21.08.1915
Efri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

51. mál, sparisjóðir

Framsögum. (Kristinn Daníelsson) :

Með skírskotun til nefndarálitsins vil jeg leyfa mjer, fyrir hönd nefndarinnar, að legga það til, að háttv. deild samþykki frumvarpið eins og það liggur fyrir, með þeim breytingum, sem nefndin hefir gjört og prentaðar eru á þgskj. 367. Það er nú orðið sýnilegt, að þinginu er erfitt að ganga svo frá lögum þessum, að allir sjeu ánægðir.

Nefndarmennirnir hafa litið sínum augum hver á silfrið, en út í það skal ekki farið. Þeir hafa orðið sammála um það, að frumvarpið er mjög til bóta, og að rjettast sje að samþykkja það með þessum breytingum.

Nefndin álítur, að mikið sje unnið með lögunum; meira samræmi kemur í starfsaðferð sparisjóðanna, og meiri trygging fyrir því, að sparisjóðirnir nái tilgangi sínum, þ. e. að geyma fjeð vel og ávaxta, en hafa það þó jafnan á reiðum höndum. Jafnframt er sparisjóðunum sjeð fyrir ýmsum hlunnindum. t. d. ef sparisjóðsbók glatast.

Að öðru leyti skal jeg ekki tefja um of við einstök atriði, ekki heldur við hið mikla ágreiningsatriði um umsjónarmann, en vil þó taka það fram, að slíkt eftirlit álít jeg ekki tímabært enn.

Nefndin hefir gjört þær einar breytingartill., sem ekki eru líklegar að vekja ágreining, og þarf jeg ekki um þær að tala, því að fyrir þeim er gjörð full grein í nefndarálitinu.

Þótt breytingarnar sjeu ekki miklar, álít jeg þær þó til bóta.

Jeg skal ekki fara meira út í það, nema minnast lítið eitt á 3. brtt., sem er við 13. grein. Þar er ákveðið í lögunum frá hv. Nd., að sjálfskuldarábyrgðarlán megi að eins veita til eins árs. Það hefir verið venja, að sjálfskuldarábyrgðarlán hafa verið veitt til eins árs, en síðan verið framlengd. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjettast væri að lána þau með afborgun. Þetta getur horft til bóta; nú er oft vani að framlengja þau öll, og getur það oft verið athugaverðara, en samkvæmt þessari breytingu verður það trygt, að árlega skuli vera borgað af þeim.

Svo er að eins 4. brtt. á þgskj. 367, að orðin „um stundarsakir“ falli burt. Þau höfðu slæðst inn í frv. úr eldri lagaákvæðum í kgsbrj. frá 1864 og tilsk. 1874. Þá vakti það nefnilega fyrir mönnum, að koma peningunum fyrir á annan arðvænlegri hátt en í sparisjóðum.

Jeg skal ekki fjölyrða frekar um frv., en vil leyfa mjer að mæla með að hv. Ed. samþykki það.