16.08.1915
Efri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson :

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 320, samkvæmt ósk kjósenda minna. Á tveimur þingmálafundum í Skagafirði var í sumar eindregið skorað á okkur þingmenn. kjördæmisins, að vinna af mætti að því á Alþingi, að símalínan frá Sauðárkróki til Siglufjarðar yrði gjörð að 1. flokks línu. Og þetta er ekki nein ný bóla, því á undanförnum árum hafa ár eftir ár verið samþyktar sams konar áskoranir á flestum þingmálafundum í kjördæmi mínu með öllum atkvæðum.

Út af þessu, sem okkur þingmönnum Skagafjarðar var falið, rituðum við brjef og fórum þess á leit við nefnd þá, sem kosin var í þessari háttv. deild til að íhuga frumvarp það, er hjer er til umræðu, hvort hún sæi sjer ekki fært að taka það upp í frumvarpið, sem breytingartillaga mín fer fram á. Litlu síðar, eða nær samtímis, ritaði jeg landsímastjóranum brjef og fekk svar frá honum þann 11. þ. m Í því brjef, sem jeg skrifaði landsímastjóranum; vitnaði jeg fyrst og fremst í áskorun þá, sem gjörð var til okkar þingmanna kjördæmisins. En eins og jeg áður tók fram, hafa þær áskoranir verið endurteknar undanfarin ár. Með leyfi hæstv. forseta mætti jeg má ske lesa upp kafla úr brjefi landsímastjórans og fundarályktun þá, er gjörð var um mál þetta á þingmálafundinum í sumar. Fundarályktun þessi hljóðar þannig:

„Fundurinn felur þingmönnum kjördæmisins að vinna að því eftir mætti, að símalínan Sauðárkrókur — Siglufjörður verði gjörð að 1. flokks símalínu“.

Til skýringar fundarályktun þessari bætti jeg við í brjefinu:

„Ástæður þær, er fram hafa verið færðar þessu til stuðnings, eru sjerstaklega þær, að lína þessi borgi sig flestum línum betur og gefi mjög háa vexti af fje því, er til línunnar var varið og að tillag sveitanna, 10 þúsund krónur, hafi verið tiltölulega hátt“.

Þessu hefir landsímastjórinn svarað, og er svar hans aðallega fólgið í því, er jeg nú vil lesa upp með samþykki hæstv, forseta :

„. . . En jeg er yður sammála í því, að af hliðarlínum er Siglufjarðarlínan sú, er einna mest gefur af sjer, og þess vegna gæti verið ástæða til, að endurgreiða hluta af tillaginu, ef afleiðingarnar yrðu ekki til fyrirstöðu.

Jeg get ekki sjeð, að nein sjerstök ástæða sje til að flytja Siglufjarðarlínuna yfir í 1. flokk, enda mun það ekki vera aðalkappsmál yðar, heldur endurgreiðalan á tillaginu“.

Þannig hljóðar þetta svar landsímastjórans. Hann sneiðir alveg hjá því atriði, að tillagið hafi verið tiltölulega hátt. Hitt játar hann, að línan borgi sig vel, „gefi einna mest af sjer“. Og í niðurlagi þess, sem jeg las upp, fer hann að tala um, að tilgangur minn eða aðalkappsmál sje „endurgreiðslan á tillaginu“. Um niðurlag þess, er það að segja, að það er sumpart rjett, sem landsímastjórinn segir, að jeg fari fram á, að Siglufjarðarlínan sje tekin í 1. flokk, vegna þess, að það sje „aðalkappsmál“ mitt, að tillagið sje endurgreitt. En það er heldur ekki meira en sumpart rjett, sem hann virðist gefa í skyn með orðum sínum, að mjer sje kappsmál, að fá alt tillagið endurgreitt, eins og sakir nú standa. Því jeg hefi í brjefinu skotið því til umsagnar hans, hvort hann teldi óaðgengilegt, að línan yrði 1. flokks, ef jafnframt yrði fram tekið, að aðeins helmingur af öllu tillaginu — 10000 kr. — eða 5000 krónur, yrðu endurgreiddar. En með þessu óefi jeg sýnt, að jeg ljeti mjer nægja miðlun á málinu. Fleira getur og til greina komið en endurgreiðslan, svo sem skyldan til að endurnýja línuna, þegar þar að kemur.

En að því er snertir að taka línu þessa upp í 1. flokk, eins og jeg fer fram á, þá vil jeg leyfa mjer að rökstyðja rjettmæti þess.

