13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Björnson:

Jeg verð að biðja fjárlaganefnd velvirðingar á því, að jeg varð að brjóta þá reglu, er jeg hafði tekið mjer, og það loforð, er jeg hafði gefið, að gera ekki brtt. við fjárlögin. En sú er bót í máli, að tillaga sú, er jeg flyt, hefir áður verið samþykt hjer í hv. deild en var strikuð út í hv. Nd.

Það er um kenslu í líffærameinfræði. Jeg hygg, að það sje enginn hjer í hv. deild, sem hefir betri þekkingu á kenslukröftum við læknadeild Háskólans heldur en jeg. Og jeg verð að segja það, að jeg tel brýna nauðsyn á þessu. Nú er svo háttað, að kenslustörfum er ofhlaðið á suma kennarana, sjerstaklega á Guðmund prófessor Magnússon; það hvílir alt of mikil kensla á hans herðum, og það er brýn nauðsyn á að kenslukraftarnir sjeu auknir.

Þessi grein, líffærameinfræðin, er ein af aðalgreinum læknisfræðinnar. Greinar læknisfræðinnar eru margar, og við getum ekki búist við sjerstökum kennara í þeim öllum, en við þurfum að fá sjerstakan kennar í höfuðfræðigreinunum.

Í sambandi við þessa fræði er sóttkveikjufræðin, og jeg verð að segja, að það sje nauðsynleg fræðigrein, sjerstaklega í læknadeild Háskólans. Nú er svo háttað, að það er enginn hjer, sem sjerstaklega hefir lagt stund á þessa fræðigrein, jafn mikil og merk sem hún er. Okkur vantar því færan mann til að kenna hana, en jeg endurtek það, að jeg legg áherslu á; hversu afarnauðsynleg hún er.

Jeg hefi nú um nokkur ár haft á hendi stjórnina á sóttvarnarstörfunum. En undirstaða sóttvarnanna er sóttkveikjufræðin, og því er það mjög þýðingarmikið, svo allt sje í sem bestu lagi, að læknar sjeu vel að sjer í þeirri fræðigrein. Og þegar verið er að tala um hið mikla gagn, sem læknarnir hafi gjört, þá vil jeg segja það, að höfuðgagnið eru sóttvarnirnar; með þeim hafa þeir unnið þjóðinni mest gagn. Jeg verð því .að telja það hörmulegt, ef þingið vill ekki sinna þessari brýnu nauðsyn, því þjóðin vill hafa lækna, þó hún fari ver með þá en aðra starfsmenn sína. Það er augljóst, að hjer er um nauðsyn að ræða, og mjer er óskiljanlegt, að þingið þverskallast við því, að bæta úr þessu. Þetta er tvímælalaust mesta nauðsynin fyrir Háskóla vorn, nauðsynlegra en margt annað, sem talað hefir verið um.