09.09.1915
Efri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

93. mál, hagnýting járnsands

Framsm. (Karl Finnbogason) Jeg lít nokkuð öðru vísi á þetta mál en þeir hv. þm., sem talað hafa á undan mjer.

Hjer er beðið um leyfi til að hagnýta sjer járnsand, utan dráttarsvæðis en innan landhelgi. Getur nú nokkuð ilt eða nokkuð gott leitt af að nota þennan sand, sem nú er einskis virði? Gott getur leitt af því. Ef sandurinn yrði notaður, er fyrst og, fremst trygging fengin fyrir því, að landssjóður fengi tekjur. Í öðru lagi getur orðið hagur að mannvirkjum þeim sem gjörð verða, og það ef til vill þar, sem mest ríður á, t. d. höfn við Hjeraðsflóa. Mjer blandast því ekki hugur um, að gott getur leitt af þessu. Enn fremur getur þetta orðið til gagns fyrir þá, sem að verkinu starfa, bæði innlenda og útlenda.

En getur nú nokkuð ilt leitt af þessu? Í frv. er svo um hnútana búið, að það ætti ekki að geta orðið. Ef ekki er byrjað á fyrirtækinu innan 5 ára, má segja leyfinu upp með eins árs fyrirvara. Þessi 5 ár geta því liðið, og jeg sje ekki hættu þá, sem af því gæti stafað. Komist fyrirtækið á fót, er áreiðanlegt, að landið hefir hag af því, og hjeraðið líka. Skilyrðin eru svo ströng í frv. að þess gjörist tæplega þörf, að þau sjeu strangari. Jeg álít því brtt. háttv. þm. Ísaf. (S. St.) næsta óþarfa, þó hún skifti litlu, en jeg álít ekki rjett, að þingið gjöri sjer samningaumleitanir að fjeþúfu. Það gæti líka orðið til að fella frv., ef brtt. yrði samþ. hjer. Þinginu er næstum lokið, og þurfi að fara að þvæla málinu milli deilda, gæti það hæglega orðið til þess, að það gengi alls ekki fram á þessu þingi. Það teldi jeg illa farið.

Þá talaði háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) um að leyfistíminn væri of langur, og er jeg honum þar næsta samdóma. En hjer er þess að gæta, að leyfið er að eins bundið við þennan eina stað. Annarsstaðar er fjelagið bundið við sömu kosti og önnur fjelög kunna að bjóða, svo jeg sje ekki að neitt sje fast bundið við þetta eina fjelag, og því afsakanlegt, þó tíminn sje svona langur. Auk þess er vert að gæta þess, að ef þessu ákvæði væri breytt, er það sama sem að drepa frv. Mæli jeg því með því, að frv. verði samþ. óbreytt, og vona jeg að engin hætta geti af því stafað, en þvert á móti, að það geti orðið til góðs.