Jeg hefi tekið það fram í brjefinu, og jeg tek það enn fram, að línan borgi sig flestum línum betur, og að svo megi líta á, að tillagið sje tiltölulega of hátt, og því tel jeg líka þessa kröfu, um að línan verði gjörð að 1. flokks línu bæði eðlilega og sjálfsagða.

Ástæðurnar, sem jeg ætla að dvelja við, eru þessar tvær:

1. að línan borgi sig betur en aðrar línur og

2. að tillagið sje of hátt.

Jeg skal þá fyrst athuga dálítið nánar síðari ástæðuna, um að tillagið hafi verið of hátt.

Þessi lína kostaði alls 35264 krónur 75 aura, og viðkomandi hjeruð greiddu af því 10 þúsund krónur, eða ekki fullan þriðjung af allri upphæðinni, en gætandi er að því, að í þessum kostnaði er meiri kostnaður en sá, er línan Vatnsleysa–Siglufjörður kostaði, og tillagið var miðað við í fyrstu.

Á þinginu 1909, þegar lína þessi var samþykt, ætlaðist þingið til þess, að hún væri tekin út frá aðallínunni við Vatnsleysu, og samkvæmt því var línan áætluð. En landsímastjórnin leyfði sjer án allrar heimildar frá þingsins hálfu að breyta þessu, og tók línuna alla leið frá Sauðárkrók, svo hún varð talsvert lengri. Frá Sauðárkrók og yfir að Vatnsleysu eru milli 10 og 20 kílómetrar, að mig minnir nákvæmlegar tiltekið 15–16 kílómetrar, sem jeg þó ekki þori að fullyrða að jeg muni rjett. Á þessari leið falla Hjeraðsvötnin til sjávar, svo leggja varð símann yfir báða arma þeirra, beggja megin við Hegranesið, en þetta er að ýmsu leyti erfiðasti partur leiðarinnar til Siglufjarðar.

Skagfirðingar mæltu strax á móti þessu, sýslumaður þeirra, þingmenn kjördæmisins o. fl., því þeir sáu, að með þessu móti var leiðin eigi að eins lengri og dýrari, heldur mundi línan verða ótryggari, enda hefir það sýnt sig, því oft vill línan bila á þessu svæði; en mótmælum þeirra sinti landsímastjórinn ekki.

Afleiðingin af þessu var sú, að það varð að taka upp gömlu staurana, setja upp nýja staura, hærri en þá eldri, á allri línunni frá Sauðárkróki til Vatnsleysu, því gömlu staurarnir voru of lágir, til þess að bætt yrði á þá nýjum þráðum. Þetta var aukakostnaður. Kostnaður á stauraflutningi, mismunur á stauraverðinu, nýr þráður á 15–16 km, leið og uppsetning línunnar. Þetta allt var aukinn kostnaður, sem ekki var áætlaður í upphafi, og sem í sjálfu sjer var með öllu óviðkomandi línunni Vatnsleysa-Siglufjörður, og hlutaðeigandi sveitum því ekki skylt að taka þátt í þessum kostnaði.

Jeg hefi áður áætlað hjer í háttv. deild, að þessi kostnaður hafi eigi getað verið minni en 6 þúsund krónur, og því hefir hvergi verið mótmælt, svo jeg verð að telja það mjög sennilegt, að sú upphæð sje rjett, og því yrði kostnaðurinn við Siglufjarðarlínuna sjálfa í raun og veru að eins tæpar 30 þúsundir króna. Það má líka líta svo á, sem stjórn landsímans hafi viðurkent þetta rjett að vera, er hún ákvað tillag hjeraðanna 10 þúsund krónur, því líklegt er, að hún hafi litið svo á, að tillag hjeraðanna ætti að vera um 1/3 alls kostnaðarins, en ekki þar yfir. En tillag hjeraðanna, 10000 krónur, hefir þó orðið rúmlega þriðjungur af því, er símaálman Vatnsleysa–Siglufjörður kostaði.

Vona jeg nú, að sýnt sje berlega að tillag sveitanna hafi verið tiltölulega hátt. Sný jeg mjer þá að fyrra atriðinu, að þessi símalína borgi sig flestum símalínum betur.

Jeg vil árjetta það, sem í brjefinu stendur, að símaálma þessi borgi sig flestum símaálmum betur, jeg vil taka svo djúpt í árinni, að hún borgi sig betur en allar aðrar 2. flokks símaálmur, hvar sem er á landinu.

