18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Bjarni Jónsson:

Jeg skal geta þess út af 6. lið athugasemdanna, að mjer virðist hann bygður á sannsýni og vera í samræmi við annan sparnað þingsins, sem menn hafa nú alt af á vörunum. Liðurinn fer fram á það, að færa niður óþarfan ferðakostnað hálaunuðustu embættismannanna. Mjer virðist það óþarft að greiða þeim úr landssjóði 8 kr. á dag, til þess að kaupa sjer mat, sem þeir þurfa ekki að borga, eða borga að eins dreng 1 krónu virði fyrir að gæta hesta. Jeg vil ekki velta fje í þessa menn fram yfir aðra. Og fyrst landið hefir ekki efni á að borga nauðsynlegum starfsmönnum sínum, þá á síst við, að vera að ryðja í hálaunaða embættismenn fæðispeningum um skör fram. Jeg minnist þess hjer um árið, þegar viðskiftaráðunauturinn var að senda reikninga sína, þá var farið svo nákvæmlega í sakirnar, að veður var gjört út úr óþarfa kaffibollum, sem hann hafði drukkið. Jeg tek þetta fram til þess að gleðja þá mörgu menn hjer, sem alt af eru að tala um sparnað, hallalaus fjárlög o. s. frv. Þarna hafa þeir tækifærið, þótt í litlu sje, til þess að sýna, að það er ekki bara á vörunum, sem þeir hafa þessa hugsun.

Þá er önnur hlið á málinu, og hún er sú, að mjer virðist það hart, að þeir starfsmenn landsins, sem best eru launaðir, skuli hafa svona háa fæðispeninga, en lægra launaðir starfsmenn, svo sem t. d. ráðunautar, hafa mikið minna. Um leið og jeg felst á tillögu nefndarinnar vil jeg geta þess, að jeg legg það inn í hana, að hún eigi jafnframt við aðra embættismenn eða fasta starfsmenn landsins, svo sem ráðunautana, Búnaðarfjelagið er í raun og veru ekki annað en ein af skrifstofum stjórnarráðsins, og ráðunautur þess því embættismaður landsins, alveg eins og t. d. hinn vinsæli grísku-dócent. Jeg vil, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) fái hjer eftir 5 kr. á dag í fæðispeninga, bæði vegna þess, að jeg vil ekki gjöra upp á milli fastra starfsmanna landsins, og líka vegna þess, að hann er ágætis maður, t. d. hefir hann kent vatninu í Miklavatnsmýri að renna upp í móti. Það má líka hafa til hliðsjónar. Jeg mun því greiða atkv. með þessum lið.

8. lið mun jeg greiða atkvæði á móti. Þingið hefir engin gögn í höndum, til þess að geta sagt nokkuð um það mál. Það er stjórnin, sem verður þar að gæta hagsmuna landsins og hefir best tök á því. Þar verður að fara eftir því, sem landinu og hlutaðeigandi manni er haganlegast. Jeg vil því fella þennan lið, og vísa málinu aftur til stjórnarinnar.

5. lið mun jeg greiða atkvæði með. Jeg tel það sjálfsagt, að stjórnin hafi ríkt eftirlit með skólum þeim, er þar eru nefndir.

Að öðru leyti skal jeg ekki tala nema um 3. athugasemdina. Þetta má nú segja svona með hógværum orðum, ef ekki á að liggja í því áskorun um að takmarka vinnukraft stjórnarinnar. Jeg vil ekki að það sje gjört, því að það kemur oft fyrir, einkum í stórmálum, að stjórnin hefir ekki nægum mannafla á að skipa hjá sjálfri sjer, og hlýtur því að leita til sjerfræðinga, og fara þá sum árin fram úr tilætluðum fjárveitingum. Jeg veit, að störf hennar vaxa sífelt með allri þeirri skriffinsku, sem nú tíðkast, og skal jeg ekki lasta það, að sem mest og best sje skrifað, en það er ekki rjett, að setja stjórninni mjög þröng takmörk í þessu, hver sem hún er. Jeg treysti því, að engin stjórn fari þar úr hófi fram; það skyldi þá vera ef hún ætti frændlið, sem hún þyrfti að annast um. Jeg segi ekki að svo hafi verið hjer hingað til, en það getur alt af hugsast. Og þótt svo væri, þá er það mál svo vaxið, að jeg fer ekki út í það. Það á ekki við, að þingið sje að saka stjórnina um slíkt. Ef hjer er að eins verið að biðja stjórnina að vara sig á öllum óþarfa, þá er jeg með því, en ef hitt er meiningin, að banna henni sjálfsagða starfskrafta, þá er verr farið en heima setið, og sjerstaklega nú, þegar alt er svo dýrt og öllum svo illa launað, að ástæða væri til hækkunar. Skal jeg í því sambandi nefna einn mann í stjórnarráðinu, einmitt af því, að út af veru hans þar hefir orðið úlfaþytur. Landið hefir þó sannarlega ekki skaða af honum, og það væri nær að láta hann njóta dugnaðar síns við skrifstofustörf og ríða heldur undir stjórnina að borga honum betur. Jeg á hjer við Gísla Ísleifsson. Síðan hann kom í stjórnarráðið hefir hver einasta stjórn hælt honum fyrir framúrskarandi dugnað, en launin eru alt of smá. Vil jeg því skora á stjórnina að auka þau.