23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Jeg vil ekki fara í fúkyrðakapphlaup við háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Hann er mjer ef til vill fremri í þeirri grein.

Fyrst vil jeg minnast á eitt atriði, sem máli skiftir, í ræðu hans. Hann dróttaði því að nefndinni, að hún hefði smeygt þessari fjárveitingu inn í fjárlögin í þeim tilgangi, að hún hjeldist áfram, hversu sem færi. Jeg get fullyrt, að slík aðdróttun er ástæðulaus. Nefndin var að vísu tvískift og skoðanirnar sundurleitar, en meiri hlutanum kom saman um, að rjett væri að gjöra tilraun með þetta í 2 ár, láta reynsluna skera úr, hvort hún kæmi að verulegum notum eða ekki, og haga sjer svo eftir því. Meðan hún er ekki gjörð, er ekki um annað að ræða en trú manna eða vantrú á þessu, en eftir það ætti að vera ómótmælanlega víst, hvort áfram skuli halda eða ekki, og þingið er ekki svo vitlaust, að það geti ekki dæmt um það, þegar skýrsla er lögð fyrir það um árangurinn. Og jeg get að minsta kosti hugsað mjer, að þessi tilraun takist miklu betur en jeg tel að svo stöddu líklegt, og hvort jeg yrði með eða móti framhaldsfjárveitingu í þessu skyni á næsta þingi, kæmi algjörlega undir því, hvernig þetta reyndist.

Hvað ummæli háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) um Langadalsveginn snertir, þá má vel vera, að háttv. þm. Dal. (B. J.) verði sannspár um það, að mótmæli hv. 2. þm. S.-Múl. reynist bestu meðmælin með honum. Reynslan mun bráðlega sýna hvort háttv. deild dansar eftir hans pípu í þessu máli.