03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Ráðherra :

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hefir tekið fram ýmislegt, er jeg vildi sagt hafa, svo jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka það. En það er þá fyrst eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.). Hann mun hafa getið þess, að nauðsynlegt væri, að gjöra fyrirspurnir til bæjarfjelaga og sýslunefnda, til þess að vita nokkurn veginn víst, hversu mikils þurfi við á hverjum stað. Það hafa verið gjörðar ráðstafanir um slíkar fyrirspurnir, hversu sje ástatt með matvæli og um neytslu kjöts og fiskjar í venjulegu ári. Að vísu er erfitt að fá ábyggilega vitneskju um þetta, en tilraunirnar hafa þó verið gjörðar.

Þá var það, að háttv. þm. Ak. (M. K.) taldi eignarnámsheimildina í 4. málsgrein 3. gr. nægilega. Jeg held að hún komi ekki að fullum notum, þó hún geti orðið til gagns að einhverju leyti. En ef brtt. á þgskj. 113 er samþykt, þá er auðsjeð hver afleiðingin verður, því þá yrði ekki hægt að framkvæma eignarnám fyrr en aðflutningur heftist. Það er því ekki hægt af þingmönnum, að fara fram á að eignarnám sje framkvæmt meðan aðflutningar heftast ekki. Með öðrum orðum, í haust er ekki hægt að framkvæma eignarnám á íslenskum vörum meðan innflutningur á útlendum vörum heldur áfram.

Þetta er skoðun þeirra manna, sem ekki vilja veita heimild til banns á útflutningi íslenskra afurða. Annars er ekki samræmi í þessu. Það má ekki banna útflutning á íslenskum vörum, en þó á að veita eignarnámsheimild. Jeg heyri að menn segja jú, jú, en þeir verða þó að beygja sig fyrir logiskum rökum. En ef þessir háttv. herrar vilja fella heimild til banns á útflutningi, en halda svo fram, að eignarnámsheimildin komi að notum, eftir sem áður, þá fara þeir eftir öðru en vanalegum lögskýringarreglum, og væri þá heppilegt, að skoðun þeirra á þessu kæmi fram í umræðunum.

Svo skal jeg geta þess, að jeg lít svo á, að framkvæmd á eignarnámsheimild sje ekki betur þokkuð en vægileg framkvæmd á útflutningsbanni. Það ætlast enginn til þess, að útflutningsbannið yrði notað, nema brýna nauðsyn bæri til, og miðað við .það, hversu miklu væri eytt af hverri einstakri vöru, og svo yrði það ekki stjórnin ein, sem rjeði um þetta, heldur yrði og nefnd, sem fjallaði um það. Það er eins og háttv. þingm. sjeu hræddir við, að bannið yrði notað svo stranglega, að yfirleitt yrði bannað að flytja út kjöt og fisk. En það hefir engum komið til hugar, enda væri það þarfleysa. Og þó að sumir trúi ekki stjórninni til að fara með þetta, þá bakaði hann sjer ákúrur, ef lengra væri farið en þingið vill og Velferðarnefnd sá, er þingið að sjálfsögðu kýs til að vinna með stjórninni að þessu. Jeg veit ekki til að slíkt hafi komið fyrir, því að undanfarið hefir verið góð samvinna milli stjórnar og Velferðarnefndar, og stjórnin alt af farið eftir tillögum meiri hluta Velferðarnefndar. Og myndi það mælast betur fyrir, að vaða inn í hús manna og taka þar vörur mað eignarnámi, en að veita heimild til að sjá um, að skildar væru eftir nægilegar vörur í landinu? Jeg held, að það síðara muni mælast miklu betur fyrir, auk þess, að eignarnámsheimild kostar miklu meira í framkvæmdinni; hin að eins nokkur símskeyti. Og ef tilgangurinn er sá, að gjöra eignarnámsheimildina nothæfa, þá verður að gjöra nánari reglur um, hvernig eigi að framkvæma hana. Það gæti nefndin komið fram með við þriðju umræðu.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) skaut því fram, að jeg myndi framkvæma útflutningsbannið í haust. Má vel vera, að slíkt sje nauðsynlegt, og auðvitað er það meiningin, ef það yrði álitið heppilegast. Um það dæmir stjórnin ekki ein, heldur Velferðarnefndin og hún í sameiningu, eins og háttv. þingmaður V.-Sk. veit.

Enn fremur hjelt háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) því fram, að það væri fjárhagalegt tap, að hefta verslunarviðskifti með útflutningsbanni. En ætli það væri ekki meira tap, ef fólkið yrði að svelta, vegna engra ráðstafana?

