23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Það er ekki annað en athugasemd út af ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að það er ekki rjett, sem hann sagði, að það væri fullkomlega horfið frá vísindastefnunni. En háttv. 2. þingm. Rvk. (J. M.) hefir nú svarað þessu.

En það er samt örstutt athugasemd, er jeg vildi gefa mönnum, af því að þeir virðast misskilja hvað vinnuvísindi eru.

Það dettur engum í hug, að maðurinn eigi að setjast á þóftu og fara að róa. Heldur á hann að rannsaka, hvernig helst á að róa. Tekur hann þá hóp manna, flokkar þá niður í góða róðrarmenn, miðlungsmenn o. s. frv. Lætur síðan þessa menn róa með fljótu, miðlungsfljótu og hægu áralagi, til þess að finna tímann, hversu fljótt róa skuli. Þetta er eitt dæmi, en svo færi hann með hvert atriði róðrarins, þar til er fullrannsakað væri.

Þegar svo mörg hundruð tilraunir hafa verið gjörðar, þá má fara að gjöra reglu um hvernig best megi nota kraftinn, hvort róa skuli seint eða títt. (Eggert Pálsson: Þá þarf eftirlagið að vera gott). Það kemur líka við þessar tilraunir, því ræð því, að reisa sig snögt upp kemur bakfallið árinni til góða, og fær síðan kraft fram á við. Það þarf að rannsaka hversu lengi þessa verður not, áður en »inertia« hefir eytt honum. Jeg tek þetta fram, til þess að sýna mönnum fram á, hvernig fara á að þessu á vísindalegan hátt. En auk þess kemur svo líka til greina, um hlutfallið milli árarinnar utan borðs og innan.

Jeg gat um það um daginn í ræðu, að rannsakað hefði verið, hversu tíð væri hreyfing höfuðs handar og fótar, til þess að hreyfingin yrði sem ljettust og nákvæmust. T. d. ef við höggvum við, það er ekki sama hversu oft við höggvum til þess að höggva samastaðinn. Tíðleiki högganna er ákveðinn til þess að hitta höggfarið. Þetta reynir hver á sjálfum sjer, en vísindamaðurinn tekur mörg hundruð manna og lætur þá reyna sitt með hverju móti, til þess að fá setninguna um glöggar, ákveðnar hreyfingar. Setningin fæst ef til vill ekki fyrr en eftir 1/8 miljónar hreyfinga; og stundum fæst hún ekki fyrr en eftir 1/8 miljón af hreyfingum. Þetta byggist alt á athugun og þarf því menn til þess, að gjöra athuganir á, til þess að fá setninguna. Þessar tilraunir verður vísindamaður að hafa á hendi, en á ekki sjálfur að fara að moka mold.

Jeg gjöri þetta til þess að sýna mönnum fram á þetta, er vilja skilja þessi atriði, en hafa ekki gjört það enn; en þegar þetta hefir verið heimfært, þá munu þeir skilja það, og þá munu þeir einnig skilja það, að þetta verður ekki gjört á örstuttum tíma. Því vil jeg heldur að hann fái embættið við Háskólann, og gefist því kostur á að rannsaka þetta um fleiri ár, þar til niðurstaðan væri fengin. En fyrst ekki fæst annað betra en að veita fje til þess í fjárlögunum, þá vona jeg, að þegar þessi tvö ár eru liðin, sjáist svo góður árangur, að menn vilji halda áfram að veita fje til þessa. Færi þá ef til vill svo að lokum, að sett væri á stofn fast embætti í þessari grein.

Þá ætla jeg að nefna aðra hlið á þessu máli.

Fiskiútvegsmaður hefir yfir mörgu fólki að ráða, og mörg verk að láta vinna. Nú mætti með sálarfræðilegum rannsóknum finna til hvaða verks hver maður væri hæfastur, því að ekki legðu þeir allir jafnt gjörva hönd á alt. Með þessu móti fengist sem mestur verkasparnaður og um leið útgjaldasparnaður fyrir eigendur fyrirtækisins, og ef verkamennirnir vinna ákveðið verk fyrir ákveðið kaup (»Akkorð«), þá verja þeir á þenna hátt minni tíma til verksins, og græddu því líka á þessu. Á þenna veg hafa báðir hagnað.

