25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsm. meiri hl. (Magnús Kristjánsson) :

Það er fremur lítið, sem jeg hefi við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. Aðrir hafa ekki talað verulega á móti frumv. en háttv. frsm. minni hl. (S. E.). Hann ljet í ljós þakklæti til okkar flutningsmannanna fyrir að hafa komið fram með þetta mál, og get jeg ekki betur sjeð, en að í því liggi viðurkenning fyrir því, að málið sje þarft, og að það hafi verið orð í tíma töluð, að hefja mála á, að koma því í framkvæmd nú. En þetta kemur ekki vel heim við þá stefnu, sem hann hefir tekið í málinu. (Sigurður Eggerz: Það var skrítið). Því að hann álítur nauðsynlegt að slá málinu á frest, eða með öðrum orðum, að það sje ótímabært, að koma fram með það nú. Hvað sem því líður, þá álít jeg verr farið en heima setið, að hreyfa þessu máli nú, ef endilega á að slá því á frest. Jeg get búist við því, að sömu mótbárurnar komi fram síðar, þó að málinu sje frestað nú, og svo gæti gengi það óendanlega. Og þá stöndum við engu nær eftir en áður.

Þessi vegur, að bera fram rökstudda dagskrá, til þess að slá málinu á frest, hefir verið notaður iðulega á þessu þingi og oft áður, en jeg álít að hann eigi ekki vel við þetta mál. Jeg álít mjög mikilsvert, ef menn telja ekki málið því ísjárverðara, að Ed. gefist einnig tækifæri til að íhuga það. Henni hefir verið við brugðið fyrir varfærni í einu og öðru, og er því vel treystandi

til að hindra framgang þessa máls, ef ástæða er til.

Að sjálfsögðu er jeg á móti rökstuddu dagskránni, — það þarf jeg ekki að taka fram.

Það, sem háttv. frsm. minni hl, (S. E.) hefir fært fram í nefndarálitinu, sínu máli til stuðnings, er aðallega það, að þetta fyrirkomulag gæti verið viðsjárvert, vegna áhættu landssjóðs og sveitarfjelaganna. Jeg varð ekki var við, að hann kæmi með aðrar röksemdir í ræðu einni, og því hefi jeg svo sem engu að svara. Eitt kom nokkuð greinilega fram, bæði hjá háttv. minni hl. (S. E.) og jafnvel hjá fleirum, að málið horfi nú töluvert öðru vísi við eftir þessa breytingu en ef lögin stæðu óbreytt, eins og þau eru, að áhættan sje miklu meiri eftir frumv. en ella. Jeg verð að álíta, að þeir menn, sem þessu halda fram, hafi ekki sett sig nógu vel inn í málið. Eftir frumv., eins og það kom frá flutningsmönnunum, má þetta, ef til vill, til sanns vegar færast. Það var flutningsm, full ljóst, en þeir sáu, að þessu varð ekki bjargað úr sjálfheldunni, sem það er komið í, nema með því, að einhver veruleg breyting væri á því gjörð. En jeg álít, að nefndinni hafi tekist að draga svo úr áhættunni, að með miklum rökum megi segja, að hún sje nú litlu meiri en þó að lögin stæðu óbreytt, eins og þau eru.

Þegar þess er gætt, að lausafjártryggingarupphæðin má ekki nema meiru en 1/5 af húsatryggingarupphæðinni, þá virðist vera svo varlega farið, sem frekast er unt að ætlast til. Endurtryggingin, sem svo mikið hefir verið gjört úr, er heldur ekki útilokuð: Það er ætlast til, að hún fáist eins fljótt og frekast er unt, og það getur orðið strax á sama árinu, því að líklegt er; að útlendu fjelögin mundu taka að sjer endurtrygginguna, þegar þau sæju alvöruna, og að þau biðu tjón af því, að vátryggja ekki. Þetta er auðvitað ekki hægt að fullyrða., en því fjarri, að það sje útilokað.

Háttv. framsm. minni hl. (S. E.) vildi hálfvegis liggja nefndinni á hálsi fyrir það, að hún hefði vanrækt að afla sjer skýrslna um brunaskaða á undanförnum árum. Jeg býst nú við því, að erfitt sje að útvega slíkar skýrslur, svo að ábyggilegar sjeu, og jeg lít svo á, að ekki sje. hægt að krefjast slíka af þingn., sem hefir nauman tíma og nefndarmenn önnum kafnir af öðrum störfum. Það lægi miklu nær, að ætla stjórninni að láta nefndinni Slíkar skýrslur í tje, og þá væri auðvitað skylda hennar að athuga þær, ef málið væri fengið henni svo undirbúið af landstjórnarinnar hálfu, en það lítur ekki út fyrir, að fráfarandi stjórn hafi gjört sjer mikið far um að greiða fyrir þessu máli.

Þá fanst mjer kenna talsverðs misskilnings hjá þeim mönnum, er hafa haldið því fram, að hjer væri um landssjóðafyrirtæki að ræða. Það hefir aldrei verið tilætlunin. Þetta er sjálfstæð stofnun, sem hefir sitt fje út af fyrir sig, og það verður ekki sagt, að hagur fjelagsins og landssjóðs sje svo nátengdur, að hægt sje að kalla þetta landssjóðsfyrirtæki. Það er sjerstakt, þótt landssjóður gengi í ábyrgð fyrir það.

