23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Guðmundur Eggerz:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að halda ræðu yfir moldum þessa frumv., en hafði áformað, að geyma mjer allar umræður þangað til afturganga þess kæmi fyrir, í fjárlögunum. En hin rökstudda dagskrá, sem fram er kornin, gefur mjer tilefni til þess, að segja nokkur orð. Hún er nefnilega svo orðuð, að verði hún samþykt, þá bindur hún atkvæði manna fyrir fram um ákveðinn lið í fjárlögunum.

Háttv. framsm. (G. H.) komst svo óheppilega að orði, er hann mintist á nefndarálitið, að það væri mjög ljóst. Þá varð hlátur mikill í deildinni, sem síst var furða. Jeg get ekki annað sjeð en það sje einn sá undarlegasti krabbagangur, þegar litið er á það í sambandi við brtt. þá, er nefndin ber fram á þgskj. 416 við fjárlögin. Jeg skal leyfa mjer að sanna þetta með orðum nefndarálitsins sjálfs. Þetta frumv. fór fram á það, að stofnað yrði sjerstakt prófessorsembætti í hagnýtri sálarfræði við Háskólann. Jeg heyri það sagt, að til orða hafi komið í nefndinni, að breyta þessu í dócentsembætti. En dócentinn hefir, að því er sjeð verður, kafnað í fæðingunni. Eftir miklar bollaleggingar hefir niðurstaðan orðið sú, að nefndin leggur til, að veittar verði í fjárlögum 6000 kr., til þess að bæta vinnubrögð í landinu. Jeg tók það fram við 1. umr. málsins, að betur hefði átt við, að skipa búfræðing í þetta embætti en sálarfræðing. Nefndin hefir að sumu leyti tekið þetta til greina, því hið sálfræðislega »moment« er nú fallið burtu.

Nú skal jeg, eins og jeg tók fram, drepa á fáein atriði úr nefndarálitinu, til þess að sýna mönnum, hve vel nefndin rökstyður uppástungu sína um fjárveitinguna. Í fyrsta lagi drepur nefndin á meðmæli háskólaráðsins, og dregur út úr þeim þá ályktun, að tæplega sje ástæða til að hafa tvö kennaraembætti í heimspeki við svo lítinn skóla. Enn fremur segir nefndin, að vinnubrögð hafi komist á afarhátt þroskastig í ýmsum atvinnugreinum hjer á landi, áður en vinnuvísindi hafi verið nefnd á nafn. Má jeg biðja háttv. framsm. (G. H.) um að skýra fyrir mjer samræmið milli þessara orða og tillögu hans um 6000 kr. fjárveitinguna. Enn fremur stendur í álitinu: »Vinnuleikni er gömul, vinnuvísindi ung og lítt reynd«. Já, vegna þess, að vinnuleiknin er gömul en vinnuvísindin óreynd, þá á auðvitað að veita þessar 6000 kr. Vill háttv. framsm. (G. H.) gjöra þetta skiljanlegt fyrir mjer? Enn fremur stendur í álitinu: »Þar sem svo stendur á, virðist oss mjög tvísýnt, að vinnutilraunir geti orðið að miklu liði«. Þess vegna á auðvitað að veita 6000 kr. til þeirra. Það þarf víst prófessor í sálarfræði til þess að botna í þessari röksemdaleiðslu. Nefndin »telur það vafasamt, að vísindamenn geti kent sjómönnum vorum og sláttumönnum verk sín svo, að almenningi komi að nokkrum verulegum notum«. Af því að nefndin er sannfærð um þetta, vill hún veita 6000 kr. í þessu skyni. Enn fremur segir í álitinu: »Formenn vorir sjá fljótt, hverjir eru fisknir, og kysu helst, að allir hásetar væru það, en eftir sem áður verða þeir að nota menn, sem er miður sýnt um verkið, og hæpið, að vísindalegri kenslu verði komið við, til þess að gjöra þá að betri veiðimönnum«. Vegna þessa ætlast meiri hlutinn til, að veittar sjeu 6000 kr., til þess að kenna mönnum það, sem þeir geta ekki lært. Enn fremur segir nefndin: »Engar þjóðir hafa tekið það ráð, að láta háskólakennara kenna almenningi vinnubrögð«. Þess vegna vill nefndin láta kenna mönnum hjer á landi vinnuvísindi. Þá segir í nefndarálitinu: »Þó vjer gjörum oss litla von um, að vísindalegar vinnutilraunir komi hjer alment að notum o. s. frv., teljum vjer æskilegt, að slíkar tilraunir væru framkvæmdar í nokkur ár, svo að reynsla fengist fyrir því, hvort þær kæmu að notum«. Já, þótt nefndarmenn álíti það alveg þýðingarlaust, og engin líkindi til þess, að gagn geti að orðið, þá vilja þeir samt henda út 3000 kr. á ári í guð veit hvað mörg ár, til þess að fá óræka sönnun fyrir því, sem þeir eru sannfærðir um, að peningum þessum sje fleygt í sjóinn.

