03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. meiri hl. (Jón Magnússon):

Jeg skal játa, að það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að örðugleikar geta orðið á því, að kalla saman aukaþing um tíma að sumri, ef tillögur meiri hluta nefndarinnar ern samþyktar. En það hlýtur alt af að verða svo, svo framarlega sem landskosningar og kjör í einstökum kjördæmum fara ekki fram sama dag, en það verð jeg að álíta, að sje óheimilt samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá. Hún gjörir ráð fyrir millibili milli kosninganna, og það má varla vera styttra en 2–3 mánuðir. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að ástæða sje til þess að halda, að fremur verði nauðsyn á að kalla saman aukaþing að sumri en á öðrum tíma ára. Það mætti líka haga því svo, að stjórnarakráin gengi ekki í gildi fyr en seinast í júní næsta ár. Þá yrði það ekki langur tími, sem ekki væri hægt að kalla þingið saman, því að þegar landakjörið væri um garð gengið, mætti kalla þá sex landskjörnu þingmenn og 34 gömlu þjóðkjörnu þingmennina saman. Það má má ske segja, að það væri óviðkunnanlegt, að láta þessa gömlu þingmenn sitja á þingi, eftir að hin nýja stjórnarskrárbreyting væri gengin í gildi, en jeg verð að telja það fullkomlega löglegt. Þingið yrði auðvitað ekki hægt að halda fyr en í ágústmánuði, með því að ekki yrði kunnugt um landakjörið fyrr en seint í júlí. En jeg býst ekki við, að það þyrfti að sitja lengur en hálfan mánuð, og yrði þá nógur tími fyrir þingmenn, sem bjóða vildu sig fram aftur, til að ferðast um viðkomandi kjördæmi og halda fundi. Allur annar undirbúningur undir kosningarnar gæti auðvitað farið fram meðan þingið sæti. Jeg held þess vegna, að þetta hafi verið óþarfa grýla hjá hæstv. ráðherra.

Viðvíkjandi kjördegi kjördæmakosninganna, 18. sept., þá býst jeg við, að nefndin breyti honum til 3. umr. í 11. sept., ef menn að öðru leyti fallast á skoðanir hennar. Það væri auðvitað hentugra fyrir marga sjómenn, að sá kjördagur væri 1. vetrardag, en úr því vandkvæði er nú bætt mikið með lögunum um það, að þeir geti kosið, hvar sem þeir eru staddir. En 11. sept. er með það fyrir augum ekki óhentugur tími, því að fiskiskútur t. d. koma flestar inn seinast í ágústmánuði. Fyrir botnvörpunga er lítt mögulegt að segja, hvaða dagur sje hentugastur, þar sem þeir eru alt árið til fiskjar. Það væri kann ske helst síðast í septembermánuði. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar; jeg vil að eina leggja áherslu á það, að mjer virðist það svo ljóst, að ekki verði um það deilt, að það er ótvírætt brot á ákvæði stjórnarakrárinnar, ef landakosning og kjördæmakosningar eru látnar fara fram samtímis.