13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

109. mál, skipun dýralækna

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil taka í sama streng og háttv. þm. Ísaf. (S. St.), og mæla hið besta með því, að háttv. deild láti Vestfirðinga njóta allrar sanngirni. Jeg vil benda á, í sambandi við þetta, að öll ferðalög eru mjög erfið á á Vestfjörðum, og eins er um samband þeirra við Suðurland, langt að vitja dýralæknis þangað. Líka vil jeg vekja athygli á því, að menn eru að nema þessa fræðigrein, með von um embætti, einn fulllærður og annar hefir lokið námi eftir væntanlega hjer um bil hálft annað ár.

Mjer finst það vera ósanngirni, að Vestfirðingar fái ekki dýralækni, enda hafa þingin að nokkru viðurkent það rjett að vera, þau, sem hafa veitt Hólmgeiri, sem ekki er dýralæknislærður maður, styrk í 15 ár. Hann hefir þótt nærfarinn og koma að góðu liði.

Jeg vona að allir skilji það, að þótt jeg sje gamall Vestfirðingur, þá er þetta ekki af hlutdrægni fyrir mjer, heldur af því, að jeg vil firrast það, að Vestfirðingar sjeu hlutdrægni beittir.