Jeg vona, að háttv. framsm. (G. H.) hafi skrifað þessi atriði, sem jeg hefi tilfært, hjá sjer, svo að hann geti leitt mig í allan sannleika og skýrt samræmið milli álitsins og brtt. á þgskj. 416 fyrir mönnum. Loks stendur í álitinu, að umsækjandinn sje »svo mætur maður« o. s. frv. Ætli þetta sje ekki »punctum saliens«, það sje vegna þessa eins, að honum eigi að veitast þessar 6000 kr.?

Mjer er það alveg óskiljanlegt, hvernig háttv. framsm. (G. H.) hefir ætlað að brúa þá hyldýpisgjá, sem er á milli nefndarálitsins og brtt. á þgskj. 416. Fyrir hverjum skynbærum manni, er nefndarálitið les, hlýtur það að líta svo út, sem »conclusionin« sje hreinasta vitleysa og það væri hið mesta »humbug« að veita einn eyri til þessa. Nefndin margendurtekur það í raun og veru, að ekkert vit sje í þessu, en samt sem áður klykkir hún svona út. Alt nefndarálitið er samansafn af röksemdum á móti »conclusioninni«. Mig furðar nú ekki svo mjög á þessu, þar sem jeg veit, hver hefir ritað það og ber ábyrgð á því. Í fyrra var hann eldheitur á móti fjölgun embætta. Um það er ekkert að segja. En jeg þóttist vita það, að fyrst hann var svo ólmur með embættafækkun þá, mundi hann auðvitanlega vilja fjölga embættum nú. Og sú hefir orðið raunin á.

Jeg tel það ætíð leiðinlegt, þegar fjarstaddar persónur eru dregnar inn í umræðurnar. En úr því að nefndin hefir orðið til að draga þenna mann inn í umræðurnar, þá verður hún að bera ábyrgð á afleiðingunum. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekki nema gott eitt af þessum manni að segja, og það er því ekki til þess að hnýta í hann, þótt jeg segi, að hvorki hann nje nokkur maður annar geti að mínu áliti áorkað því, sem nefndin ætlar honum að vinna. Og ekki get jeg álasað honum, þótt hann taki við þessari fjárveitingu, því fæstir mundu vera svo stórir upp á sig, að drepa hendi við jafnálitlegri fjárupphæð.

