25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Skúli Thoroddsen:

Eftir því, sem jeg hugsa meira um mál það, er hjer um ræðir, sje jeg það æ betur og betur að jeg get ekki greitt götur neins þess, er framgang þess heftir, þar sem jeg tel það mjög mikilsvarðandi, að málið nái, ef unt er, fram að ganga á þinginu, eða sje þó að minsta kosti yfirvegað sem rækilegast og komist því til efri deildar.

Jeg tel það yfirleitt mjög leitt, að innlent brunabótafjelag skuli enn ekki hafa getað komist á laggirnar.

Ástæðurnar til þess eru öllum kunnar, og að vísu mjög skiljanlega, með því að »Brunabótafjelag Íslands« gat samkvæmt lögunum frá 27. nóv. 1907 ekki tekið til starfa, nema endurtrygging fengist hjá útlendum brunabótafjelögum; en erlendu ábyrgðarfjelögin neituðu um alla endurtryggingu; — vildu sjálf sitja ein áfram að krásinni, meðan sætt væri.

Á hinn bóginn dylst eigi, hve afar áríðandi það er, að við fáum sem allra bráðast komið máli þessu áleiðis, þar sem fjeð streymir nú árlega út úr landinu, og það ekkert smáræði, þar sem ábyrgðarfjelögin taka jafnvel 10–12‰ fyrir ábyrgð á lausafje, og húseignum utan Reykjavíkur.

Það er því ekki ákjósanlegt, að mínu áliti, að draga málið nú frekar á langinn en orðið er. En verði frumvarpið, sem hjer liggur fyrir, samþykt, þá geta lögin strax komið til framkvæmda, ef vel gengur, en stjórnin ella undirbúið málið til næsta þings. Ef dagskráin aftur á móti verður samþykt, þá hlýtur framkvæmd laganna að dragast um óákveðinn tíma, og því get jeg ekki greitt henni atkvæði mitt.

Jeg skil það vel, að hv. minni hl. (S. E.) sje kvíðafullur, og þyki áhættan vera mikil fyrir landssjóð; en þegar tekið er tillit til þess, að ekki fæst vátrygt nema 2/3 af verði eignarinnar, þá virðist mjer áhættan þó ekki vera mjög mikil.

Brunahættan minkar þá og talsvert við það, að eftirlitið hlýtur að verða að mun betra en nú er, þar sem sveitar- eða bæjar-fjelaginu, sem eignin er í, er ætlað, að vátryggja hana og að 1/0 hluta, svo að öllum hlýtur því, að vera það mjög hugleikið, að brunar verði einatt fyrirbygðir, eða stöðvaðir, sem og æ að uppvíst verði, ef um glæpi er að ræða.

Þá má og benda á það, að meiri líkur eru til, að útlendu ábyrgðarfjelögin verði fús á, að endurtryggja, ef frumvarp þetta verður að lögum, þar sem þau hljóta þá og að vita, að það er þá ekki lengur á þeirra valdi, að hefta framkvæmd laganna.

Jeg sje og ekki ástæðu, til að hafa iðgjöldin eins lág, eins og ráðgjört hefir verið. Mjer finst, að Íslendingar ættu mjög fúslega að sætta sig við það, að borga jafnvel 8–10 %0 fyrst um sinn, þegar fjeð á að renna í vasa landsmanna sjálfra, þar sem þeir hafa ella orðið að sætta sig við, að borga 10-12 ‰, og fjeð þó alt runnið út úr landinu.

Ef hepnin er með, þá hlýtur fjelaginu og fljótt að safnast sjóður að mun, og áhætta landssjóðs þá og að hverfa. Þá má og eigi gleyma því, að það, að voga aldrei, það er — að tapa einatt.

En fari, sem verst getur farið, að landssjóður bíði stórtjón, þ. e. verði að leggja út fje að mun, og eiga það útistandandi árum saman, uns auka-iðgjöldin hafa safnast svo, og fjelagið efnast svo ella, að landasjóður fái sitt aftur, þá ber æ að hafa það í huga, að það var góðu nauðsynjamálefni til styrktar, er landssjóður tók á sig áhættuna, sem og skylt var.

Og góða málefnið æ það, sem gott er, að hafa liðið fyrir; — hefir þá og sín umbun, fyrr eða síðar, í för með sjer, og getur þá og á þann háttinn æ orðið landinu, og öllum, til ómetanlegrar sí-blessunar.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en mæli sem best með því, að frumvarpið og breytingatillögur meiri hluta nefndarinnar fái fram að ganga.