12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

95. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherra:

Einu sinni verður alt fyrst. Mjer kom það nokkuð á óvart að heyra háttv. þm. Dal. (B. J.) halda hjer sparnaðarræðu og kjósendaræðu. Hann talaði um, að það væri óhæfilegt, að vera ná að setja á stofn ný embætti í yfirstandandi dýrtíð. Það getur nú verið rjett athugað, en það var líka dýrtíð í fyrra sumar. Þá var líka talað um að stofna nýtt embætti, eins og menn mun reka minni til, og jeg man ekki til, að háttv. þm. Dal. (B. J.) væri því mótfallinn þá. Hann talaði um launanefndina í sambandi við stofnun þessa nýja embættis. Annars kemur launanefndin þessu ekki mikið við. Jeg veit ekki, hvort hún ætlar að rannsaka launakjör starfamanna Landsbankana. Þeir eru að sjálfsögðu launaðir af bankanum, en ekki af landssjóði. Jeg minnist þess, að í fyrra var líka talað um launanefndina, þegar rætt var um að stofna nýtt embætti. Vildu sumir slá því á frest, þangað til nefndin hefði lokið störfum sínum, en þessum háttv. þm. (B. J.) gleymdist að leggja það til þá.

Hann talaði enn fremur um, að lögfræðingar væru ekki vitrir menn. Það er nú eina og gengur og gjörist upp og niður, sumir eru vitrir og aðrir ekki, alveg eins og t. d. málfræðingar. Sumir þeirra eru hreinustu steingjörvingar, en aðrir eru vitrir menn. Hann gætti þess ekki, að þótt bankinn geti nú leitað ráða til lögfræðings, þá ber sá maður enga lagalega ábyrgð á þeim ráðum, sem hann gefur. Hann sagði, að sá besti lögfræðingur, sem kostur væri á, myndi aldrei fá þetta embætti. Það getur vel verið. Það er ekki alt af, að bestu mennirnir fái embættin. Það getur líka verið álitamál, hver sje bestur, og stjórninni getur missýnst í því efni, eins og mörg dæmi eru til og sum ekki gömul nje óþekt háttv. þm. Da.l. (B. J.). En sjálfsagt veitir hún þeim manni embættið, sem hún telur hæfastan af umsækjendunum.

Mjer virtist þm. vilja láta mönnum skiljast, að hann hefði mikil viðskifti við bankann. Hann talaði eins og það væri aðalstarf bankans, að framlengja víxla fyrir hann. Jeg veit ekki mikið um skifti hans við bankann, en mjer þótti hann gjöra alt of lítið úr störfum bankastjórnarinnar. Jeg þykist hafa orðið þess var, að bankastjórnin hefði mjög mikið að gjöra, en það má háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vera kunnara en mjer. Jeg hefi litið svo til, að þeir hefðu nóg að gjöra myrkranna milli, og fram yfir það. Það getur verið, að háttv. þm. Dal. (B. J.) þekki eitthvert heppilegra starfsfyrirkomulag, og væri þá æskilegt, að bankastjórnin mætti njóta ráða hans og leiðbeininga í því efni, því að hann er kunnur að hagsýni. Ef hv. þm. er alvara með að stinga upp á., að annar bankastjórinn sitji einhversstaðar úti í heimi, í París eða New-York eða London, þá ætti hann að vera með þessu frv., því að fyrst þingið hefir álitið nauðsynlegt, að bankastjórarnir væru

tveir, og hann mun hafa verið með í að samþykkja það 1909, þá ætti það ekki að víkja frá því nú. Og af því að hann vill láta annan bankastjórann fara eitthvað út í heim, og þörfin á tveimur bankastjórum heima fyrir ar ekki minni en áður, þá ætti hann, til að vera sjálfum sjer samkvæmur, að vilja ljetta störf hins bankastjórans, sem eftir er heima,.og hugsa sem svo: »Það er ekki gott, að maðurinn sje einsamall, jeg vil láta hann hafa aðstoðarmann«. Honum virtist þinginu vera sýnt vantraust, með því að hætta að láta það velja gæslustjóra. En það er alkunna, að menn hafa oft verið valdir í þessa stöðu af pólitískum ástæðum og af flokksfylgi. Það er ekki til neins að vera að draga fjöður yfir það, að slíkar ar kosningar eru jafnan pólitískar. Það hefir jafnvel komið fyrir, að menn hafa greitt atkvæði með sjálfum sjer í hálaunaðar stöður hjer á þingi og þingm. Dalam. mun sjálfsagt geta fundið eitthvert dæmi upp á það, ef hann leitar vel, t. d. frá þinginu 1911. Það er því óþarfi fyrir háttv. þm. Dal. (B. J.) að vera svona hörundssár fyrir þingsins hönd.

Mjer virtist ræða háttv. þm. Dal. (B. J.) ganga mest út á það, að kasta rýrð á bankastjórnina, eins og í henni sætu iðjuleysingjar, sem ekkert hefðu að gjöra. Þessu vil jeg mótmæla fyrir mitt leyti. Jeg veit ekki betur en að bankastjórnin hafi ýkja nóg að gjöra.