Háttv. þm. (S. E.) sagði, að það væri staðhæfing hjá meiri hlutanum, að engin yfirvofandi hætta væri á ferðum. Hann fór ekki alveg rjett með þessi orð mín, en eftir því, sem sjeð verður, komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að eftir undanfarinni reynslu, þá væri það sjáanlegt, að brunatjón mundi ekki verða meira en svo, að slíkt fjelag sem þetta gæti vel borið það. Jeg vil spyrja hv. þm. (S. E.) um það, hvort hann haldi ekki, að lítið yrði úr framkvæmdum, ef aldrei væri stigið það spor, sem einhver möguleg áhætta gæti verið. Það má segja það um hvaða fyrirtæki sem er, að hætta geti af því stafað. Ef menn settu það alt af fyrir sig, mundi aldrei verða neitt úr neinu. Það mundi ekki þykja hygginn búmaður, sem hefði kýrnar sínar alt af geldar, vegna þess, að hann væri hræddur um að eitthvað kynni að fatlast við þær um burðinn, eða fargaði öllum sínum fjenaði, af því að ein rolla hefði drepist úr pest. Svona má telja upp í það óendanlega. Í hvert skifti, er menn leggja af stað til aflafanga, eiga menn á hættu að koma ekki öllu heim heilu og höldnu; en hugsunin um einhverja mögulega hættu, má ekki leiða menn út í öfgar. Það er auðvitað, að fjelagið fengi ekki staðist það, ef stórir náttúruviðburðir gjörðu afskaplegt tjón, en jeg hygg, að útlendu fjelögin hafi trygt sjer það, að greiða ekki slíkt tjón, svo að það breytir engu.

Þá má drepa á það, að þótt fyrirkomulag það, sem nú er, sje álitið svo trygt, að ekki megi hrófla við því, þá er það ekki alveg útilokað, að svo geti farið um útl. fjelögin, sem hv. þm. V.-Sk. (S. E.) er svo hræddur um um þetta fjelag, að þau sjeu ekki fær um það, að standa við skuldbindingar sínar. Það gæti hugsast, að ófriðurinn hafi valdið ýmsum fjelögum því tjóni, að þau geti ekki staðið straum af skuldbindingum sinum. Enn fremur hefir það nokkra þýðingu í þessu máli, hve oft útlendu fjelögin hafa verið með hótanir um það, að hætta að tryggja eignir hjer á landi. Raunar hefir það hingað til ekki reynst annað en undirbúningur undir hækkun iðgjalda, en allur er varinn góður, og best að vera við öllu búinn, sem fyrir kann að koma.

Jeg ætlaði mjer ekki í neinar hnippingar út af þessu máli; það á ekki við, og jeg efast ekki um það, að háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) gengur alt gott til varfærninnar. Og öll nefndin var líka á einu máli um það, að gæta sem mestrar varfærni.

Jeg minnist þess, að einn hv. nefndmanna, hv. 1. þm. Rvk. (S. B.), ljet það í ljós í byrjun nefndarstarfanna, að honum þætti þetta mál allviðsjárvert, en hann lagði fram tíma og krafta, til þess að rannsaka málið á allar lundir, og leggja það niður fyrir sjer, þangað til fengin var föst niðurstaða. Aftur á móti hefi jeg ekki orðið var við, að hv. þm. V.-Sk. (S. E.) hafi gjört það, eða gjört sjer far um að finna nýjar leiðir, til þess að hrinda þessu máli fram. Mjer virðist þetta mál svo vaxið, að þeir menn, er vilja vera, og hafa sjálfsagt mörg skilyrði til þess, að vera leiðtogar þjóðarinnar, megi ekki hamla aftur á í því. Jeg býst ekki við, að það verði sigurvænlegt til þjóðfylgis. Hitt væli líklegra, til þess að ávinna sjer traust og hylli, að gjöra eitthvað, sem hægt væri að benda á, að væri til þess að greiða málinu götu. Að vísa málinu til stjórnarinnar, er hið sama og að gjöra ekki neitt. Það er ekki hægt að búast við því, að stjórnin geti undirbúið málið meir en þegar hefir verið gjört. Þar sem allar þær stjórnir, er að völdum hafa setið, síðan þessi lög voru samþykt, hafa ekki getað hrundið málinu lengra áleiðis, þá er ekki hægt að búast við því, að núverandi stjórn hafi meiri möguleika í þá átt. Þess vegna verður þingið að afgreiða málið til fulls nú.

Nú skulum við segja, að hjer sje óvarlega farið, og gæti jeg þá bent mönnum á auðvelt ráð, til þess að losna við þann ótta. Jeg kem ekki fram með slíka tillögu sjálfur, því að jeg álít enga hættu vera á ferðum.

Í frumv. er það tekið fram, að lögin skuli komast í framkvæmd svo fljótt sem auðið er. Þessu mætti breyta á þann hátt, að stjórninni væri heimilt að fresta framkvæmd málsins, ef fjárhagurinn, vegna einhverra ófyrirsjáanlegra orsaka, reyndist óvanalega erfiður. Það ætti þá öllum þingmönnum að vera hættulaust að samþykkja frumvarpið nú, því að þeim, sem hræddir eru við, að ráðast í þetta mál strax, ættu með þessu að geta friðað samvisku sína. Allir játa, að málið sje nauðsynjamál, sem verði að komast fram bráðlega, og er þá innanhandar að koma með brtt. við 3. umr., í þá átt, að fjelagið taki ekki til starfa nú þegar; ef eitthvað ófyrirsjáanlegt, er snerti fjárhaginn, kæmi fyrir, þá megi stjórnin slá því á frest.

Þegar á þetta er litið, get jeg ekki annað sjeð en að öllu sje óhætt. Vilji menn firra landið hugsanlegu tjóni, þá er hægt að fara þá leið, er jeg hefi bent á.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, býst ekki við, að mikið nýtt komi fram í málinu úr þessu.