03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Magnús Kristjánsson :

Ýmsir háttv. þingmenn hafa sýnt mjer þann heiður, að minnast nokkuð á fyrri ræðu mína. Sumir hafa verið mjer sammála, og þeim þarf jeg vitanlega ekki að svara, en fjórir háttv. þm. hafa gjört athugasemdir við ræðu mína. Það eru þeir hæstv. ráðherra, háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og báðir þm. Rvk. (S. B. og J. M.).

Jeg býst við því, að það yrði of langt mál að svara hverjum einstökum fyrir sig; enda voru það víst sömu athugasemdirnar, og þær fremur ljettvægar, sem komu frá þeim öllum. Jeg skal þá sjerstaklega snúa mjer að ræðu hæstv. ráðherra; mjer virtist hún einna matarmest. Hann upplýsti deildina um það, að ráðstafanir hefðu verið gjörðar til þess, að spyrjast fyrir um ástandið í einstökum hjeruðum alls landsins. Þetta er auðvitað mikið gott, en það snertir alls ekki það mál, sem jeg var að tala um. Jeg var að tala um fyrirskipanir, en ekki fyrirspurnir. Jeg taldi það sjálfsagt, að stjórnin fyrirskipaði það, að grenslast eftir því hjá almenningi um alt land, hvort hann óskaði eftir svona ráðstöfunum, sem hjer er farið fram á, og ef svo væri, þá að hve miklu leyti, svo hægt væri að vita um það, hve mikil höft þyrfti að leggja á í þessu skyni. Enn fremur fanst mjer kenna talsverðs misskilnings í ræðu hæstv. ráðherra, þar sem hann dró það út úr orðum mínum, að jeg hefði haldið því fram, að það væri fyrst þegar innflutningsbann á útlendum vörum væri komið á, sem nota ætti eignarnámsheimildina. Mjer hefir aldrei komið slíkt til hugar, því síður að jeg hafi talað það. Auðvitað á að nota eignarnámsheimildina, þegar fengin er vissa fyrir því, eftir upplýsingum þeim, er jeg taldi sjálfsagt að stjórnin aflaði sjer, hvað þarf að gjöra, en það stendur í engu sambandi við innflutningsbann.

Þá var hæstv. ráðherra að reyna að sýna fram á það, hversu eignarnám væri miklu óaðgengilegra en útflutningabann. Hann. spurði, hvort það væri ekki harðara aðgöngu, að vaðið væri inn í hús manna og eigur þeirra teknar, jafnvel þótt til almenningsnota væri. Jeg get svarað honum því, að jeg er ekki viss um, hvort það sje harðara, að taka einhverja eign manna, svo að fult verð komi fyrir, til almenningsnota, en að leggja á stóra eign óeðlileg höft, sem talsvert tjón er að búa við, og menn geti ekki verið sjálfráðir um, á hvern hátt þeir ráðstafi fjármunum sínum. Jeg hygg, að það sje fult eins nærgöngult.

Af athugasemdum hæstv. ráðherra þarf jeg ekki að svara fleirum, því eins og öllum ætti að vera ljóst, þá var jeg ekki beinlínis að berjast á móti því, að vilji meiri hluta nefndarinnar næði fram að ganga, heldur var jeg að leitast við að sýna fram á það, hversu lang heppilegast það mundi vera fyrir alla, að ágreiningurinn gæti jafnast og alt þingið komið fram sem einn maður. Það mundi verða til þess, að ráðstafanirnar mundu alstaðar mælast betur fyrir og síður vekja tortrygni manna.

