02.08.1915
Neðri deild: 22. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Guðmundur Eggerz:

Jeg skal byrja þar, sem háttv. þingm. Dal. (B. J.) endaði, og taka það strax fram, að jeg fyrir mitt leyti fyrirgef honum, þótt hann talaði heimskulega. En þessa fyrirgefningu fór hann fram á.

Áður en jeg vík að sálfræðinni, þá vil jeg geta þess, að jeg tel þetta embætti, sem hjer er farið fram á að stofna, alveg óþarft, og mjer er það áhugamál, að það sje ekki stofnað, því að jeg vil ekki, að Háskólinn okkar sje settur í samband við það, sem á erlendum málum er kallað »humbug«, en að þetta mál sje nefnt svo, get jeg sannað, með því að benda á, að svo er það nefnt af sumum prófessorunum við Háskólann.

Það hafa heyrst raddir um það, að rjettast væri af þinginu, að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus, en svo eru menn að koma með önnur eins óþrifamál og þetta fyrir þingið.

Það liggja nú með þessu frumv. fjögur embættafrumvörp fyrir þinginu, og þau eru öll um ný embætti, sem farið er fram á að stofna. Ef þau væri öll stofnuð, þá yrði það á fjárhagstímabilnu 40,000 kr., sem það kostaði landið. Jeg veit ekki, hvernig háttv. þm. Dal. (B. J.) hugsar sjer að fá fje til þessa, en líklega verður eina úrræðið hjá honum, að taka lán hjá Dönum.

Jeg get ekki verið með neinu af þessum frumvörpum, því að jeg flyt nú engar fjárbænir fyrir kjósendur mína. Ekki fyrir þá sök, að þeirra sje þar síður þörf en annarstaðar, heldur fyrir þá sök, að kjósendur mínir eru svo skynsamir menn, að þeir vilja ekki íþyngja landssjóði með fjárbeiðnum í ári slíku sem þessu. Þeir báðu mig að ljá ekki atkvæði mitt til að koma fram neinu, sem kostnaðarauki væri að, nema brýn þörf gjörðist, og það ætla jeg að gjöra. Jeg mun því verða á móti þessu máli.

Þá skal jeg með örfáum orðum víkja að sjálfu þessu embætti, en jeg verð að biðja fyrirgefningar á því, að jeg get ekki verið eins háfleygur eins og sumir aðrir, sem talað hafa. Þó undantek jeg háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem talaði mjög sanngjarnlega og viturlega um málið, eins og hans var von og vísa.

Fyrsta »argumentið« í þessu máli átti að vera bækurnar, sem liggja þarna á borðshorninu hjá háttv. þingm. Dal. (B. J.). Þær eru í bláu, rauðu og gulu bandi. Það getur nú reyndar verið, að jeg sje litblindur, en það skiftir þá sjálfsagt minstu um litinn. En hins verða menn vel að gæta, að þótt skrifaðar sjeu stórar bækur, þá er það engin sönnun fyrir því, að þær fari með rjett mál. Það hefir jafnvel komið fyrir, að menn hafa hlotið doktorsnafnbót fyrir ritsmíðar, sem seinna reyndust einber vitleysa. Listasafn nokkurt á Frakklandi keypti fyrir nokkrum árum ker, sem sagt var, að stafaði alla leið frá Faraóunum. Var það skrautgripur hinn mesti, útskorið af miklum hagleik. Maður nokkur tók sig til og skrifaði vísindalega ritgjörð um rúnirnar, sem á því stóðu, og hlaut hann doktorsnafnbót fyrir. Þetta var nú í sjálfu sjer ekki svo undarlegt, en það versta var, að litlu seinna komst það upp, að kerið var smíðað um 1870. Þetta sannar, að þótt skrifaðar sjeu bækur í bláu, rauðu og gulu bandi, þá er ekki þar með sagt, að þær hafi rjett mál að flytja.

Það hefir verið tekið fram, að það fylgdu meðmæli þessari embættisstofnun. En það vantar samt þau rjettu meðmæli, sem að sjálfsögðu hefðu átt að koma, nefnilega frá háskólaráðinu. Jeg verð, sem þingmaður, að krefjast þess, að umsagnar háskólaráðsins og álits verði leitað í þessu máli. Það er líka beint tekið fram í 3. gr. Háskólalaganna, að svo skuli gjöra. Þar stendur svo:

»Háskólaráðið fer með undirbúning þeirra mála, er leggja á fyrir konung, löggjafarvald eða stjórnarráð, og snerta Háskólann«.

