08.09.1915
Neðri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Guðmundur Eggerz:

Jeg stend upp til þess að þakka háttv. sessunaut mínum (S. B.) fyrir þá hjálp, sem hann vill veita mjer, til þess að leiða mig út úr misskilningnum, sem hann svo kallar. Jeg er nú búinn að hjálpa þessum háttv. þingmanni út úr misskilningi með því að verða einn í tölu þeirra manna, sem drápu fyrir honum frumv., sem fór fram á það, að leggja um 900 þús. kr. aukatoll á tvo aðalatvinnuvegi þessa lands.

Háttv. sami þm. (S. B.) fór að minnast á afleiðingarnar af minni kenningu, að því er snertir dýrtíðarhjálp. Já, þessi háttv. þingmaður bar hjer fram frumv. um dýrtíðarhjálp, sem flutt var í því formi, að hjálpin hefði verið næsta lítils eða einskis virði, í kaupstöðum 40 kr. handa fjölskyldumanni og 80 kr. handa góðum sveitabónda. (Sveinn Björnsson: Háttv. þingmaður hefði þá átt að bæta það). Jeg ímynda mjer, að þótt jeg hefði viljað bæta það, þá mundi Velferðarnefndin ekki hafa gengið ofan í sjálfa sig og tekið vel í skynsamlegt frumvarp.