30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

121. mál, þegnskylduvinna

Þorleifur Jónsson:

Jeg býst nú að vísu við, að þessi hugmynd hafi nokkurt fylgi hjá þjóðinni sem stendur, að minsta kosti hjá yngri kynslóðinni. Ungmennafjelögin munu víða vera fylgjandi þegnskylduhugmyndinni, og getur það verið mjög eðlilegt. Hugmyndin er í sjálfu sjer ekki lastandi, og kostum þegnskyldunnar hefir í seinni tíð verið mest á lofti haldið, en litlar athugasemdir komið fram um agnúa þá, sem á þessu máli eru þó vitanlega.

En þrátt fyrir þetta fylgi, sem þegnskyldan hefir fengið hjá Ungmennafjelögunum, hefi jeg ekki trú á, að þetta sje neitt sjerlega heppilegur uppeldisskóli fyrir þjóðina, því að það, sem vantar, er að hafa vel færa og mentaða menn, til þess að geta stjórnað öllum þessum lýð svo, að hann mannist. Af þessari sök, að jeg hefi enga trú á, að hægt sje, að ala upp verkstjóra á fám árum, er jeg gjörsamlega mótfallinn þessari hugmynd. Maður hefir einmitt reynslu fyrir því, að þar sem margir unglingar safnast saman, t. d. við uppskipun, í vegavinnu, eða öðru þess háttar, þá er það síður en svo, að það sje vanalega góður uppeldisskóli, nema þá að verkstjórinn sje yfirburðamaður. Og ætli að eitthvað líkt geti ekki orðið með þegnskylduna, því mennina vantar, er kunna að stjórna og ala lýðinn upp. Menn gætu fremur átt á hættu, að unglingar af góðum heimilum, vel upp aldir, spiltust hreint og beint. Því misjafn sauður yrði þar í mörgu fje, og ekki þarf að hugsa, að þau yrðu öll til góðs, þau áhrif, sem unglingarnir yrðu þar fyrir; það er jeg sannfærður um, jafnvel þótt stjórnin væri þolanleg, hvað vinnuna sjálfa snertir.

Jeg hefi ekki trú á, að trúmenska, háttprýði og alls konar siðsemi dafni fremur í hafnarvinnu og þess konar fjelagsskap, þar sem alls konar lýður safnast saman, en á heimilunum og í skólunum.

En svo eru margar fleiri hliðar á þessu máli, sem ekki hefir verið hreyft við. Það er mikið prjedikað um, hvað landið græði við þetta; það fái þarna vinnukraft fyrir ekkert. En er það nú víst, að svo sje? Einhver kostnaður held jeg að hljóti að verða við þetta. Er það ekki landið, sem á að fæða fólkið, meðan það er að vinnunni? Jeg býst við því, að fólk, sem vinnur í öðrum landsfjórðungum en það á heima í, fæddi sig ekki sjálft. Nei, landið verður að fæða fólkið. Við skulum segja, að 800 manns vinni árlega í 12 vikur. Ef fæðið er reiknað 1 kr. á dag fyrir manninn, og minna mundi það ekki verða, þegar landið ætti að útvega fæðið, þá kostar fæðið einungis, fyrir allan skarann í 12 vikur 67,200 krónur. Auk þessa er það venja erlendis, að menn, sem eru í herþjónustu, eru klæddir að einhverju leyti. Það væri því ekki til of mikils ætlast, þó að landið legði þegnskyldumönnum til hlífarföt og skófatnað, og gæti það ekki orðið minna en 10 kr. kostnaður á mann, og er lítið í lagt, en það mundi þó nema að minsta kosti 8 þús. kr. Þá þyrftum við um 20 verkstjóra, því að minni hyggju er það alveg nóg, að ætla hverjum verkstjóra 40 manns til að stjórna, það er ofætlun að heimta, að hann stjórni fleirum, enda mundi það reynast nóg fyrir þenna eina mann, að kenna svo mörgum mönnum aga, hlýðni, verklagni, stundvísi og allar þær dygðir, sem ætlast er til að menn læri. Dagkaup þessara verkstjóra gæti ekki verið minna en 7 kr. á dag. Kaup þeirra yrði þá í þessar 12 vikur 11,760 kr., en allur kostnaðurinn samanlagður yrði alt að 90 þús. kr. En þó yrði þetta að líkindum meira, því að mjer skilst, að landinu sje skylt að greiða fararbeina að heiman og heim.

