09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

23. mál, sérstakar dómþinghár

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Jeg hefi eiginlega ekkert sjerstakt um þetta mál að segja, annað en það, að jeg er þakklátur háttv. Ed. og tel það vel farið, að hún hefir samþykt frumvarpið um sjerstakar dómþinghár í Öxnadals- og Árskógshreppum. Að vísu er frumvarpið að því leyti breytt, að sjerstakar dómþinghár skuli einnig vera í Reykdæla- og Aðaldælahreppum í Þingeyjarsýslu. Þessari viðbót hefi jeg alls ekki neitt á móti, þar sem mjer er kunnugt um, að þar hagar eins til og í Öxnadals- og Árskógshreppum, að þeir eiga fundarhús hvor um sig, og er þá sjálfsagt, að þeir njóti sömu rjettinda og hlíti sömu lögum, sem hinir hrepparnir. Jeg vil því leyfa mjer að leggja til, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá háttv. Ed.