04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Ef jeg mætti velja úr allar bestu tillögurnar, sem komið hafa fram í hv. Ed. og hv. Nd., þá skyldu 14, og 15. gr. fjárlaganna verða svo góðar, sem jeg frekast kynni að óska. En því miður hefi jeg ekki vald til þess að leiðrjetta þau mistök, sem mjer virðast hafa orðið hjá fjárlaganefndum beggja deildanna.

Háttv. fjárlaganefnd þessarar deildar er mótfallin því, að laun docents Sig. Sivertsens sjeu hækkuð um 400 kr. Jeg hygg, að háttv. nefnd sje ekki kunnugt um, að öðruvísi stendur á fyrir þessum manni, en hinum docentunum við Háskólann. Guðfræðingum veitir erfitt að hafa aukatekjur af ritstörfum, því að þótt sumir nýju guðfræðingarnir geti skrifað, þá tjáir það ekki. Gömlu guðfræðingarnir eru alt af á höttunum, og rífa niður bækur þeirra, svo að enginn vill kaupa þær. Allt öðru máli gegnir t. d. um Jón docent Jónsson. Bækur hans seljast, og þar að auki hefir Sig. Sivertsen miklu fleiri kenslutíma en hann.

Jeg vil styðja styrkveitingu til dr. Alexanders Jóhannessonar. Hann er vel hæfur maður til að halda fyrirlestra við Háskólann í þýskum fræðum. Nú stendur og svo á, að engir Þýsku-fyrirlestrar verða haldnir við Háskólann, á komanda vetri, þar eð docentinn er nú herfangi á Bretlandi.

Þá mintist háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) á allmargt, er honum fanst athugavert við gjörðir fjárlaganefndarinnar, og var það sumt á rökum bygt, og er þá fyrst tillaga hennar, um að afnema námsstyrk við æðri skólana. Aðalatriðið, sem færa má þar á móti nefndinni, er það, að ef allur námsstyrkur yrði afnuminn, geti fátækir piltar síður gengið skólaveginn. En þess ber að gæta, að öðruvísi hagaði til fyrir 30–40 árum. Þá var almenningsálitið svo, að eina leiðin til fjár og frama væri sú, að ganga lærða veginn svo kallaða. Nú er þetta, sem betur fer, orðið mikið breytt, enda sjá menn nú betur, til hvers leiðir. Menn eyða 10–12 bestu árum æfi sinnar í námið, og hafa ekkert annað upp úr, en að lepja dauðann úr skel eftir á. Nú er orðið miklu álitlegra, að verða bóndi, kaupmaður, eða hvað sem er, svo jeg tali ekki um, að verða skipstjóri á botnvörpungi. Embættismannaleiðin er tæpast svo fýsileg, fyrir þá, sem til þekkja, að það borgi sig að eyða mörgum árum, fyrst til náms, og síðan til að bíða eftir einhverju nýtilegu. Þessu til sönnunar má benda á, að hjer er þegar að skapast litterært Prolatariat, svo jeg held, að ekki sje mjög í þágu ungra og framgjarnra manna að ganga þessa leið. Auðvitað er það satt, að embættismannastjettin mundi tapa nokkrum góðum mönnum, en þeir verða eins nýtir menn, þó þeir gangi aðra leið.

Það er dagsanna, sem háttv.5. kgk. (G. B.) sagði,að skólafyrirkomulagið hjer er alt annað en gott, og prófin, í skólann og úr honum, orðin hneykslanlega væg. Það hefir verið reiknað út, að menn geta komist í gegn um skólann, án þess að hafa litið í stærðfræði, sem þó er ein af allra stærstu námsgreinunum. Meðaleinkunn er að eins 4, til þess að slampast í gegn, því nú er öllu breytt frá því, sem áður var. Inntökuskilyrðin eru sama sem engin, og þær einu námsgreinir, sem, auk stærðfræðinnar, áður fyr kröfðu alvarlega vinnu, nfl. latína og gríska, eru ekki lengur til. Sumir eru á annari skoðun um þetta, en þessar greinir kröfðu elju og vinnu, og enginn komst í gegn um skólann, sem ekki var þolanlega að sjer í einhverri þeirra, Nú er eftir lítils háttar latínukák í 3 efstu bekkjunum, og er jeg í efa um, hvort betra er en ekki; væri best að sleppa henni alveg, því það lítið, sem er við hana kákað, það er hreint og beint fábjánalegt; menn eru látnir lesa Hóraz, Virgil og Ovid, og geta má nærri, hvað það kemur þeim að miklu gagni, sem ekkert kunna.

Það hefir verið lagt til, að styrkur til bændaskóla falli buri, en sú brtt. kom frá nefndinni, að styrkur til verklegrar kenslu hækki aftur á móti. Þessu álít jeg vel hagað svo, því dýrara er mönnum að missa sumarið frá vinnu.