Jeg mun því að sjálfsögðu krefjast þess, að leitað verði álits háskólaráðsins um þetta, en annars væri kann ske rjettast að leggja það til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.

Svo jeg komi nú loksins að fyrirsögn frumv. Skal jeg leyfa mjer að benda á, að þar finst mjer kenna eins konar hocus-pocus. Þar stendur: Stofnun kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði. Þetta orð »hagnýtri« kemur mjer og fleirum svo fyrir sjónir, að ef það hefði ekki verið með, en frumvarpið bara heitið »stofnun kennaraembættis í sálarfræði«, þá myndi það hafa fengið lítinn byr hjer í deildinni. Þetta eina orð á þá að fleyta því í gegnum deildina, og mjer er sagt, að það hafi einmitt verið það, sem fleytti því í gegn um búnaðarþingið. Jeg býst við, að það hafi verið litið svo á, að úr því að búnaðarþingið tók þetta mál upp á sína sterku arma og mælti með því, þá muni það ganga fram hjer í deildinni. En jeg er nú ekki alveg sannfærður um að svo fari, enda þótt þetta merkilega orð »hagnýtri« standi þarna. Orðið mun eiga að benda til þess, að þetta embætti, þótt í sálarfræði sje, hafi eða eigi að hafa nauðapraktíska hlið. Maðurinn, sem tekur við þessu embætti, á bæði að vera sálarfræðingur og búfræðingur. Hann mun ekki að eins eiga að kenna sálarfræði í þeim skilningi, sem hingað til hefir verið lagður í orðið, heldur á hann líka að vera búfræðingur og verkfræðingur. Hann á bæði að vera kennari í heimspeki og nýju vísindunum, vinnuspeki.

Jeg bjóst nú við, að sá maður, sem hafði framsögu í þessu máli, myndi benda á, hvernig fyrirkomulagið ætti að vera á kenslunni. Jeg var að reyna að brjóta heilann um það í gærkvöldi, en fjekk höfuðverk og hætti við það. Á framsögunni var ekkert að græða, annað en það, að háttv. flutnm. sagði, að það væri stór gáta, hvort nokkuð gagn yrði að þessu embætti. Það geta naumast heitið ákveðin meðmæli. Svo sagði hann líka, að þessi kensla myndi minka þreytuna á þessu landi. Ef hann gæti fært rök að því, að menn, sem verða að berja tímum saman í roki og stórsjó, verði ekki þreyttir, þá skal jeg vera með þessari embættisstofnun. En mjer kemur það ógnarlega hjákátlega fyrir sjónir, að ætlast til þess, að sami maðurinn hafi bæði það starf, að halda djúpsetta fyrirlestra hjer við Háskólann um sálarlíf manna, annan mánuðinn, en hinn mánuðinn verði hann uppi í sveit og haldi fyrirlestra á mykjuhaug um það, hvernig dreifa skuli haugnum undan honum, eða fari í sjóþorpin og segi fyrir um hvernig vinna skuli að síldarverkun, fiskverkun og lýsisbræðslu. Sambandið á milli sálarfræðingsins og verkamannsins er mjer lítt skiljanlegt. Enda sannfærðist jeg um, að þetta samband væri óeðlilegt, þegar jeg las nýju bókina »Vit og strit«. Þar stendur: » . . . en tilraunir sýna, að hæfileikinn til andlegrar vinnu þverrar við að reyna mikið á líkamann«.

Þegar jeg var búinn að lesa þessa setningu, sá jeg, að það var ógjörningur, að láta þenna prófessor fara út á land til að vinna, því að eftir 5–6 ár myndi hann vera orðinn að búfræðingi, en sálarfræðingurinn alveg horfinn.

