16.08.1915
Efri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið, en það er brtt., sem jeg þarf að segja nokkur hlý orð um.

Jeg skal strax lýsa yfir því, að jeg er flutnm. samþykkur í því, að brtt. feli í: sjer rjettlætiskröfur, en það eru fleiri stöðvar, sem eiga kröfu til hins sama, og sumar af þeim stöðvum álít jeg hafa öllu meiri rjett til að komast í 1. flokk en þá, sem hjer er um að ræða. Tek jeg það. þó fram, að jeg vildi gjarnan styðja að því, að þessi stöð, sem aðrar fleiri, væri færð í 1. flokk, því að vitanlega er það rjettmætast, að landssjóður kosti alla síma, að mestu eða öllu leyti.

Á þinginu 1913 fór hv. þm. (J.B.) frsm á, að Siglufjarðarsíminn væri tekinn í 1. flokk, og krafðist jeg þess jafnframt, að síminn frá Ísafirði til Patreksfjarðar væri það líka. Hjer er líkt mál að sækja, enda þótt Siglufjarðarsíminn gefi meira af sjer, eins og stendur, þá byggjast þær tekjur mestmegnis á síldarútveginum, sem þar er rekinn; hyrfi hann úr sögunni, sem vel getur komið fyrir, þá mundu tekjur af síma þessum stórum minka. Þegar jeg því sá, brtt. á þgskj. 320 datt mjer í hug að koma fram með breytingartillögu um Patreksfjarðarsímann, en er jeg hafði hugsað málið, leit jeg svo á, að tæplega væri leggjandi út í það nú, að taka símalínurnar í 1. flokk, og leggja þær að öllu á landssjóð. Þótt jeg, eins og jeg hefi þegar sagt, telji það allta rjettmætast og eöllegast, því þó þær símalínur sjeu má ske til, er ekki bera sig, þá er það ekki bein sönnun fyrir því, að þær sjeu ekki nauðsynlegar. Það er víða hjer á landi staðháttum þannig varið, að sími á einhvern sjerstakan stað getur alls ekki borið sig, af tekjuaukning þeirri, er samband við þennan eða þann stað gefur af sjer, en það getur verið svo mikið lífsskilyrði fyrir þá, er búa á hinum afskektari stöðum, að fá þangað síma, að það sje bein skylda þjóðfjelagsheildarinnar, að láta framkvæma það á sinn kostnað. Jeg verð því að lýsa því yfir, að þó nokkur sanngirni mæli með till. þessari, get jeg ekki greitt henni atkvæði mitt eins og sakir standa nú; lít líkt á þetta mál og hv. 2. kgk. (Stgr. J.).

Hv. 2. þm. G:-K. (K. D.) gat þess, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að mæla með byggingu loftskeytastöðvar, og skildist mjer, að það væri mest sökum peningaeklu.

Jeg verð að segja það, að hversu gjarna sem jeg vildi líta sömu augum á þetta mál og hv. nefnd, þá er mjer það ómögulegt. Jeg tel í raun og veru engan sparnað í því að spara til þess, sem bráðnauðsynlegt er; það getur þvert á móti oft verið mjög skaðlegt. Jeg verð því að láta í ljós undrun mína yfir því, að nefndin skuli ekki hafa lagt það til, að reist væri loftskeytastöð hjer, sjerstaklega þar sem landsímastjórnin er því máli mjög fylgjandi. Enda er það vitanlegt, að margir staðir verða alveg símasambandslausir, ef þetta kemst ekki í framkvæmd; má þar til nefna Flatey á Breiðafirði, Grímsey og fl. staði.

Það segði einhver að fylgi mitt við þetta mál væri af hreppapólitík. Þessu neita jeg ei algjörlega. Þó jeg nefndi Flatey á Breiðafirði í einu sambandi við þetta, var ekki nema eðlilegt, því eins og hv. þingm. er kunnugt, er þar verslunarstaður allfjölmennur, er hefir engan síma. Hversu mikið tjón af því getur leitt, að sími liggur ekki þangað, er óútreiknanlegt, ekki einungis fyrir verslunina sjálfa, heldur einnig alla þá, sem eru viðskiftamenn hennar. Það, að setja hjer upp loftskeytastöð, gefur mjer mikla von um að slík stöð verði sett upp á Flatey, annað hvort samtímis eða sem allra fyrst á eftir þeirri, er hjer væri sett upp. Að svo verði gjört, þykist jeg hafa ástæðu til að vona samkvæmt loforðum símstjóra, þá er jeg átti tal við hann síðast um þetta mál. Þar sem jeg veit mjög vel, hve afar áríðandi það er fyrir Flatey, að komast í símasamband, en jeg veit einnig, að það mundi dragast um lengri tíma, að sæsími verði lagður þangað, þá er það laust við alla hreppapólitík, þó jeg sje því fylgjandi, að stöð þessi verði reist hjer, þó hún nái ekki til útlanda; þvæu verði ekki stöðin reist hjer, þá er jeg vonlaus um að fá nokkurs konar símssamband til Flateyjar fyrst um sinn, eða svo hefir mjer virst tekið í það mál, bæði hjer á þingi og af símstjóra.

Jeg sje svo ekki ástæðu að fjölyrða frekar um þetta, en vil taka það fram, að jeg muni ekki greiða atkvæði með brtt. á þgskj. 320.