Töluvert hefir verið rætt um fræðslumálin alment, og till. hefir komið fram í þá átt, að halda áfram barnaskólabyggingunum, með því að veita fje til þeirra síðara árið. Nefndin í háttv. Nd. leit svo að spara mætti fje þetta, og jeg er henni þar sammála. Það er mjög vafasamt, hvort barnafræðslulögin eru heppileg. Þar eru gjörðar háar kröfur til barna innan 10 ára, og þeim lögð þung próf á herðar. Jeg þekki ofurlítið til barnaskólans hjer í Reykjavík, og get gefið honum þann vitnisburð, að hann er góð stofnun til þess, að börnin geti týnt niður því litla, sem þau kunna að hafa lært. Þetta er ekki kennurunum að kenna, þeir eru margir góðir, og sumir ágætir, því börnunum er hrúgað svo mörgum í skólann, að engin von er á, að kennararnir komist yfir að kenna öllum þeim sæg, auk þess, sem þar er grautað í alt of mörgum námsgreinum. Auk hinna sjálfsögðu greina, svo sem eru lestur, skrift og reikningur, er verið að gutla við dönsku, ensku, teikningu og handavinnu og margt fleira. Menn geta nú sagt sjer sjálfir, hvað margir barnaheilar rúma mikið af þessu í einu. Barnaskólinn hjer er líklega besta stofnun landsins í þeirri grein. Ætli þá sje betur ástatt annarstaðar? Jeg býst við, að hinar háu kröfur, sem gjörðar eru til barnanna, sjeu að eins til ills eins, og held að lögin frá 1880 sjeu heppilegri, sem að eins fara fram á, að 14 ára börn kunni kver, lestur, skrift og ofurlítið í reikningi. Það væri betra, ef nokkur skólaskylda ætti að vera, að hafa hana ekki fyrr, en börnin eru orðin eldri en nú er ákveðið, og jeg veit til þess, að jeg stend ekki einn uppi með þá. skoðun. Af þessum ástæðum finst mjer varhugavert, að vera að veita áfram fje, til barnaskólabygginga út um land alt.

Í 14. grein er ýmislegt smávegis, sem jeg skal ekki fara mörgum orðum um, en mjer finst, að úr því að háttv. nefnd vill sjá aumur á 2 matreiðsluskólum, þá hefði mjer fundist rjett, að sá 3. hefði verið látinn fylgja með, sem sje á Eyrarbakka.

Háttv. nefnd leggur til, að þeir nemendur, sem geti, og þurfa að stunda nám við málleysingjaskólann, borgi með sjer, en jeg veit, að þeir nemendur, sem sæmilega hafa verið efnum búnir, hafa borgað með sjer og gjöra það. Annars skal jeg svo ekki fara út í einstök atriði, en að eins geta þess, að háttv. nefnd á þökk skilið fyrir ýms atriði, er hún hefir lagt til, svo sem hækkun til þess, að afrita fyrir Landsskjalasafnið, og viðgjörð á Þingvöllum; er jeg þar á sama máli, að ekki má lengur svo ganga, að sá staður liggi undir skemdum.

Jeg er á sama máli og háttv. þm. Seyðf. (K. F.), að gott væri að lækka fjárveitingu til barnaskólaprófdómara, ef hægt væri.

Enn hefir og nefndinni skilst nauðsyn þess, að gefa út dóma landsyfirrjettarins frá 1800–1873, og veit jeg að háttv. Nd. hefir að eins felt það af misskilningi, og muni ekki amast við því síðar.