Og skal jeg nú færa nokkur rök fyrir því, að þetta sje í alla staði rjett, og að línan hafi því fullan rjett til þess að vera 1. flokks símalína.

Það kom strax í ljós, að línan gaf mjög mikinn arð, og það enda talsvert meiri en mönnum hafði komið til hugar, enda þó, að kunnugum mönnum blandaðist eigi hugur um það frá byrjun, að hún mundi gefa mikinn arð.

Jeg skal þá byrja með því að benda á, að þegar símalögin voru til umræðu á Alþingi 1912, og farið var fram á, að þessi símalína væri tekin í fyrsta flokk ásamt símalínunni til Vestmannaeyja, þá var það þegar ljóst orðið, að arðurinn var mjög mikill. Þann hluta ársins 1910, sem hún var starffær höfðu tekjurnar verið miklar og brúttotekjurnar af henni árið 1911 voru alls 12720 krónur. Að málið náði þá ekki fram að ganga, mun sjerstaklega hafa stafað af því, að þá var mjög áliðið þingtímans, er málið lá hjer fyrir hv. efri deild, og sumir deildarmenn muna því hafa litið svo á, sem málið gæti strandað í þinginu, ef að það lenti á hrakningi á milli deildanna. Að minsta kosti var þessa slegið fram í umræðunum. Jeg skal ekki nú, fara nánar út í þetta atriði, en á hinu vil jeg vekja athygli, að á næsta þingi, árið 1913, var samþykt hjer í hv. Ed., að gjöra línu þessa að fyrsta flokks línu, en hv. neðri deild breytti frv. og feldi línuna burtu.

Eftir skýrslu um störf landsímans námu hreinar tekjur af Siglufjarðarlínunni árið 1912 alt að 6000 kr., og ef frá því er dregin 5% af stofnkostnaði símalínunnar, en hann talinn 35 þús. kr., eða 1750 krónur alls, þá eru þó eftir um 4000 króna gróði til afborgunar á stofnkostnaðinum. En þetta svarar til þess, að lína þessi greiði 5% vexti, og endurgreiði höfuðstólinn á ca. 9 árum. Á þinginu 1913 var það dregið mjög í efa af sumum háttv. þingmönnum, að þessar tekjur væru svo fastar, að hægt væri að byggja á þeim.

Þeir þóttust óttast fallvaltleik teknanna, af því þær bygðust mikið á síldveiðinni og að þær mundu fara minkandi, en það hefir reynst rangt. Tekjurnar hafa farið vaxandi síðan, Þeir töldu þá að tryggara væri að byggja tekjur símans á starfsemi Miljónafjelagsins svo nefnda, en á síldarútveg, en reynslan hefir nú sýnt, að stórfyrirtækin geta farið á hausinn, þótt ekki fáist þau við síldveiði, og það — því miður — einmitt þau fyrirtæki, er háttv. þingmenn þá töluðu um og bygðu von sína á sem tryggum grundvelli. Enn er síldveiðin þó í mesta blóma á Siglufirði, og jeg sje enga ástæðu til að ætla, að henni hraki að neinu leyti í náinni framtíð. Síldveiðin er ekki ótryggari en aðrar greinar sjávarútvegsins, og því full ástæða til að ætla, að með vissu megi byggja á henni tekjur næstu ár.

En nú skal jeg gjöra samanburð á árunum 1912 og 1914, til þess að sýna, að tekjur síma þessa hafa farið vaxandi en ekki minkandi.

Samkvæmt skýrslu um störf landsíma fyrir árið 1914, er jeg hefi hjer með höndum, hafa tekjum Siglufjarðar símalínunnar numið það ár meir en árið 1912.

Árið 1914 voru tekjur símans á Siglufirði svo sem hjer segir:

fyrir símtöl . . . . . . . kr. 2905

fyrir innl. símskeyti . . . . — 1665

Alls kr. 4570

Fyrir skeyti til útlanda voru

tekjurnar 9579 kr., og af því

tilheyrir 1/3 hluti símanum, eða — 3193

Aðrar tekjur . . . . . — 96

Alls voru tekjurnar kr. 7859

en allur kostnaður nam . — 1367

og voru því hreinar tekjur af

þessari stöð . . . . . . — 6492

En þar við bætast hreinar

tekjur (tekjur að frádregnum

kostnaði af hinum stöðvunum á

línunni, en þær voru :

