09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Guðmundur Björnson:

Þetta mál, sem hjer er um að ræða, fæddist hjer í efri deild. Jeg var því þá hlyntur, og er það enn.

Mjer virðist full ástæða til í þessu máli, sem öðrum fjármálum, að athuga tvent, bæði þörfina og getuna. Fjármálin eru alt af mestu vandræðamálin, því að þarfirnar hjá oss Íslendingum eru jafnan óteljandi, en krónurnar teljandi. Nú á það svo að vera, að fjárlaganefndir í báðum deildum fái til íhugunar allar þarfir landsins. Þær eiga að meta þarfirnar, en þær eiga einnig að meta getuna. Því miður hefir það um of tíðkast hjer í þinginu, að fara á bak við þessa langþýðingarmestu nefnd þingsins. Lög hafa verið samþykt, án þess að geta hafi verið til að fullnægja pörtunum. Á þenna hátt hefir landið komist í skuldir, í fjárþröng. Jeg kalla, að svo hafi verið í þessu máli ; landssjóði hefir verið skipað, að leggja í þenna sjóð, en tekjurnar hafa ekki hrokkið til, og lán ekki fengist. Manni virðist, að áfallinn kostnaður ætti að ganga fyrir öðru, en nú er svo komið, að landið skuldar Landhelgissjóðnum 46 þúsundir króna. Og enn stendur illa á fyrir okkur fjárhagslega; þarfirnar verða miklar og óhægt eða ef til vill ókleift að fá lán.

Jeg kann því ekki við, að þessu máli, hversu þarflegt sem það er, og um það er jeg ekki í minsta vafa, sje hraðað um of. Jeg vona að vinir málsins og fylgismenn sjeu mjer sammála um, að best er að fresta umræðum um þetta mál, þangað til við vitum, hver geta landsins er, og hve miklar og margar aðrar þarfir. Það sjáum við þegar fjárlögin eru komin úr nefndum. Jeg tek það enn fram, að jeg hefi miklar mætur á þessum sjóði, en fyrst og fremst vil jeg þó líta á getuna. Jeg tala ekki meira um þetta að sinni; mjer virðist málið full ljóst. Og að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að koma fram með rökstudda dagskrá, svo hljóðandi:

Deildin freistar umræðum um þetta mál hálfan mánuð og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.