03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

51. mál, sparisjóðir

Frsm. (Guðm. Hannesson):

Áður en umræðum um þetta mál verður lokið, þá vil jeg leyfa mjer að benda þeim mönnum á, sem telja fastan eftirlitsmann svo nauðsynlegan, að samkv. breytingartillögunum á þgskj. 97 yrði eftirlitið töluvert eigi að síður. Landið er ekki svo stórt, að hætta sje á því, að ekki myndi berast til stjórnarinnar, ef misfellur væru stórkostlegar á einhverjum sparisjóðum eða stjórn þeirra. Og með þessu eftirliti, sem gjört er ráð fyrir, er stjórninni gjört mögulegt, að hafa alt það eftirlit, sem jeg álít að þörf sje á. Auk þessa, þá álít jeg óhugsanlegt, að bankinn eigi erfitt með að leggja til eftirlitsmann 2–3 mánuði á ári, ef honum er kunnugt um þá tilætlun, að hann eigi að gjöra það. Og jeg tel engan vafa á því, að til þess yrði valinn sá maðurinn, er best þætti hæfur til þess, af þeim mönnum, er bankinn hefir á að skipa, og sami maður hafður til þess ár eftir ár. Myndi það því fremur koma að notum, sem maðurinn myndi smám saman fá meiri og meiri áhuga á starfinu, er hann færi að fást við það. Þetta, er jeg nú hefi sagt er aðallega fyrir þá, sem telja eftirlitsmanninn nauðsynlegan. En að því er snertir hina, er vilja helst losna algjörlega við eftirlitið, þá virðist mjer ekki gott, að stjórnin geti ekkert að hafst, þótt hún heyri illar sögur af sparisjóðsstjórnunum; geti ekki komist fyrir það, hvort þetta eru ástæðulausar kviksögur og rógur eða á rökum bygt, og þannig átt kost á að bera þær til baka, eða taki í taumana, ef með þarf. Jeg álít, að það sje varhugavert að breyta mikið frá frumvarpinu, sem samþykt var í neðri deild í fyrra, og hygg að það myndi tæpast verða mikið breytt til batnaðar. Jeg er þakklátur háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að hann hefir bent á, að fallið hefir á burt úr þgskj. 97 ákvæði um fjárveitingu í fjárlögunum til eftirlits; sjálfur hafði jeg ekki gáð að því. En eftir á að hyggja, nú þegar að jeg fer að gá að þessu, þá sje jeg að það stendur hjer, svo að þetta hlýtur að vera einhver misskilningur.