Haganesvík . . . . . . . — 352

Fell . . . . . . . . . — 47

Hofsós . . . . , . . . — 579

Kolkós og Vatnsleysa . . — 228

Eða alls kr. 7698

Það er því ljóst, að tekjurnar hafa farið

vaxandi, og það að miklum mun, því

eins og jeg áðan tók fram, þá námu

hreinar tekjur þetta ár 7698 kr. Sje nú þar frá dregin 5% í vexti af 35000 kr. eða 1750 kr. þá verður hreinn ágóði auk vaxta um 5950 kr. eða sem næst 6000 kr. Það er með öðrum orðum, að tekjurnar hafa vaxið svo mjög, að þetta samsvarar því, að síminn gæti með jöfnum tekjum og þeim, sem hann hafði 1914, greitt allan stofnkostnað á 5–6 árum, auk 5% vaxta af upphaflegum stofnkostnaði.

En nú skal jeg víkja enn nánar að þessari hlið málsins, og rekja fjárhagssögu þessarar símaálmu frá öndverðu, svo að menn geti að fullnustu gengið úr skugga um, að jeg fer hjer með laukrjett mál.

Eins og jeg tók áður fram, þá var allur stofnkostnaður símans 35264 kr. 75 au., og var síminn fullgjörður haustið 1910, svo að stöðvarnar byrjuðu starf sitt, sumar í byrjun septembermánaðar, og sumar í lok mánaðarins. Jeg hygg því, að nóg sje að reikna vexti af stofnkostnaðinum frá miðjum þessum mánuði, og verða þá vextirnir með 5% 514 krónur, og kostaði þá síminn 1. jan 1911 . . . . kr. 35778,00 en hreinar tekjur þetta ár á öllum 6 stöðvunum námu

alls. . . . . . . . , kr. 2014.00

svo í ársbyrjun 1911 voru

eftir af stofnkostnaðinum alls kr. 33764,00

og ársvextir af því . . . — 1688,00

Alls kr. 35452,00

Árið 1911 voru hreinar tekjur

símans svo sem hjer segir:

Siglufjörður . kr. 6188,00

Haganesvík . — 198,00

Fell . . . . — 53,00

Hofsós . . . — 624,00

Kolkuós . . — 118,00

Vatnsleysa. . — 53,00 kr. 7234,00

og eru þá eftir af höfuðstól

1. jan. 1912 . . . . . kr. 28218,00

5% vextir af því í eitt ár

(1912) . . . . . . ca. kr. 1411,00

Alls kr. 29629,00

En árið 1912 voru hreinar

tekjur símans aftur svo

sem hjer segir:

Siglufjörður , kr. 4836,00

Haganesvík . — 278,00

Fell . . . . — 72,00

Hofsós . . . — 560,00

Kolkuós . , — 167,00

Vatnsleysa. . — 55,00 kr. 5968,00

og verður þá eftir af stofn-

kostnaðinum 1. jan. 1913 , kr. 23661,00

5% vextir af því árið 1913 — 1183,00

Alls kr. 24844,00

Árið 1913 námu hreinar

tekjur:

Siglufjörður . kr. 5393,00

Haganesvík . — 235,00

Fell . . . . — 42,00

Hofsós . . . — 432,00

Kolkuós . . — 95,00

Vatnsleysa. . — 123,00 kr. 6320,00

og er þá eftir af stofnkostn-

aðinum 1. jan. 1914. . . kr. 18524,00

Þar við bætast 5% vextir

árið 1914 . . . . . . — 926,00

Alls kr. 19450,00

En eins og jeg tók áður fram, og hefi sýnt sundurliðað, þá voru hreinar tekjur

símans 1. jan. 1914 . . . kr. 7698,00

og verða þá. . . . . . kr. 11752,00

eftir óborgaðar af símanum nú við síðustu árslok, eða 1. jan. 1915, en það sjá allir, að þessi upphæð verður fullgreidd innan tveggja ára; á því getur ekki leikið nokkur vafi.

En auk þessa vil jeg vekja athygli hv. þingmanna á því, að jeg hefi hjer reiknað með þeim óeðlilega og ekki rjetta stofnkostnaði, er símastjóri telur, eða 35264 krónum, í stað tæpra 30 þús. króna, sem álman frá Vatnsleysu til Siglufjarðar kostaði. Ef jeg hefði reiknað með þeirri upphæð, þá væri nú ekkert eftir, því 1. jan. síðastliðinn hefðu ekki verið eftir nema 5000 krónur, en sú upphæð mun áreiðanlega vera greidd nú.

