04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Þegar mál þetta var síðast á dagskrá, komu fram ýmsar upplýsingar, sem gjörðu það að verkum, að nefndinni fanst ekki vert, að málið yrði borið undir atkvæði þá.

Síðan hefir nefndin gjört sjer far um, að kynna sjer málið betur, og hefir komist að þeirri niðurstöðu, að það sje ekki heppilegt að fela stjórninni að kaupa jörðina nú, þar sem hún mun ekki vera föl fyrir þá upphæð, er þingið mundi vilja ganga að.

Jeg átti tal við einn eigandanna í hlutafjelaginu Þorlákshöfn í gær, og hann sagði, að eignin mundi ekki að svo stöddu föl fyrir minna en 110 þús. kr. í fundarbyrjun nú barst nefndinni brjef frá eigendunum; fylgdi þar með ályktun, gjörð 25. febr. þ. á., þar sem samþykt var að bjóða eignina út fyrir 120 þús. kr., og engin líkindi eru til þess, að frá því verði verði hopað. Þar sem nú nefndin gat ekki útvegað tilboð frá eigendunum, þá vill hún þó leggja það til, að ráðherra leiti fyrir sjer um ákveðin tilboð. Þess vegna tekur nefndin tillöguna aftur, en leyfir sjer í hennar stað að bera fram svo hljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

Í því trausti, að ráðherra Íslands leiti sjer vitneskju um, hvort Þorlákshöfn fáist keypt og með hvaða verði, áður en næsta þing kemur saman, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Að ákveða verðið 50 þús. kr., eins og er í brtt. á þgskj. 625, mundi vera alveg þýðingarlaust, og ekki er gjörlegt að fela landsstjórninni kaup á jörðinni fyrir það verð, sem eigendurnir nú munu heimta fyrir hana, eftir því sem fjárhagur landsins er nú. Það getur verið, að þingið 1917 sjái fram á bjartara útlit, enda liggi fyrir ákveðin tilboð frá eigendunum, svo það sjái sjer fært að kaupa jörðina.