Jeg var að reyna að benda á leiðir, sem gætu náð þessum tilgangi. En þetta virðist nú ekki hafa fundið náð fyrir augum háttv. meiri hluta nefndarinnar, svo að það verður þá að vera á hana ábyrgð, hvernig hann hagar sjer í málinu. En þótt undirtektirnar hafi nú orðið þessar, þá ætla jeg að standa fast við það, að jeg mun greiða atkvæði móti tillögum minni hlutans við þessa umræðu, en geymi mjer atkvæðisrjett minn óskertan til þriðju umræðu, ef þá kann að koma eitthvað nýtt fram. En fyrst jeg er nú staðinn upp, þá langar mig til að benda á ýmislegt, sem að mínu áliti lægi fyrir að gjöra, og jafnvel miklu fremur en að hrapa að því óyndis úrræði, sem útflutningsbann er. Í fyrsta lagi tel jeg það alveg bráðnauðsynlegt að sjá fyrir því í tíma, að nægar birgðir verði til í landinu af þeim vörum, sem nauðsynlegar eru til framleiðslu nauðsynjavörunnar, svo sem salt, kol og olía. Þetta verð jeg að leggja afarmikla áherslu á, því ef hægt er að reka sjávarútveginn hindrunarlítið, þá er síður hætta á ferðum. Enn fremur vil jeg benda á það, að jafnvel þótt forðagætslulögin sjeu yfirleitt ekki vinsæl, þá getur það verið gott, að nú sje haft strangt eftirlit með því, að þeim sje beitt vel og þess gætt, að menn setji ekki á í voða. Það er svo þýðingarmikið nú, að ef full vissa er fengin fyrir því, að fargað verði svo miklu fje í haust, að fóðrið verði nóg, þá má segja, að góð ráðstöfun sje gjörð. Þetta þykir nú ei til vill heldur ljett á metunum, en það er þó þess vert, að það sje athugað.

Áður en jeg skilst frá málinu — jeg er nú bráðum dauður, — þá vil jeg lítilega minnast á það, sem nú síðast í umræðunum hefir komið skýrt fram, en mönnum mun áður hafa verið óljóst. Jeg held, að mönnum hafi ekki verið það ljóst, hvernig útflutningsbanninu yrði fyrir komið. Nú liggur fyrir skýr yfirlýsing stjórnarinnar um það, að ekki sje til annar vegur, en leggja bann á allan útflutning af vörunum, en svo er auðvitað gjört ráð fyrir því, að hægt sje að veita undanþágu frá þessu banni. Mjer var það raunar ljóst, að þetta yrði ekki framkvæmt á annan hátt, en það er gott að hafa yfirlýsingu hæstv. ráðherra um það, að þetta sje eini vegurinn. Og jeg efast ekki um, að stjórnin muni veita þessar undanþágur að svo miklu leyti, sem hún sjer sjer fært. En jafnvel þótt hún gjöri alt sitt besta í þessu efni, þá sjá allir, að þetta hlýtur að valda miklum óþægindum og takmörkun á frjálsu viðskiftalífi. Mönnum verður það erfitt að gjöra samninga, þótt tækifæri bjóðist, því að þau bíða ekki alt af eftir því, að hægt sje að ná í undanþáguna. Þar sem símasamband er, þarf þetta auðvitað ekki að taka langan tíma, en því er nú ekki nærri alstaðar að fagna, og svo er því nú þannig varið um þau mál, sem verða að ganga stjórnarvalda leiðina, að töfin getur oft orðið mikil og stundum vandkvæði á því, að ráða úr, hvort leyfi beri að veita eða ekki. Mjer þótti vænt um, eins og jeg hefi þegar sagt, að þessi yfirlýsing er fram komin vegna þess, að sumir háttv. þingmenn hafa gefið það í skyn, að þessu útflutningsbanni mundi ekki verða beitt, nema að einhverju litlu leyti. En vegna þessara óþæginda, sem jeg hefi ómótmælanlega sýnt fram á, að mundi leiða af þessu fyrirkomulagi, þá væri mjer það jafnvel nær skapi, að ákveðið væri fyrir fram af þinginu, að fengnum nægum upplýsingum, að einhver viss hluti af vörunum skyldi vera kyrsettur í landinu, en menn hafa óheft yfirráð yfir afganginum.

Það er auðvitað erfitt, að ákveða það nú þegar, hve mikill hluti skuli vera kyrsettur. Það er órannsakað enn, og þess vegna vil jeg ekki koma með neina uppástungu núna í því efni, en sem sagt, þá feldi jeg mig betur við þetta fyrirkomulag og það jafnvel þótt tiltekinn væri nokkuð ríflegur hluti, sem eftir skyldi vera í landinu.

Jeg man svo ekki eftir, að jeg hafi fleiri athugasemdir að gjöra að þessu sinni.