Þá kem jeg að 72. lið á atkv.skrá, um skáldin og listamennina. Okkur þótti sumum nefndin gjöra allmjög að því, að færa niður styrk til þeirra, en háttv. þm. G.-K. (K. D.) hefir tekið af mjer ómakið, er hann hefir mótmælt því, að sá liður væri lækkaður, frá því, sem háttv. Nd. ákvað. Hygg jeg, að Alþingi sje það ekki vel ljóst, hvað það er að gjöra, er það dregur styrki þessa niður, því að það, sem haldið hefir þjóðinni uppi og gjört hana kunna alt til þessa, eru skáldin og rithöfundarnir. Þessir menn hafa haldið við tungu þjóðarinnar og orðrómi hennar út í frá. Jeg neita því að vísu ekki, að verklegar framkvæmdir hafa mikla þýðingu, en fyrir þær höfum við aldrei orðið frægir, og verðum tæpast í bráð; og jeg hygg, að ef lagt væri undir dóm þjóðarinnar, hvort hún vildi afsala sjer ritsmíðum sínum fyrir fje, þá mundi hún kveða nei við, ef málið væri rjett reift. Það er aðgætandi, að sparnaðurinn er svo lítill, að eins 1000 kr.. Þegar svo langt er komið, verður athugasemd nefndarinnar í Nd. hlægileg, nefnilega það, að kjósa skuli 3 menn, einn úr Stúdentafjelaginu, annan úr Bókmentafjelaginu og þann þriðja úr Háskólaráðinu. Til hvers? Sú nefnd átti að gjöra tillögur um, hvernig úthluta ætti 900 kr., en ef samþykt verður það, sem nefnd háttv. Ed. vill, þá verður engu að úthluta, og gott ef ekki verður minna en ekki neitt eftir. Skal jeg ekki öfunda nefndina af starfinu því. En annað er athugavert við þá tillögu, sem sje, að hún er formlega röng. Stúdenta- og Bókmentafjelögin standa ekki undir löggjafarvaldinu, og við höfum ekki leyfi til að skipa þeim á þennan hátt. Svara mætti því, að fjelögunum þætti sjer sómi sýndur með þessu, en það liggur háðung næst, að skipa menn í nefnd, sem ekkert hefir að gjöra. Löggjafarvaldið hefir ekki meira leyfi til að skipa þá, heldur en bónda uppi í sveit. En þó eitthvað væri nú að gjöra, þá er mjög vafasamt um valið. Það gætu valist menn, sem væru stjórninni algjörlega andstæðir, og stjórnin á þó að bera ábyrgð þess, hvernig styrknum er úthlutað. Jeg segi því fyrir mig, að ætti jeg að úthluta fje þannig, tæki jeg mjög lítið tillit til þess, sem nefndin segði, og bindi mig alls ekki við tillögur hennar. Hitt væri nær, að Háskólaráðið, eða stjórn Bókmentafjelagsins, hefði þetta algjörlega með höndum og þá alla ábyrgð, sem því . fylgdi.

Jeg skil ekki hvers vegna háttv. nefnd hefir viljað færa niður styrkinn til þeirra nafnanna, Helga Pjeturssonar og Helga Jónssonar, en það hefir háttv. þm. G.-K.

(K. D.) talað um. Aftur hefir nefndin á öðrum sviðum verið mjög hlynt bókmentum, er hún vill veita Finni á Kjörseyri 200 kr., og Sighv. Grímssyni 100 kr. hækkun, og er það vel farið, hví hvortveggi er mætur maður og maklegur góðs.

Þá eru það nokkur atriði í 21. gr., sem mig langar til að minnast dálítið á. Í þessari grein ræðir meðal annars um tvö þjóðþarfa fyrirtæki, raflýsing á Húsavík og áveitu á Skeiðin. Það getur vel verið, að fje reynist ekki nóg, þegar til á að taka, en lánsheimildir hafa þó oft fengið að standa í fjárl., þegar svo hefir staðið ár en stjórnin ekki skyldug til að sinna þeim, ef fje er ekki fyrir hendi. Jeg vil geta þess um áveituna á Skeiðin, að ekki er tilætlunin að Árnessýsla fái neinn styrk í venjulegum skilningi, heldur einungis lán. Búist er við að fyrirtækið muni kosta 100,000 kr. og leggur sýslan til helminginn, en afborgar hinn helminginn á 20 árum, ef þessi liður fær að standa í fjárlögunum.

Örfáum orðum vildi jeg minnast á brtt. háttv. þm. Barð. (H. K.) á þgskj. 720. Mig brestur reyndar alla þekkingu til að mæla með eða á móti, því að mjer er með öllu ókunnugt, hvernig til hagar þar vestra og veit ekkert um, hvernig þessi eldiviður er. En hitt tel jeg áreiðanlegt, að þessi fjárveiting nái ekki tilgangi sínum, þótt hún verði samþykt. Einar 25 þús. kr. er of lítið fje til þess að haldi komi. Jeg tel mig ekki færan til að dæma um, hvort. háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) hefir rjett fyrir sjer. Hann virtist ganga út frá því, að fyrirtækið væri fyrirfram dauðadæmt, og miðaði við reynsluna í Færeyjum; en þó að svo færi í Færeyjum, er ekki áreiðanlegt að svo færi hjer. Fjárlaganefndin hefir ætlast til að veittar verði 25,000 kr. til að framkvæma rannsóknir á þessum kolanámum, og ætlast til að það verði gjört af þeim mönnum, er fult skyn bera á slíkt — eru sjerfræðingar. Ekki þykir mjer ólíklegt, að hvortveggja tillagan komi að jafn litlu haldi, því að upphæðin er svo lítil.

Nefndin hefir lagt til að styrkurinn til prófessors Ágústs Bjarnasonar falli niður. Öllum er kunnugt að sá maður hefir starfað mjög mikið og er nú að ljúka við ritverk sitt „Yfirlit yfir sögu mannsandans“. Það ritverk er vinsælt af alþýðu manna, enda er það fræðandi og mentandi, og væri miður, ef prófessornum væri neitað um þenna litla styrk. Nefndin hefir verið örlát á ýmsum öðrum sviðum, og skil jeg þess vegna ekki, að hún haldi mjög fast í þessa brtt.