25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsögum. minni hl. (Sig. Eggerz) :

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að það væri ekki ástæða til að vera neitt hræddur í þessu máli. Þetta er að eins almenn athugasemd, sem hann leitaðist ekki við að byggja á rökum, því að hitt mintist hann ekki á, hvort af þessu gæti leitt hættu fyrir landssjóðinn. Yfirleitt varð jeg ekki var við, að það kæmi neitt nýtt fram í ræðu hans, sem ástæða væri til að minnast á. Hann talaði um, að svo framarlega sem þessari ábyrgð væri fyrirkomið á þá leið, sem hugsað væri í frumv., þá væri sjálfsagt, að virðingarmenn væru skipaðir, til að gjöra virðingar undir eiðstilboð. Jeg vil leyfa mjer að minna hann á, að nú virða virðingarmenn undir drengskaparheit, sem komið er í staðinn fyrir eiðinn. (Matthías Ólafsson: Hjer í Reykjavík). Einnig úti um land; það er alstaðar heimtað. (Matthías Ólafsson: Það er ekki virt til brunabóta úti um land). Jú, það er mjög víða gjört. Í þeirri sýslu, sem jeg er kunnugastur, er fjöldi húsa virtur til brunabóta. (Matthías Ólafsson: Hjá hvaða fjelögum?). Hjá ýmsum fjelögum, t. d. því, sem bankastjóri Sighvatur Bjarnason hefir umboð fyrir.

Háttv. þingmaður var að tala um, hve nær landssjóður spekúleraði og hvenær ekki. Jeg held að það sje töluverður vandi, að segja um það, en jeg vil segja, að þetta eigi ekki að vera »spekúlations«-fyrirtæki. Það er enginn vafi á því, að svo framarlega sem landssjóður tekur að sjer brunabótaábyrgð, þá minkar tiltrú hans. (Matthías Ólafsson: Uss-uss-uss). Það er ekki nóg að segja uss, því að það er gefið, að það gengur svona til, bæði um einstaka menn og stofnanir, að þeir, sem hafa með höndum áhættu, sem ekki er hægt að reikna út, missa traust að sama skapi og áhættan veg, tiltrúin minkar.

Jeg held því fast fram, að það má ekki hleypa landssjóðnum inn í slík »spekúlations«-fyrirtæki, að minsta kosti ekki fyr en málið hefir verið rækilega rannsakað, svo að menn gangi ekki gruflandi að því, hvað gjöra beri. Ef það er rjett, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) tók fram, að það sje ekki áhætta fyrir landssjóðinn, að leggja út í þetta, heldur sje hjer miklu fremur um gróðafyrirtæki að ræða, þá er ógnarlega hægt að komast út úr málinu á annan hátt, með því að húseigendur ábyrgist með gagnkvæmri ábyrgð hver hjá öðrum. Svo framarlega sem það er rjett, að þetta sje áhættulítið, þá mætti koma því fyrir á þenna hátt.

Annars voru þær skrítnar, allar þessar athugasemdir í ræðu háttv. þm. V.- Ísf. (M. Ó.) um lyftistangir o. s. frv. o. s. frv. Jeg sje ekki betur, en að bæði meiri hlutinn og minni hlutinn vilji að málið gangi áfram. Ágreiningurinn er að eins sá, að minni hlutinn vill rannsaka málið betur, og fara að engu óðslega, og það er mjög eðlilegt, þegar til þess er litið, að hjer í háttv. deild hefir enginn maður nokkurn snefil af sjerþekkingu í þessu máli. Þegar verið er að tala um að setja á stað fyrirtæki, sem útheimtir sjerþekkingu, þá má það furðulegt heita, að þeir menn, sem vantar alla sjerþekkingu, skuli ekki vilja láta setja það á stofn einmitt á grundvelli sjerþekkingarinnar. Mjer er ómögulegt að skilja, að það hafi verulega þýðingu fyrir þetta mál, hvort það er sett á stað nú á þessu þingi eða látið bíða næsta þings. Jeg skil ekki, að því liggi svo á, að það geti ekki beðið 1–2 ár, svo að hægt sje að setja það á stofn á skynsamlegan hátt. Og því fremur væri ástæða fyrir þingið til að krefjast þess, að málið yrði sem best rannsakað, þar sem það er vitanlegt, að hvergi nokkurstaðar, hvar sem leitað er á bygðu bóli, eru til landstryggingar. Reynslan sýnir, að menn hafa ekki viljað láta ríkissjóðina lenda í brunahættunni. Mig stórfurðar á því, að menn skuli hrista höfuðið yfir því, að jeg vil skjóta þessu máli undir dóm sjerfræðinga, því að það hlýtur að hafa stórverulega þýðingu fyrir málið, að það sje sett á stað á rjettum grundvelli.

Jeg vona fastlega, að allir varfærnir menn, og allir þeir, sem vilja þessu máli vel, stuðli að því, að það verði sett á stofn á grundvelli sjerþekkingarinnar.

Út af orðum hæstv. ráðherra, þar sem hann tók það fram, að hann treysti sjer ekki til að undirbúa þetta mál, og óskaði, að því yrði vísað til undirbúninga til manna, sem hefðu sjerþekkingu á því; skal jeg leyfa mjer að lýsa yfir því, að jeg mun ekki draga úr því, að stjórnin fengi nægilegt fje til að láta rannsaka það sem best, og jeg vona, að sem flestir háttv. þingdeildarmenn segi slíkt hið sama.