Menn munu nú samt segja, að þarna fáist mikil vinna fyrir lítið endurgjald, en jeg er ekki alveg viss um það, þegar þess er gætt, að mikill hluti þessara manna eru unglingar, þetta 17 ára og eldri, þá er ekki hægt að leggja á þá eins mikla vinnu og þroskaða menn, það væri alveg nóg, að ætla þeim 8 stunda vinnu á dag, 10 stundir væri of mikið. Auk þess er ekki hægt að ætlast til, að óvanir menn afkasti eins mikilli vinnu, t. d. við vegagjörð, eins og æfðir og leiknir vegagjörðarmenn.

Þetta er ein hliðin á þessu máli, en það er eins og menn hafi himininn höndum tekið, af því að þetta sje alt saman »gratis« fyrir landið.

Og svo er annað enn. Halda menn, að þessir 800 menn gjöri ekki eitthvert gagn, vinni ekki neitt nytsamt fyrir þjóðina, þó að þeim sje ekki smalað saman í vegavinnu, járnbrautarlagningu eða hafnarvinnu? Jeg veit ekki betur en að flestir þessir menn sjeu að vinna heimilum sínum gagn, og vinnukrafturinn til sveita að minsta kosti er nú aðallega mest unglingar og aldrað fólk, en þjóðfjelagið er nú samansett af mörgum smá heimilum, svo að alt ber að sama brunni. Og menn þessir vinna margir ókeypis, t. d. þeir, er vinna fyrir örvasa foreldrum. Og jeg held, að það geti verið mjög mikið vafamál, hvort það er gróði fyrir þjóðfjelagið, að að taka unglinginn frá heimilinu, sem er kann ske eina stoð ekkjunnar, eða fátækra og heilsulítilla foreldra, um hábjargræðistímann, og láta hann fara á eitthvert annað landshorn og »púla« þar »fyrir föðurlandið« við vegavinnu, hafnargjörðir eða járnbrautarlagningu eða hvað sem er. En jeg held að í raun og veru sje það engum vafa bundið, að þetta er tap en ekki gróði, þegar á alt er litið.

Það verður fyrst, eins og háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) tók fram, að undirbúa verkstjórn, og hvað kostar það landið? Það er svo margt í þessu máli, er þarf að athuga. Þetta er sjálfsagt falleg og góð hugsjón, en samt er spursmál, hvort ekki fellur af henni mesta göfgin, ef fara á að lögskipa hana.

Menn leggja oft og einatt á sig í sveitunum nokkurs konar þegnskylduvinnu, með því að hlaupa undir bagga með þeim mönnum, sem verða fyrir einhverju áfelli. Ef t. d. einyrkinn legst veikur um bjargræðistímann og hefir engan fyrir sig að bera, þá hlaupa menn til og vinna hjá honum, ekki svo og svo mikill fjöldi í einu, heldur skifta menn því niður á sig, svo að það verði þiggjanda að sem bestum notum.

Þetta má alveg eins kalla þegnskylduvinnu, og hún er betri heldur en hún væri lögskipuð. Af því að jeg hefi þá skoðun, að alls ekki sje vert að lögbjóða þegnskylduvinnu hjer fyrst um sinn, einkum vegna þess, að jeg hefi enga trú á, að hún verði neinn uppeldisskóli fyrir þjóðina, þá álít jeg með öllu óþarft að bera málið undir þjóðina. Það getur að vísu verið, að hægt sje að telja þjóðinni trú um, að þessi hugsjón sje svo fögur, að hún megi ekki vera á móti henni. En mjer finst skylda þingsins að rannsaka málið ítarlega og aðgæta allar hliðar þess, áður farið er að setja lög um þetta, jafnvel þótt meiri hluti þjóðarinnar fengist til að vera með því.