Þetta eru tvær hliðar á þessum hlut, sem mjer dettur í hug núna, án þess að hafa sett mig inn í þetta. En jeg sje þetta af því, að jeg er ekki alveg ókunnugur sálarfræðilegum ritum. Jeg veit, að það hagar eins til með kenslu í vinnubrögðum eins og með kenslu í bóklegum fræðum. Að jeg hefi fengið orð lærisveina minna fyrir því, að mjer hafi farið kensla vel úr hendi, þakka jeg minni litlu þekkingu í sálarfræði.

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu, en jeg vildi hafa sagt þetta kapplaust og hníflalaust, til þess að gjöra mönnum það ljóst, að hjer þarf vísindamann og hann glöggan. Og jeg held að hv. 2. þm. Rang. (E. P.) og jeg getum mætst í þessari tillögu, er hjer liggur fyrir, þó að við viljum báðir heldur embætti, og jeg skora á hann að verða mjer samferða, þar sem starfið er vísindalegt. Maðurinn getur og á þenna hátt flutt fyrirlestra við Háskólann, þó að hann sje ekki fastur kennari, og með því er sálarfræðin ekki útilokuð.

Jeg fæ ekki skilið annað en þessi blær, sem nú virðist hvíla yfir fyrirtækinu, hverfi. Jeg á við þann misskilning, að maðurinn eigi að fara út á mið og gutla þar sjálfur með árinni, eða þá að moka mold. Þetta eru vísindi, sem hann á að kenna, og það er ekkert hlægilegt, þó að þingið komi fram með þetta; en það er hlægilegt, eða öllu heldur sorglegt, að heyra það í þingsal Íslendinga, að við megum og eigum ekki að gefa þessu nú gaum, af því að það sje svo skamt á veg komið með öðrum þjóðum. Þetta er einkennilegt. Það er alveg eins og Íslendingar megi aldrei vera á undan í neinum vísindum. Þetta er því einkennilegra, sem forfeður vorir voru langt á undan öðrum í vísindum. Það er ein málfræðisritgjörð í Snorra-Eddu, sem er svo langt á undan sínum tíma, að það var ekki fyrr en á 17. öld, að sú vísindagrein komst á það stig, eða rjettara sagt á nokkuð svipað, en þó ófullkomnara stig með öðrum þjóðum.

Jeg skal bæta því við, að eftir þýðingu vísindanna nú á tímum, þá ættum við ekki, sem ekki erum vísindamenn, að tala háðslega um slíka hluti. Við vitum ekki til hvers þetta gæti leitt hjá okkur, því að öllum ætti að vera auðið að sjá það, hversu stórvirk vísindin eru í þeim Hjaðningavígum, sem háð eru nú í heiminum.

Það væri gaman að hafa skýrslu yfir »Gamla Carlsberg«, því að það eru vísindamenn, sem hafa gjört bjórinn svo góðan, að fyrir þá uppgötvun hefir mönnum safnast miljónir króna, er síðan hefir verið varið til ýmsra góðra og þarfra fyrirtækja í því landi, er fyrirtækið sjálft var rekið. Jeg nefni þetta dæmi, af því að margir þekkja »Gamla Carlsberg«, þó að þeir hafi ekki drukkið hann.

Jeg hefi sagt þetta til þess, að þeim mönnum skildist, sem vilja heldur, að stofnað verði embætti en veittur styrkur til þessa fyrirtækis, að hinn vísindalegi blær þarf ekki að hverfa af þessu, og hins vegar, að styrkveitingin leiði til þess, er árangurinn hefir komið í ljós, að stofnað verði þá embætti í þessu skyni.