03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

139. mál, fjölgun ráðherra

Ráðherrann:

Það er vitanlega algjörður óþarfi að eyða mörgum orðum að þessu máli, því að jeg býst við því, að dagskráin verði samþykt. Jeg skal þó lýsa yfir því, að stjórnin getur verið ánægð með undirtektir nefndarinnar í þessu máli, því að hún er sammála stjórninni í því, að rjett sje að fjölga ráðherrum, þó það verði ekki gjört nú á þessu ári. Sömuleiðis skal jeg taka það fram, að jeg gjöri það ekki að neinu kappsmáli, hvort ráðherrar verði 2 eða 3. En þótt stjórnin geti, eins og jeg hefi sagt, verið ánægð með gjörðir nefndarinnar, þá get jeg þó ekki annað sagt en að mjer kom þetta mjög á óvart, að málið skyldi fá þessar undirtektir, ekki síst vegna þess, að Alþingi það, sem nú situr, hefir fyrir skömmu afgreitt stjórnarskrá, þar sem beint er tekið fram, að ráðherrar skuli vera 3.

Úr því að Alþingi vill fresta þessu máli, jafnframt og það viðurkennir, að störf ráðherra sjeu svo sundurleit og margbrotin, að ekki megi búast við, að hann geti fullnægt öllum þeim áskorunum, sem til hans er beint, hvort heldur það eru rökstuddar dagskrár, þingsályktunartillögur eða annað, þá get jeg fyrir mitt leyti látið mjer þau málalok

vel lynda. Þess mun langt að bíða, að við eignumst svo algjöran mann, að hann geti kynt sjer alla skapaða hluti milli himins og jarðar, sem þingið segir honum að gjöra. Jeg býst við að það væri sama, hvaða maður sæti í ráðherrasætinu, að þinginu mundi ekki finnast hann fullnægja kröfum þeim, sem til hana eru gjörðar.