að dæmi háttv. þm. (B. K.) um það, að eftirlitið með verðtollinum væri óframkvæmanlegt, hafi ekki verið skýrara, en dæmi þeirra manna, sem voru á andstæðri skoðun. Jeg man svo langt, að þessi lög flutu í gegn um þingið af öðrum ástæðum en þeim, að svo mikilli rökfimi væri beitt af þeim, er fyrir þeim börðust. En við þessa umræðu hirði jeg ekki að minna frekar á það mál.