03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra :

Háttv. 5. kgk. (G. B.) sagði, að rjettur fólks til verkfalls væri viðurkendur í öðrum löndum. Það kann að hafa verið rjett, að því sem við víkur almennu verkafólki, en alls eigi nær það til starfsmanna hins opinbera. Jeg skal að svo stöddu eigi fullyrða um, hvernig verkfallslöggjöfinni, að því er snertir opinbera starfsmenn, er háttað; það mun verða kostur á að athuga það mál betur, áður en frv. kemur til 3. umr. Hv. 5. kgk. (G. B.) hjelt, að eigi mundu vera til jafnströng hegningarákvæði um verkfall í öðrum síðuðum löndum og ákvæðin í frv. þessu. Því trúi jeg þó naumast, hafi Frakkar á annað borð sett lög um þetta, eins og jeg hygg vera, að þá hafi þeir sett sektirnar lægri. Her í landi stendur auk þess sjerstaklega á með verkföll. Í öðrum löndum er auðveldara að bæta í skarðið, þótt einhver flokkur með sjermentun gangi úr skaftinu. Hjer eru fáir eða engir aðrir en þeir, sem að starfinu vinna, sem til þess kunna; annars staðar eru þeir að jafnaði fleiri með sömu sjermentun, og þeim mun hægra, að ná til manna úr öðrum löndum, ef á þarf að halda (Guðm. Björnson: Það eru samtök hjá starfsmannaflokkunum). Það úir og grúir nú samt af skrjúfubrjótum.

Ef löggjafarvaldið vill eitthvað gjöra til að stemma stigu fyrir verkföllum, má ekki gjöra lögin hlægilegt pappírsgagn.

Jeg vildi óska, að aldrei kæmi til þess að landstjórnin þyrfti að beita verkfallslögunum. En ef til þess kæmi, að opinberum starfsmönnum dytti í hug að leggja skyndilega niður störf sín, þá þurfa að vera til rammar skorður, er reisa megi gegn því. Það má raunar benda á, að þegar eru í lögum vorum ströng viðurlög. við því, ef menn hlaupa frá vinnu sinni eða leggja hana niður; skal jeg nefna þar til formannalögin. Skipstjóri hefir heimild til, að láta taka mann fastan, sem hleypur burt frá skipi hans, og honum er fengið takmarkalítið vald, ef skipshöfnin sýnir mótþróa eða gjörir verkfall. Það má að vísu segja, að þetta sje nauðsynlegt, því að skip og mannalíf sje í veði. En má eigi alveg sama segja, ef t. d. vitaverðir tækju sig saman um að kveikja eigi einn góðan veðurdag á vitunum við strendur landsins?