04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Framsm. (Sigurður Eggerz) :

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir nú borið fram brtt. við þetta frumv., sem hjer liggur fyrir, og sem hann hefir mælt með og skýrt í ræðu sinni. Þessi tillaga er svo seint fram komin, að nefndin hefir ekki getað athugað hana nákvæmlega. Þó hjelt hún fund í morgun, til þess að ræða þessa tillögu. Á þessum fundi var landssímastjórinn staddur, og upplýsti hann það, að hann hefði ekki rannsakað málið neitt, en taldi það ekkert brot á símalögunum, þótt þessum línum yrði bætt við. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að gjöra neina ályktun um málið, vegna ókunnugleika og vantandi upplýsinga, og er því óbundin að öllu leyti.

Þá er önnur brtt. frá sama háttv. þm., þar sem lagt er til, að 2. gr. frv. falli burtu. En 2. gr. frumv. hljóðar um það, að stjórninni veitist heimild til að reisa loftskeytastöð hjer í Reykjavík, þótt hún nái ekki til útlanda. Jeg held, að háttv. þm. (B. J.) hafi ekki minst á þessa brtt. sína í ræðu sinni; að minsta kosti hefi jeg ekki heyrt ástæður hans fyrir henni, en jeg verð eindregið að leggja það til, að hún verði feld.

Eins og jeg tók fram við síðust umræðu þessar máls hjer í deildinni, þá hefir landssímastjórinn lýst yfir því við nefndina, að þessi litla stöð, sem í ráði er að reist verði, komi að fullum notum, þótt síðar verði reist önnur stærri, því að það sje ekkert því til fyrirstöðu, að litla stöðin verði stækkuð. Kostnaðurinn við að reisa stóru stöðina minkar því í hlutfalli við það, hvað þessi stöð verður dýr.

Jeg gleymdi að taka það fram við 2. umr. þessa máls, að landssímastjórinn ljet það í ljós við nefndina, að honum þætti rjett, að bærinn ljeti af hendi ókeypis lóð undir stöðina. Það mun vera siður annarstaðar að gjöra það, svo sem í þakklætisskyni fyrir þau þægindi, sem loftskeytastöðvar veita.

Jeg skal taka það fram, að þótt nefndin sje öll á einu máli um það, að rjett sje að gefa stjórninni þessa heimild, þá hefir hún þó ekki getað orðið sammála um það, að ýta undir stjórnina með að flýta þessu máli. Jeg skal lýsa yfir því, fyrir mitt leyti, að það er mín persónulega skoðun, að meira liggi á að reisa þessa stöð en nokkra símalínu, sem nú er í fjárlögunum. Sjávarútveginum væri áreiðanlega trygging í þessari stöð. Það er ekki vafi á því, að þegar þessi stöð er komin upp, þá fara íslensku togararnir að koma sjer upp loftskeytatækjum. Auk þess yrði þessi stöð til ómetanlegra þæginda fyrir skip Eimskipafjelagsins, sem nú hafa fengið loftskeytatæki. Jeg álít, að Alþingi eigi að leggja aðaláhersluna á það, að stuðla sem best að því, að auka framleiðsluna landinu, en það gjörir það á engan hátt betur en með því, að greiða sem best götu sjávarútvegarins og landbúnaðarins. En af þessu leiðir svo aftur það, að við megum ekki íþyngja þessum atvinnuvegum með sköttum og álögum, eins og mjer hefir fundist bóla á, að sumir vildu gjöra á þessu þingi.

Jeg skal taka það fram, að mjer er fullkunnugt um það, að það er nógu mikið eftir af ritsímalínu, sem tekið var 1913, til þess að reisa þessa loftskeytastöð fyrir, og skal jeg ekki orðlengja þetta frekara að sinni.