04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Matthías Ólafsson :

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) talaði um það, hve mikið gagn væri að hinni fyrirhuguðu loftskeytastöð. Jeg spurði hann, að hverju leyti hún kæmi sjávarútveginum að gagni, en fjekk ekkert svar við því. Jeg ætla nú að endurtaka spurninguna og óska, að fá greinilegt svar við henni. Það er alt undir því komið, hvernig jeg greiði atkvæði í þessu máli. Jeg get ekki skilið gagnið af loftakeytastöð, sem ekki dregur til útlanda, og ætti mjer þó að vera það mál eina ljóst og háttv. þm. V.-Sk. (S. E ). Það er að vísu satt., að við gætum ef til vill fengið frjettir af skipum, sem eitthvað gengi að eða hefðu farist, og gagnið yrði þá ekki annað en að sorgarfregnir kæmu fyrr en ella. Þetta held jeg sje eina dæmið.

Annað mál er það, ef stöðin drægi til útlanda; þá gæti verið hjálp að henni á ýmsa vegu, t. d. ef sæsíminn bilaði, en það yrði ekki eingöngu sjávarútveginum í hag, heldur öllu landinu. Að vísu gætu útvegsmenn fengið að vita, hvað botnvörpungar þeirra fengju á hverjum degi, ef þeir þá hafa loftskeytaáhöld, en að það eitt sje hagur fyrir útgjörðarmennina held jeg sje ómögulegt að segja.

Það væri hugsanlegt, að frjettir kæmu hingað með sæsímanum um, hvernig markaður stæði í útlöndum, t. d. að hann væri lágur í einhverjum hafnarbæ, sem útgjörðarmaður hefði sent botnvörpung sinn til, og að hann gæti þá sent skipinu skeyti um, að fara ekki þangað, heldur eitthvað annað. Jeg get ekki sjeð, að stöðin gæti komið að gagni á annan hátt. Það er ekki nóg að segja, að það sje sjávarútveginum til gagns, að þessi stöð sje reist, það verður að leiða skýr rök að því. Og mitt atkvæði í þessu máli veltur á því, að það sje sýnt.

Jeg get ekki heldur sjeð, að stöðin geti komið landbúnaðinum að haldi, meðan hún dregur ekki lengra en til Færeyja.