11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

133. mál, stimpilgjald

Sveinn Björnsson:

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þetta þing getur komist hjá því, að afla landssjóði tekna á þenna hátt. En hitt verð jeg að játa, að mjer þykir það ekki svo óttalegt, þótt þetta frumv. yrði samþ., að leggja 60,000 kr. skatt á landsmenn. Jeg get ekki sjeð, að það væri neinn glæpur, ef það væri rjett að öðru leyti. En nú liggja fyrir þinginu þrjú tekjuaukafrumv., sem öll fara í sömu átt, vega í knjerunn verslunar og viðskifta. Mjer finst, að við ættum að fara eftir þeirri góðu og gömlu reglu, að vega ekki oftar en um sinn í sama knjerunninn á sama þinginu. Við ættum að reyna, að láta skattaálögurnar koma jafnara niður. Jeg hefði því helst kosið, að dýrtíðarfrumvarp okkar hefði verið látið nægja í þetta skifti. Jeg hefi líka aðra ástæðu til að vera á móti því, að þetta frumv. nái að ganga fram. Jeg er nefnilega á sama máli og háttv. framsm. (E. P.) um það, að þótt þetta mál hafi verið íhugað áður af milliþinganefnd, þá takist okkur ekki að búa til góð stimpilgjaldslög. Það hefir svo margt breytst síðan 1907. Jeg hefi ekki getað gjört mjer grein fyrir því, hvernig stimpilgjaldslögin eigi að vera; jeg get því ekki greitt atkvæði með þessu frumvarpi. Jeg held, að jeg geti fallist á að vísa þessu máli til stjórnarinnar, með þeirri vísu von, að málið verði tekið fyrir á næsta þingi, og vil því leyfa mjer, að bera fram þessa rökstuddu dagskjá:

Í trausti til þess, að stjórnin taki þetta mál til rækilegrar yfirvegunar og undirbúi og leggi fyrir næsta þing frumv. til laga um stimpilgjald, sjerstaklega lágt stimpilgjald af víxlum, ávísunum og kvittunum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.