27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

68. mál, útflutningur hrossa

Sigurður Stefánsson:

Það er rjett, sem háttv. þingm. G.-K. (K. D.) og tók fram, að nefndin gat ekki lagt út í að tryggja hrossunum gott veður á leiðinni út. Það er annað, sem þar ræður. En nefndin leit svo á, að meiri líkur væri á, að veðrið yrði betra, því lengra sem liði fram á. vorið. Sami háttv. þm. sagði, að meiri. þörf væri að athuga 2. grein en 1. grein. En þetta er algjör misskilningur hjá honum, því að brtt. nefndarinnar er einmitt við 2. grein. En jeg skal játa, að það geta verið fleiri atriði í 2. gr., sem þyrfti að laga, enda þótt mikið hafi verið gjört. til þess, að skepnunum geti liðið vel á. útleiðinni, ef fyrirskipunum þeirrar greinar er hlýtt. Þar er sagt, að öll skip, er er flytja hross frá Íslandi til útlanda, skuli vera hagkvæmlega útbúin í því skyni. Hross má eigi flytja á þilfari frá Íslandi til annara landa á öðrum tíma árs en frá miðjum júní til ágústmánaðarloka. Hrossin skal hafa í stíum, hæfilega stórum og traustgjörðum, og sje þeim ætlað nægilegt rúm. Á stíugólf og gangrúm skal strá hálmi eða sandi eða gjöra ósleipt á annan hátt. Sjá skal fyrir góðri loftræstingu og birtu, eftir því, sem ástæður frekast deyfa. Sje nú mikið af þessu vanrækt, þá er það ekki lögunum að kenna. Það mundi eins vera vanrækt, þó farið væri að gjöra fleiri breytingar í þessa átt. Sömuleiðis er ákveðið í 2. gr., að á hverju skipi, sem flytur hross til útlanda, skuli skipstjóri hafa nægilegan mannafla, til að gæta hrossa á leiðinni og að hentugur útbúnaður skuli vera við fóðrun hrossanna og við vötnun, að hrossunum skuli ætlað nægilegt fóður og vatn á leiðinni, og má fóðrið ekki vera minna en 10 pund af heyi, fyrir hvern hest á dag, eða sem því svarar af öðru fóðri. Þetta er alt til þess að tryggja, að hrossunum liði vel á sjónum, en þingið getur ekki ráðið við, hvort þessu er fram fylgt eða ekki. Háttv. þingm. Barð. (H. K.) sagði, að jeg hefði rangfært orð sín, en mjer virtist ekki mikill munur á því, sem hann sagðist hafa sagt og því, sem jeg sagði að hann hefði sagt.