12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra:

Jeg óska að eins að gjöra. tvær athugasemdir, sem báðar horfa út á við, Það hefir verið skýrt frá því, að samkvæmt lögum Frakka eigi skipverjar þeirra rjett til að fá vissan áfengisforða daglega, skipsforða. Ef þetta yrði nú sett í lög, að innsigla alt áfengi, svo að ekki verði því náð án lögbrots, mundi franska stjórnin mótmæla, og lögin ef til vill ekki ná staðfestingu. Þetta vildi jeg benda hv. deild á, áður en lögin eru samþykt, ef hún vill láta þau ganga fram og ná staðfestingu konungs.

Hvað viðvíkur hinu atriðinu, þá er það um afnám laga nr. 23, 20. okt. 1913, sem heimila sendikonsúlum erlendra ríkja, að flytja ákveðinn forða til heimilis síns árlega, 800 lítrar á ári mun það vera.

Það er satt, að jeg átti tal við nefndina, sem um þetta fjallar. Jeg stend við það, að það er ekkert í milliþjóðarjetti um það, að sendikonsúlar verði ekki að hlíta landslögum í því efni eða líkum efnum, er hjer greinir. En það er annað atriði, sem kemur til greina, og það er „international“ kurteisi. Jeg hefi átt tal við einn erlendan sendikonsúl hjer, og mjer virtist hann vera á því máli. Jeg býst við, að sendikonsúlarnir kynnu því illa, ef tekið væri af þeim þetta leyfi, er þeim hefir verið veitt. Þeim þykir óþægilegt að breyta oft um lifnaðarhætti, og ófrelsi að mega ekki hafa vín með mat, þegar þeir eru vanir því.

Þetta atriði mundi þó varla valda staðfestingarsynjun, en við megum síst á þessum tímum gjöra nokkuð til þess, að brjóta af okkur hylli annara þjóða.

Og þó að konsúlarnir fái að halda þessari heimild, þá er það ekki fórn á altari Bakkusar, heldur er það bannlögunum í rauninni óviðkomandi. Sendikonsúlarnir mundu auðvitað alls ekki misbrúka þetta leyfi á neinn hátt. Við getum óhræddir gengið út frá því. að bannstefnan er því ekki brotin með þessu leyfi.

Þetta tvent, vildi jeg biðja háttv. deild að athuga, en að öðru leyti ætla jeg ekki að blanda mjer inn í umræður um þetta mál.