(Bjarni Jónsson: Þetta er mikið strit, en lítið vit). Jeg á nú bágt með að tala um þetta mál í alvöru. En jeg býst við, að við sjeum allir á þeirri skoðun, að sá, sem á að kenna öðrum mönnum verklega vinnu, þurfi sjálfur að taka þátt í vinnunni. Prófessorinn vill t d. kenna mönnum að róa á bát. Hann byrjar á því einn góðan veðurdag kl. 6 að morgni. Hann fær hörkubarning og ber eina mílu á þremur tímum. Kl. 9 kemur hann svo heim, til þess að kenna mönnum að sprengja grjót og vinna að vegagjörð. Hann er að þessu striti til hádegis. Þá fer hann að kenna mönnum að taka lundakofu og er að því til kl. 4 e. h. Jeg verð nú að segja, að þessi prófessor verður að vera meira en meðalmaður, ef nokkurt vit verður eftir í honum að kvöldi dags eftir alt þetta strit. Jeg er hræddur um, að afleiðingin af öllu þessu striti verði sú, að annaðhvort verði prófessorinn að búfræðingi, eða þá að búfræðingurinn hverfur eftir 1–2 ár, og eftir verður að eins sálarfræðingurinn.

Eins og jeg sagði áðan, var ekkert gagn að framsögunni, og verð jeg því leita aftur í bókinni. Fyrst skal jeg þó lýsa yfir því, að jeg er samdóma háttv. þm. Dal. (B. J.) um að þetta starf er svo margbrotið, að jeg býst við að ekki veitti af 24 prófessorum, eða 6 í hverjum landsfjórðungi, til að inna það af hendi.

Jeg skal nú leyfa mjer að nefna nokkur atriði þeirra vísinda, sem þessi blessaður prófessor á að kenna. Það eru þá fyrst sláttuvísindi, eða það, hvernig menn eiga að fara með orf og ljá, og skal jeg síðar víkja nokkuð nánar að þessari vísindagrein sjerstaklega. Svo eru það fiskverkunarvísindi, þá sláturvísindi, niðursuðuvísindi og haugavísindi, eða hvernig menn eigi að moka úr haugnum. Svona má sjálfsagt lengi telja. Menn mega ekki halda að jeg sje að gjöra málefnið hlægilegt; maðurinn á að kenna alt þetta og miklu meira.

Skal jeg nú leyfa mjer að benda á, hver atriði það eru fyrst og fremst, sem taka á til greina samkvæmt þessari bók við kenslu sláttuvísindanna. Þau snerta sláttumanninn, sláttuverkfærin, sláttulandið og sláttinn og eru þessi:

»Sláttumaðurinn: Hæð, orka, viðbragðsflýtir.

Orfið: Efni, þyngd, lengd, hælasetning, steyping.

Ljárinn: Efni, þyngd, lengd, lengd á grashlaupi, bakkalögun, úrrjetta, lega.

Brýnslan: Hverfisteinn eða dengingarverkfæri, brýni, og hversu þeim skuli beita.

Sláttulandið: Sljetta, þýfi, tún, harðvelli, mosajörð. Þá ber og að hafa tillit til grasmagnsins.

Slátturinn: Skárabreidd, ljáfarsbreidd, slátta, (nærslegið eða fjarslegið), sláttuhraði, sveifla, fótaburður, vinnutími og hvíldir«.

Jeg gæti nú hugsað mjer, að þótt bóndi væri harðduglegur og hjeldi fólki sínu vel að vinnu, jafnvel þótt farið væri til vinnunar kl. 4 að morgni, þá myndi vera farið að líða að hádegi, þegar loks væri búið að mæla allar þessar sveiflur.

Eins er það með haugavísindin. Það er talið misjafnt hve miklum þunga einn maður geti mokað, og verður rekan að vera löguð eftir því. Ef 5 menn eru á bæ, þarf að kaupa handa þeim 5 mismunandi rekur, og mæla kraft þeirra og viðbragsflýti áður en rekurnar eru keyptar.

Þetta er 1. umr. og skal jeg því ekki fara inn á sjerstök atriði. Að lokum skal jeg leyfa mjer að minnast á húsplássið. Við höfum ekkert húspláss hjer í alþingishúsinu fyrir þenna sálarfræðiprófessor. Hjer er ekki rúm fyrir meira en hjer um bil 30 manns, en á hann þurfa allir verkamenn að hlýða, allur sá fjöldi kvenna, sem hjer stundar fiskverkun, og yfir höfuð allir verkamenn, hverju nafni sem nefnast. Það þyrfti að búa til banda honum sjerstakt »Auditorium«, ef menn ættu að geta notið tilsagnar hans og leiðbeininga.

Helst vildi jeg fella þetta frumv. frá nefnd, en af því að jeg býst við, að það myndi verða skoðað sem ókurteisi, þá leyfi jeg mjer að leggja til, að því verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.