20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

14. mál, stjórnarskráin

Jón Magnússon:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að tala í þessu máli, nema einu sinni, en út af orðum, sem hafa fallið frá ýmsum hliðum, þykist jeg skilja, að mönnum hafi ekki verið fullkomlega ljóst það, sem jeg tók fram í ræðu minni.

Aðalinntak ræðu minnar var ekki annað en það, að skýra frá, hvað komið hefði fram frá því fyrsta af hálfu heimastjórnarmanna í þessu máli. Jeg skýrði líka frá því, hvaða skoðun hefði komið fram hjá sjálfstæðismönnum á síðasta þingi, og það hefir enginn sagt, að jeg hafi skýrt rangt frá því, svo að jeg sje ekki ástæðu til, að fara nánara út í það atriði. Jeg sýndi það líka með skýrum rökum, hvers vegna við heimastjórnarmenn hljótum að greiða atkvæði með dagskránni og á móti tillögunni, samkvæmt sögu málsins. Þetta sagði jeg fyrir hönd þess flokks, sem jeg fylgi, og átti ekki von á því, að nokkur hefði út á það að setja. Það mætti náttúrlega taka upp aftur deiluna frá síðasta þingi, en það skilst mjer myndi verða þýðingarlaust.

En það var annað en þetta, sem aðallega kom mjer til að standa upp nú. Mjer hefir verið sagt, að háttv. flutnm. (S. E.) hafi talað í þá átt til vor heimastjórnarmanna hjer á þingi, að það væri þægilegt fyrir Dani, að hafa flokk á þinginu, sem alt af væri fús til að reka þeirra erindi. (Sigurður Eggerz: Jeg man ekki til, að jeg hafi sagt það). Sje þetta ekki rjett hermt, þá getur mínu máli verið lokið að þessu leyti. (Matthías Ólafsson: Hann sagði það.) (Sigurður Eggerz: Það er sagt hjer, að jeg hafi sagt þetta, og mun jeg þá skýra frá, í hvaða sambandi jeg sagði það). Hafi það ekki verið meining háttvirts flutningsm. (S. E.) að segja þetta, þá skal vera úttalað um það frá minni hlið, enda þætti mjer það sæta furðu, ef slík orð kæmu fram hjá manni, sem alt af er að hæla sjálfum sjer fyrir hæverska framkomu í þessu máli og stillilegt tal. Það var tekið óstint upp fyrir mjer, að jeg hefði ekki farið nógu virðulegum orðum um tillöguna, en jeg get ekki horfið frá því, að mjer þykir hún vera næsta vesalleg. Og þegar tillit er tekið til þess, að nú er verið að hrópa: »Varið ykkur, því að fósturjörðin er í voða«, og auk þess hefir það komið fram í einu blaði, að ef annars væri mögulegt að bæta úr því, sem gjörðist í ríkisráðinu 19. júní, þá væri eina ráðið að mótmæla og gefa ráðherranum vantraustsyfirlýsingu. Þegar tekið er tillit til þessa, er ekki hægt að segja annað en að slík þingsályktunartillaga, sem sú, er hjer er fram komin, sje viðrini. Með henni er ekki annað sagt en að þingið standi við samþykt sína frá 1914, en það virðist vera nokkuð tilgangslítið, þegar mönnum getur ekki komið saman um, hvað í þessum fyrirvara felst.

Jeg sný ekki aftur með það, að ef nokkur hætta hefði verið hjer á ferðum, þá var sjálfsagt að mótmæla, og annað gat þá ekki gagnað. Þess vegna furðar mig á því, að tillögumennirnir skuli segja, að þeir hafi komið fram með þessa vægu tillögu til að bjarga landinu, og það því fremur, þar sem þeir vissu fyrir fram, að hún myndi falla. Hvers vegna komu þeir ekki með tillöguna í þeirri mynd, sem þeir álitu rjettasta?

Jeg skal annars láta þess getið, að þegar háttv. flutningsm. (S. E.) talar um danska og íslenska skoðun á þessu máli, og segir, að við föllumst á dönsku skoðunina, þá er það alveg rangt. Vjer teljum uppburð sjermálanna alíslenskt mál, eins eftir stjórnarskrárbreytinguna eins og áður.