Það var rjett hjá háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), að með dýru verði á kjöti er erfitt fyrir fátæklinga að afla sjer þess. En hjer kemur fleira til greina, nefnilega að hafa vöruna, því þótt fátæklingar geti ekki borgað hana, þá láta sveitarfjelögin þá ekki deyja úr skorti, ef matvæli eru fyrir hendi.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) mælti með því, að birgja landið með kornvöru. Það yrði ekki gjört í einni svipan. Jeg man ekki hversu mikið það var, samkvæmt áætlun þingsins í fyrra, er búist var við að, myndi þurfa af kornvöru á ári, en áreiðanlega yrðu það margir farmar. Og lítið hefðu »Hermóðavörurnar« dugað, ef kaupmenn hefðu ekki haldið áfram að flytja inn vörur. Þetta er líka neyðarúrræði, því að fjárhagur landsins er svo bágborinn, og lánstraustið ekki svo gott, að hægt væri að birgja landið upp með korni. Enn fremur út

heimtir það geymslu um lengri tíma. Suma mjölvöru er erfitt að geyma, án þess hún spillist. Þetta kom mikið til athugunar í Velferðarnefndinni í fyrra, og einn maður í nefndinni, sem þessu var kunnugur, tók þetta eindregið fram. Og hvernig ætti að útdeila vörunum, orkaði mjög tvímælis í fyrra; kaupmenn voru þá mjög gramir, þótti gengið á sinn hlut.

Jeg var alveg sammála stjórninni um það, að hún hefði gjört rjett, en í þessu sambandi hefir það ekki mikið að þýða. Jeg er ekki með þessu að tala á móti því, að birgja landið með útlendum vörum, en áður en það er gjört, verður að athuga framkvæmdirnar.

Háttv. 1. þingm. Árn. (S. S.) spurði, hvort bannið ætti að eins að ná til þeirra vara, er fara til Reykjavíkur. Jeg býst við, að þessu hafi verið beint til háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), en það hefir víst engum dottið í hug, að bannið næði ekki til allra hluta landsins, ef heimildin til þess yrði samþykt, og þörf væri á. Jeg skil ekki spurninguna, því jeg sje ekki, að orðalagið gefi átyllu til hennar. Spurningin er því út í bláinn, og jeg veit ekki hvers vegna háttv. 1. þm. Arn. (S. S.) hefir komið með hana. En í Reykjavík er íbúatalan hæst, og því mundi þurfa þangað flesta skrokka. (Sigurður Sigurðsson: Eftir hvaða hlutfalli á að hefta útflutning ?). Eftir þörf í viðkomandi hjeruðum; að öðru jöfnu eyða fleiri menn meiru en færri. T. d. eyða 13000 menn í Reykjavík meiru en 1000 menn í Hafnarfirði.

Háttv. samþingismaður minn (S. S.) talaði um hross og hrossafjölda í landinu. En hann er ekki ægilegur í mínum augum, því ef 6500 býli eru á landinu, þá eru þó ekki nema 7–8 hross á hvert býli. (Sigurður Sigurðsson: Það er nóg). Sumstaðar er það ekki nóg, og svo hefir háttv. 1. þingm. Árn. engar skýrslur frá 1914–15. Annars liggur mjer þetta í ljettu rúmi, því að banninu yrði ekki framfylgt út í ytstu æstar, og. ekki nema í ítrustu nauðsyn.

Háttv. þm. Ak. (M. K. ) stakk upp á því, að skipa aðstoðarnefndir út um land, er ættu að vera Velferðarnefnd og stjórn til fulltingis. Þetta getur verið góð hugmynd, en spurningin er, hvort það bakaði ekki talsverðan kostnað, og hvort ekki sje nóg að njóta aðstoðar hreppsnefnda og sýslunefnda. Ef slík nefnd yrði í hverjum hreppi, þá yrði það faktiskt hreppsnefndin. Og stjórnarráðið verður nú, eins og í fyrra, að snúa sjer til sýslunefnda. Jeg er því ekki alveg sannfærður um, að þessar nefndir kæmu að meira gagni en núverandi skipulag.

Háttv. samþingismaður minn (S. S.) kom fram með þá spurningu, hvernig útflutningsbannið yrði framkvæmt. Jeg svaraði því síðast. Það er hægur vandi, og vitanlega verður það gjört á sama hátt og annarstaðar. Stjórnin gefur út auglýsingu um, að útflutningur á þess- um vörum sje bannaðar, án sjerstakra heimilda frá stjórninni. Jeg býst við, að heiðarlegir menn hlýði ; en ef menn vilja flytja út bannvöru, þá senda þeir beiðni um undanþágu frá banninu til stjórnarinnar, og eftir að stjórnin hefir aflað sjer upplýsinga um ástandið í viðkomandi hjeruðum, segir hún álit sitt, og ákveður, hversu miklu skuli vera haldið eftir. Í Danmörku er sjerstök skrifstofa, er heyrir undir dómsmálaráðherrann, og fjallar hún um slík mál sem þessi.

Þar sem sími er til flestra kaupstaða, getur framkvæmd á þessu ekki orðið nein frágangssök á þennan hátt.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) vildi láta þingið ráða þessu alveg til lykta. Frá sjónarmiði stjórnarinnarinnar væri það æskilegt, ef það væri hægt, því að það ljetti vanda og ábyrgð af henni. En jeg veit ekki hvort það var meining hans, að þingið segði hversu mikið ætti að útvega af hverri vörutegund, t. d. korni, salti, steinolíu o. s. frv. Ef það væri unt, þá væri það ágætt, en jeg er hræddur um að það yrði ekki fullnægjandi: 1) þingmenn sjá ekki fram í tímann og vita ekki hvað að höndum muni bera, og þess vegna ekki unt að gjöra ráð fyrir öllu, og 2) þyrfti að binda mikla peninga, sem ekki er víst að þingið hafi handbæra o. fl. En ef þingið treysti sjer til þess, þá skyldi jeg vera óendanlega þakklátur.