10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

120. mál, þingsköp Alþingis

Karl Finnbogason:

Því miður hefi jeg ekki getað kynt mjer frv. þetta nógu nákvæmlega. Þó hefi jeg rekið mig á einstöku atriði, sem mjer þykja athugaverð, og mun jeg minnast á hin helstu þeirra.

Í síðustu málsgrein 5. gr., þar sem um prófun kosninga og kjörgengis er að ræða, er svo að orði komist um þingmann, sem bornar hafa verið brigður á að væri rjett kjörinn: „En fresti þingið úrskurði um það, þá tekur hann engan þátt í störfum þingsins, uns það mál er útkljáð, og kosning hans og kjörgengi er viðurkent“. Það er mjög vafasamt, hvort rjett er að banna manni að taka þátt í störfum þingsins, þótt einhver kæra hafi komið fram um kosningu hans eða kjörgengi, þar sem hægt er að fresta svo og svo lengi úrskurði um hana; og ekki er örgrant um, að mótflokksmenn mundu nota sjer þetta, ef þeir hefðu mátt til, og fresta óhæfilega lengi úrskurðinum. Ætti því að gefa þinginu að eins ákveðinn frest til úrskurðar. Í síðasta hluta 8. gr. stendur það, að þingdeild eða sameinað Alþingi geti vikið hverjum embættismanni sínum frá, ef fyrir því fást 2/3 samatkv. þingmanna eða deildarmanna. Mjer er ekki fyllilega ljóst, hvaða sakir þurfa til þess, að þessu ákvæði megi beita; megi víkja embættismanni þings frá, þótt sakir sjeu litlar og það sjest eigi, að greinin reisi skorður við því, þá virðist ákvæðið varúðarvert, og ekki hættulaust, að því kunni að verða misbeitt.

Þá er ráðning skrifstofustjórans. Það er gjört ráð fyrir, að forsetarnir ráði hann. En það er mikið álita mál, hvort eigi væri rjettara, þar sem hann er ráðinn til svo langs tíma, að stjórnarráðið skipaði hann og gæfi honum erindisbrjef.

Loks er að minnast á orðalag á einum stað í 16. gr. Þar er talað um samkynja nefndir. Þetta þykir mjer óviðkunnanlega og jafnvel óheppilega að orði komist, því hjer eftir getum vjer gjört ráð fyrir, að fólk af báðum kynjum sitji á þingi. Viðkunnanlegra þætti mjer, að þar stæði, sams konar, enda samkvæmara almennri málvenju.

Jeg bendi á þessi atriði, án þess þó að ætla að gjöra þau að ágreiningsatriðum; en skýt því að eins til hv. nefndar, hvort hún vilji ekki taka þau til íhugunar til 3. umr.