Jeg endurtek það, að jeg sje engin líkindi til þess, að heimspekingur geti kent verkleg fræði. Jeg veit, að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) reynir að slá mig af laginu með svipuðum rökum, sem í nefndarálitinu finnast, sem sje, að með því að þessi maður hefir aldrei komið að líkamlegri vinnu. frá því að hann var í skóla, þá muni hann miklu færari um að kenna verklag, heldur en þeir, sem stundað hafa líkamlega vinnu alla sína æfi. Jeg hefi átt tal við þingmenn um þetta, og hefir mjer skilist á þeim sumum, að doctorinn eigi að fá 6000 kr. til þess að kenna mönnum vinnubrögð um alt land, kenna mönnum að róa, salta fisk, slá o. s. frv. (Bjarni Jónsson: Hann á líka að kenna mönnum að hugsa). Jeg veit ekki til, að hugsunarfræði sje kölluð vinnubrögð, en vel mætti hann hafa nokkra tíma í þeirri grein með háttv. þm. Dal. (B. J.). Jeg veit það, að doctorinn er prýðilega að sjer í heimspeki og sálarfræði, en þótt hann hefði tíma í hugsunarfræði með háttv. þm. Dal. (B. J.) í 150 ár, þá dygði það ekki; hugsunarvillurnar mundu verða eins margar eftir og flugurnar hjer í bænum.

Yfirleitt verð jeg að álíta, að enginn maður á jarðríki sje fær um að leysa af hendi það, sem doctornum er ætlað að vinna. Ef menn vilja halda málinu áfram í alvöru, þá veitir ekki af því, að senda með doctornum 100 legáta út um landið, hvern með 6000 kr. launum, og þó segir nefndin, að vafasamt sje, að nokkur árangur verði af því.

Doctorinn segir í umsókn sinni, að hann mundi yfirgefa fósturjörð sína, ef Alþingi taki hann ekki upp í sína arma. Ekki er nú álitið mikið! Ætli landið sporðreistist ekki, ef hann færi? Jeg verð að segja það, fyrst farið er að tala um einstaka menn, að jeg sje mann standa hjer andspænis mjer í hliðarherbergi, sem miklu væri nær að gjöra að prófessor, mann, sem í sinni grein mun skara fram úr flestum í danska ríkinu; jeg á við doctor Ólaf Daníelsson.

En svo að jeg snúi mjer að dr. Guðmundi Finnbogasyni og hótun hans um að yfirgefa landið, þá hefi jeg ekkert annað um það að segja, en að óska þess, að guð megi gefa honum góða ferð sem fyrst.

Vjer verðum að gá að því, að hjer ganga menn embættislausir hópum saman, málfræðingar, guðfræðingar, lögfræðingar. Þarf ekki líka að stofna 6000 kr. embætti handa þeim? Eða sjómönnum og verkamönnum?

Jeg er viss um það, að ef mesti og verklagnasti vinnumaður þessa bæjar, sem alla sína æfi hefði unnið að líkamlegri vinnu, kæmi til þingsins, og bæði það um að veita sjer þó ekki væri nema 600 kr., til þess að kenna öðrum verklagni, þá mundi hann ekki einu sinni fá nokkurn mann til þess að flytja þá beiðni. Slíkum manni þýddi ekki mikið að bóta því, að fara af landi burt. En þegar beiðni kemur frá manni, sem aldrei hefir unnið neitt, þá er sjálfsagt að verða við henni.

Jeg hefi þá þvegið mínar hendur, og býst ekki við, að nokkur haldi eftir þetta, að jeg muni greiða atkvæði með þessum styrk. Og jeg skil það ekki, að nokkur maður geti gjört það af glöðu geði, eftir að hafa lesið nefndarálitið, því að það sýnir ljósast, hversu algjörlega óþörf þessi styrkveiting er.

Það er getið um það í nefndarálitinu, að þessi nýja stefna sje komin frá Ameríku. Jeg hefi ekki heyrt, að nokkur sálarfræðingur kenni vinnubrögð hjá Krupp, og vel getur því verið, að þar sje eitthvað í ólagi. Væri nú ekki ráð að senda sálarfræðinginn þangað til leiðbeiningar í verksmiðjunum? Jeg skil ekki, að það mundi verða skoðað sem brot á hlutleysisskyldu vorri.

Mjer skilst svo, sem þeir, er atkvæði greiða með dagskránni, skuldbindi sig til að greiða atkvæði með 6000 króna fjárveitingu til doctorsins. Þess vegna er jeg á móti dagskránni, og vil biðja hæstv. forseta að hafa nafnakall um hana, svo að almenningur fái skýrt að vita afstöðu manna.