06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

54. mál, póstsparisjóðir

Benedikt Sveinsson:

Það kom fram við 1. umr. þessa máls, að það væri ekki svo undirbúið sem skyldi. Þá var það nefnt, hvort ekki væri rjett, að kjósa nýja nefnd til þess að fjalla um það betur. Það þótti ekki vera formlega rjett, að kjósa nýja nefnd, en jeg held að það væri rjett, að vísa því aftur til nefndarinnar, sem áður hefir haft það til meðferðar, og biðja hana að taka það aftur til nákvæmrar með ferðar. Því að það er mála sannast, að málið er ekki ljóst eins og það liggur fyrir. Þetta er nýmæli og þarf því að athuga það vandlega, og þótt brjef póstmeistans, sem nefndin vísar til, sje mjög ítarlegt, þá er það alt almenns efnis, en skýrir ekki neitt einstakar greinar frumv. Mjer virtist því full þörf á, að nefndin fjallaði betur um frumv. og rökstyddi það betur, því eins og það nú liggur fyrir má það heita órökstutt. Nefndin hefir komið fram með nokkrar breytingartillögur, en ekki sýnt hina minstu viðleitni á að rökstyðja þær. Jeg vildi nú leyfa mjer, að koma fram með nokkrar athugasemdir og biðja háttv. nefnd, að taka þær til íhugunar, eða jeg neyðist til að koma fram með breytingartillögu við 3. umr málsins.

Það er þá fyrst við 4. gr. frumv. á þingskj. 107. Þar er ákveðið, að þeir, sem vilja leggja inn minna en 1 krónu fái sparimerki og safni þeir þeim saman, þangað til þeir geta lagt inn nógu háa upphæð. Jeg sje ekki annað en að þetta sje óþarfa fyrirhöfn. Sparimerkin verða ekki gjörð nema með nokkrum tilkostnaði og um þau þyrfti að gjöra sjerstaka skilagrein og senda þau til allra póststöðva, og er alt þetta aukin og óþörf fyrirhöfn og kostnaður. Væri ekki alveg eins gott að selja frímerki í staðinn fyrir þessi sparimerki? Í Englandi er það gjört. Þar eru seld frímerki í þessum tilgangi. Það er að vísu svo nú, að 4% afsláttur er gefinn á frímerkjum, sem keypt eru í heilum örkum. Þetta verður þá auðvitað að afnema, enda engin sanngirni, sem mælir með því, og slíkt fyrirkomulag ekki til þeim löndum, þar sem alt, er að póstmálum lýtur, er í góðu lagi.

Í 8. gr. er í 1. lið ákveðið, að stjórnin ákveði, hve háir vextir skuli greiddir af innlögðu fje. Jeg mundi fella mig betur við, að lágmark vaxta væri ákveðið í frumvarpinu.

Þá er í 2. lið sömu greinar ákveðið, að vaxtalækkun gangi í gildi tveim mánuðum eftir að auglýsingin um hana hafi verið birt. Það gæti auðveldlega komið fyrir, að þessi tími yrði of stuttur. Auglýsingin gæti komið út, þegar póstar væru nýfarnir, og svo yrði að bíða eftir næstu póstferð eftir mánuð, og loks þegar sá póstur væri kominn í fjarlæga landshluta, vissi fólk fyrst um þessa auglýsingu.

Í 9. gr. frumv. er svo ákveðið; að uppsagnarfrestur skuli vera sem hjer segir :

Alt að 100 kr. . . . . . minst 7 dagar

Yfir 100 kr. altað 500 kr. — 14 —

Yfir 500 kr. . . . . . . . — 30 —

Jeg sje ekki betur en þetta sjeu alt saman óþarfa umsvif, ekki síst þegar ekki er gjört ráð fyrir .að meira en 2000 kr. verði mest í hverri bók. Jeg sje ekki, að það þurfi frest til þess, að borga út slíkar smáupphæðir.. Tel enga ástæðu til, að hafa slíkt ákvæði í lögunum. Að vísu mætti hafa einhvern litinn frest fyrir stærri upphæðir; en að þurfa að bíða viku til þess að fá út einar l00 kr., það er einungis til þess, að enginn leggur inn í sjóðinn.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 114, frá meiri hluta nefndarinnar. Það er fyrst við 2. gr. Þar vill nefndin gjöra þá breytingu, að hlutaðeigandi hreppsnefnd verði að gefa því meðmæli, að póstsparisjóður verði settur á stofn. Jeg sje ekki, að slíkt sje til bóta. Ef nefndin álítur málið gott, þá skil jeg ekki, hví hún vill sporna við því, að póstsparisjóðir verði settir á stofn sem víðast. Sumstaðar er ekki nema eitt pósthús í hverri sýslu, og þá ætti sú eina hreppsnefnd, sem er í sama hreppi og þessi póststöð, að ráða því, hvort sparisjóðurinn yrði stofnaður eða ekki. Ef nokkurt vit ætti að vera í þessu; þá ættu öll sveitarfjelög sýslunnar að eiga atkvæði um það mál.

Brtt. nefndarinnar við 5. gr. sje jeg ekki betur en komi alveg í bág við 22. gr. frumvarpsins.

Í brtt. við 14. gr. er það tekið fram, að póstsstjórnin skuli ekki greiða vexti af innstæðufje, ef það hefir legið í 50 ár í póstsparisjóði, án þess að við það hafi verið bætt eða af því tekið út; og skuli fjeð þá verða eign sparisjóðsins. Í frumv. er þetta tímatakmark 15 ár Jeg skal játa, að þetta tímatakmark, 15 ár, er nokkuð stutt,. en aftur á móti eru 50 ár óþarflega langt. Rjettast held jeg væri að fara bil beggja og setja t. d. 25 ár.

Þessar eru þá þær athugasemdir, sem jeg vildi gjört hafa, og vænti jeg þess, að þær verði, að minsta kosti sumar þeirra, teknar til greina. Jeg veit ekki, hvort háttv. nefnd vill athuga þetta nánar til næstu umræðu, en annars mun jeg koma með brtt. til 3. umræðu í þessa átt. Jeg hefi ekki athugað frumv. svo nákvæmlega, að ekki geti verið ýmislegt fleira athugavert við það. Hygg jeg því rjettast, að umræðu yrði frestað að þessu sinni, svo að nefndinni og deildarmönnum yfir höfuð gæfist færi á að yfirvega málið betur, því þetta frv. er langt frá því að vera nógu rækilega undirbúið.