31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

109. mál, skipun dýralækna

Sigurður Sigurðsson:

Jeg þykist vita, að þetta frumv. verði samþykt. Jeg þarf því ekki mikið að tala fyrir því, en get þó ekki stilt mig um að víkja að einu atriði, sem háttv. þm. Húnv. (G. H.) hefir vikið að hvað eftir annað, bæði nú og áður, að dýralæknar hjer á landi gætu ekki gjört vísindalegar uppgötvanir í sinni grein. Það lítur svo út, sem hann leggi aðaláhersluna á þetta. Jeg neita því ekki, að það er gott, að þeir gjöri það, sem þeir geta í þessu efni. En mjer er spurn: Hvað eru margir mannalæknar, er fást við slíkar uppgötvanir hjer á landi? Þeir eru víst teljandi, enda er aðstaða þeirra ekki svo góð, að þeir geti gefið sig mikið við þess konar hlutum. Aðalástæðan hjá mjer eru þau »praktisku« not, að læknarnir bjargi skepnunum frá dauða og eigendum þeirra, frá fjártjóni eða skaða. Jeg skal ekki fara lengra út í þetta kynduga nefndarálit háttv. l. þm. Húnv. (G. H.). En jeg vil minna á það, að landið er nú búið að verja 24000 kr. til þess að styrkja dýralæknaefni til náms. Í hvaða tilgangi hefir það verið gjört, ef svo á ekki að nota mennina, er þeir hafa lokið námi. Hv. þm. (G. H.) segir í nefndarálitinu, að menn hafi búist við, að dýralæknar gæfu einhver ráð við farsóttum á skepnum, en að það hafi brugðist. Þetta er ekki rjett. Og mjer er óhætt að fullyrða, að við stæðum mikið verr að vígi nú, ef við hefðum ekki haft dýralækni. Bólusetningar á sauðfje og allur undirbúningur þess mála er að miklu leyti verk Magnúsar Einarssonar, en ekki útlendinga, þó þeir hafi vitanlega hjálpað til.

Háttv. þm. (G. H.) segir líka í nefndarálitinu, að oss sje það nauðsynlegt, að geta fylgst með í uppgötvunum, sem gjörðar sjeu í þessari grein. En að því er það snertir, þá stöndum við mikið betur að vígi, ef við höfum dýralækna, þó þeir sjeu ekki sjálfir uppfundningamenn.

Jeg á brtt. á þgskj. 349, sem fer fram á það, að þessi lög komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1917. Jeg legg ekki mikið kapp á hana, en það, sem fyrir mjer vakti með henni, var það, að þessi maður, sem ráðgjört er, að skipaður verði í þessa stöðu; geti aflað sjer frekari þekkingar og reynslu í sinni grein: Og jeg get bætt því við að hann leggur ekki neina áherslu á það, hvort lögin koma til framkvæmda árinu fyrr eða seinna. En annars er mjer sama um, hvað gjört verður við brtt. mína, og um frumvarpið sjálft er mjer ekkert kappsmál heldur, að það nái fram að ganga. Verði frumvarpið felt, þá ræður þessi maður sig annarstaðar, og hann mun nú einmitt eiga kost á stöðu við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, sem hann þá sennilega tekur.