23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

87. mál, lögtak og fjárnám

Framsm. minni hl. (Benedikt Sveinsson) :

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) leggur mikla áherslu á það, að það sje ekki nema rjett að veita kirkjufjelögum lögtaksrjett, þar sem hið opinbera legði á þau gjaldskyldu, og væri það frábrugðið því, sem gjörist um önnur fjelög. Látum svo vera, að þau vilji það, en nú hefir þó eigi komið fram ósk í þessa átt, nema frá einu einasta slíku fjelagi í landinu. En þar sem nú er bent á aðra leið í hinu frv., sem um er að ræða, til þess að losa söfnuðinn við kvaðir af hálfu hins opinbera, þá fellur sú ástæða burt, ef það frv. er samþykt. Rjettindakrafan fellur niður, ef skyldunni er ljett af. Og þótt ekki kunni að vera alveg eins varið með önnur fjelög, þá hefir þó hið opinbera á ýmsan hátt hönd í bagga með starfsemi margra þeirra og leggur á þau kvaðir, og fylgir því þó ekki lögtaksrjettur. T. d. er Bókmentafjelagið styrkt af hinu opinbera og kröfur gjörðar til þess, að það standi í skilum um ákveðna útgáfu bóka, og verður það þó að eiga alla innheimtu undir sjálfu sjer og er ekki styrkt með lögtaksrjetti. Jeg játa það, að hjer er ekki alveg eins ástatt, en líkt er það.

Enn fremur má minna á það, að nú er að eins ákveðið lágmark gjaldanna til þessara safnaða af hinu opinbera, en oft er það, að meðlimir þeirra gangast undir það, að gjalda meira, og mætti þá spyrja, ef 5 kr. hefði verið lofað, hvort lögtakarjetturinn ætti að ná til þeirra allra, eða að eina kr. 2,25. Þetta ætti að koma skýrt fram, því að ella getur þetta valdið þrætum.

Á hinn bóginn eru það eins dæmi, að semja lög um lögtaksrjett á gjöfum. Jeg veit þess að minsta kosti engin dæmi í nokkurri löggjöf í heiminum. En það, sem menn borga í söfnuðum umfram lögboðið skyldugjald, það eru gjafir. Frumv. er og fram komið eftir óskum einnar fríkirkju hjer í bænum, en þær munu vera þrjár hjer alla, fyrir utan smærri söfnuði, er óháðir eru þjóðkirkjunni, svo að jeg sje enn síður ástæðu til þess að taka þetta til greina. Jeg held algjörlega óvíst, að þessir fríkirkjusöfnuðir kæri sig minstu vitund um það, að hið opinbera sje nokkuð að vasast í þeirra málefnum. Samkvæmt þessu, er jeg nú hefi sagt, get jeg ekki breytt skoðun minni í þessu máli, þrátt fyrir skýringar háttv. 1. þm. Reykv. (S. B.).