Þá vil jeg enn fremur vekja athygli hv. deildar á því, að jeg hefi alstaðar talið með gjöldum og kostnaði alt það, sem svo er nefnt í skýrslu um störf landsímans, og þá líka þær upphæðir, sem greiddar hafa verið til viðhalds símans. En eins og allir verða að játa, þá er það ekki rjett; þar er hallað á símalínuna Jeg hefði því, og það með rjettu, getað sýnt að línan borgaði sig betur en jeg hefi talið.

Loks vil jeg vekja athygli hinnar háttv: deildar á því, að hjer eru í sjálfu sjer ekki taldar tekjur, því jeg hefi einvörðungu, eins og skýrsla landsímans, talið það tekjur, sem hefir innborgast á stöðvunum, en ekkert tillit tekið til þess, er hefir greiðst til símans vegna samtals eða skeyta til símastöðvanna á línunni, sem þó hefði með nokkrum rjetti mátt gjöra.

Jeg skal sem dæmi benda á það, að frá útlöndum einum hafa verið send fjölda mörg skeyti til stöðva við línu þessa. Skeytafjöldi sá nam:

1912 . . 857 símsk.

1913 . . 933 —

1914 . . 1012 —

Ef þessar tekjur væru taldar með, að einhverju leyti væri síminn búinn að borga Það má því öllum vera auðsætt; að þessi lína gefur mikinn hagnað, og mjer finst það sjálfsagt, að hún fái að njóta þess og sjé sett í fyrsta flokk.

Jeg býst nú við því, að einhver segi eða kunni að segja að í fyrsta flokki sjeu einvörðungu þær símalínur, er megi skoða sem sjálfsagðar sambandslínur, hvort sem, þær borgi sig eða ekki. En þetta er ekki. rjett, það hafa verið teknar hliðarlínur í 1. flokk (Steingr. Jónsson: Hverjar?) T. d. Vestmannaeyjasíminn síminn, sem tekinn var í fyrsta flokk á þinginu 1912 og það er

jafnrjettmætt, að þessi lína sje í fyrsta flokki. Hún gefur meiri arð.

Jeg skal nú ekki lengja umræðurnar að mun meira en orðið er.

Landsímastjórinn segir í svari sínu, að Siglufjarðarlínan gefi einna mest af sjer. Jeg þykist nú hafa sýnt með gögnum, er ekki verður hnekkt, að þessi lína gefur meira af sjer en nokkur önnur 2. flokks símalína gjörir.

Í þessu sama svari sínu segir landsímastjórinn, að hann telji ekki rjett, „að taka nokkra sjerstaka lagningu fram yfir aðra“. Þessu get jeg ekki verið sammála, enda má segja, að háttv. Alþingi og landsímastjórinn sjálfur, meira að segja, fallist ekki á þessa skoðun, því að í símalögunum eru símarnir flokkaðir, og jafnvel hliðarálmur teknar í 1. flokk.

Þegar mál þetta var rætt hjer á Alþingi 1913, þá komu fram raddir um það, að hafa mætti einhverjar ákveðnar reglur um það, hversu mikið símarnir ættu að gefa í arð, til þess að verða teknir í 1. flokk. Jeg man ekki betur, en að jafnskýr og vitur maður og háttv. 1. kgk. (E. B.) hjeldi því fram, að rjettur mælikvarði í þeim efnum væri sá, að setja sem mark, að símarnir gæfu, er reiknaðir væru frá 5% vextir, 10–15% í hreinan arð, upp í afborgun á stofnkostnaði. Sje þetta misminni, vænti jeg að háttv. 1. kgk. leiðrjetti það. En þessi lína gefur meira en það; hún gefur nær 20%, og er það því fullkomlega rjettmætt, frá þessu sjónarmiði skoðað, að hún verði tekin í 1. flokk.

Að lyktum skal jeg geta þess, að mjer er ekki kunnugt um afstöðu hinnar háttv. deildar, nje nefndarinnar til tillögu þessar- ar; jeg veit ekki, hvers vegna hún hefir ekki sjeð sjer fært, að taka hana upp, nje hvort hún muni mæla með henni eða ekki,. þó hugboð mitt sje það, að hún sje tillögunni fremur mótfallin. En jeg vænti að, fá að heyra umsögn hins háttv. framsögumanns um þau efni.

En vona vil jeg það, að hin háttv. þingdeild sjái sjer fært að samþykkja tillöguna. Ef hún gjörir það, má hún vera þess viss, að þar nær rjett mál fram að ganga.