10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Flutnm.(Pjetur Jónsson):

Jeg skal lofa því, að vera stuttorður. Jeg skal geta þess, að við, sem berum fram þetta frumv., höfum ekki haft mikinn tíma til að skrafa saman um það. Við höfum orðið að nota mestan tímann til að hugsa málið, en sem minstan til að masa um það.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefir hjer í dag haldið langan fyrirlestur um flokkaskiftinguna í þinginu. Jeg get ekki sjeð, hvað það kemur þessu máli við. Þetta mál hefir ekki verið, og verður ekki gjört að flokksmáli; .það get jeg fullviss að háttv. þingm, um. Það hefir auðvitað, eins og önnur stórmál, verið rætt í mínum flokki, en það hefir ekki verið gjört að flokksmáli fyrir því.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) voru báðir mjög vondir út af því, að farið hefði verið með þetta mál á bak við Sjálfstæðisflokkinn. Jeg hefi afsakað það áður, að jeg gat ekki borið mig saman við líkt því eins marga þingmenn og jeg vildi og ætlaði. Jeg var að hugsa um það, hvort jeg ætti ekki að sýna háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) frumv., áður en það kæmi til umræðu í deildinni, en hann varð fyrri til að láta í ljós við mig í samtali þær skoðanir, að jeg gat ekki búist við því af honum, að hann vildi eiga nokkurn þátt í undirbúningi málsins, og hafði engan tíma til að eiga við aðra um málið en þá, sem vildu vinna að framgangi þess.

Aftur á móti getur háttv. þm. Dal. (B. J.) ekki kvartað undan neinu, því að við vorum saman í nefnd, sem hafði þessi tekjuhækkunarmál til meðferðar, og þar lagði jeg þetta frumv. fram, en hann leit ekki við því. Svona er rjett skýrt frá málinu, og læt jeg svo hjer við sitja.

Það hefir nú viljað svo til, að það hefir verið tekið ómakið að mestu af mjer með að svara því, sem sagt hefir verið móti þessu frv., og vil jeg sjerstaklega þakka háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fyrir ræðu hans um þetta mál.

Hvað það snertir, að þetta frumv. sje fátækraflátta, eins og háttv. þingm. Dal. komst að orði, þá hefir háttv. þm. V.- Ísf. (M. Ó.) tekið af mjer ómakið að svara þeirri vitleysu. Jeg skal að eins geta þess, að okkur hefir talist svo til, að skattur þessi muni ekki nema meira en 17 aurum af hverri kind að meðaltali.

Jeg er handviss um, að ekkert gjald til opinberra þarfa kemur eins þægilega niður og þetta gjald, af því að það hvílir ekki á hinum venjulegu tekjum manna, heldur á alveg óvenjulegum gróða.

Jeg held, að jeg hafi svo ekki fleira að segja um málið, en vona, að það fái að ganga áfram.