29.07.1915
Neðri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

48. mál, aukabað á sauðfé

Pjetur Jónsson:

Jeg skal að svo stöddu ekkert um það segja, hvort jeg verð frumv. þessu fylgjandi, eða ekki. En hins vegar álít jeg það ekki ófyrirsynju, að vakið er máls á fjárkláðamálinu.

Jeg vil leyfa mjer að bæta því við orð háttv. flutningsm. (B. J.), að hvort sem landbúnaðarnefnd eða önnur nefnd fær þetta mál til meðferðar, þá er það nauðsynlegt, að hún útvegi sem nákvæmastar skýrslur um það, hvar kláðans hefir orðið vart, síðan málið lá síðast fyrir þinginu, og þá einnig hverjar ráðstafanir hafa verið gjörðar gegn honum, hvort þær hafa verið lögum samkvæmar og komið að fullu liði. Mig furðar á því, ekki meiri brögð en þó voru að kláðanum fyrst eftir útrýmingarböðunina 1903–1905, hve mikið virðist hafa orðið úr þeim neistum, sem þá leyndust eftir. Jeg hygg, að það geti varla stafað af öðru en því, að slælega hafi verið fylgt lögunum eftir á, heldur en í sjálfri tilrauninni, sem gjörð var 1903–1905. Þetta vildi jeg leggja niður fyrir brjóstið á væntanlegri nefnd.