19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Kristinn Daníelsson :

Jeg hefi borið fram brtt. á þgskj. 396, þó hún sje svo lítilfjörleg, að hún eigi varla það nafn skilið að heita breytingartillaga.

Tillaga þessi snertir að eins framkvæmd

á verki, sem áður er búið að samþykkja, því í fjárlögunum 1914–1915 eru veittar 1750 kr., til að kaupa vitalóðina á Reykjanesi. En þessi heimild hefir ekki verið framkvæmd.

Þó hjer sje um litla upphæð að ræða, þá hefir það komið sjer illa fyrir þann, er átti lóðina, að eigi varð af kaupunun.

Það, að vitalóðin hefir ekki verið keypt, kemur aðallega af því, að jarðeigandinn hefir áður selt „Námufjelagi Íslands“ allan námurjett í jörðinni.

Lóð sú, er vitanum fylgir, er í fjárlögunum nefnd „jörð“, með því að henni fylgir grasnyt, sem mun fóðra alt að því tvær kýr, og kaupverðið er sett þannig, að það samsvarar 75 kr. ársleigu af lóðinni.

En námurjetturinn kemur ekki í neinn bága, því fyrst er það, að Námufjelagið er fúst á að afsala sjer námurjettinum hvað vitalóðina snertir; að það hefir ekki komist formlega í kring, stafar af því, að tveir eigendurnir eru útlendingar. Að öðru leyti er þess að geta, að það dettur engum í hug, að þar sje neitt það, er námum við víkur neinstaðar í nánd við vitalóðina. Vitalóðin er vestast á nesinu, en staðurinn, þar sem námuvon er, liggur langt þar fyrir austan.

En enn þá standa sakir jarðeiganda svo, að það kemur honum óþægilega, ef heimildin verður ekki notuð, og nú er eigi annað en það, er jeg hefi tekið fram, er stendur í vegi fyrir framkvæmdum málsins. Þessar torfærur eru svo litlar og lítilfjörlegar, að sjálfsagt er að ryðja þeim úr vegi. Háttv. framsm. (M. P.) hefir eigi minst á þessa brtt., en jeg hygg, að jeg. megi geta þess, fjárlaganefndin sje henni hlynt.

Jafnframt vil jeg stuttlega geta brtt. um pósthúsið; mjer finst öll sanngirni mæla með því, að smiðirnir fái þessa uppbót, og jafnvel einstakir menn sýna oft slíka sanngirni í viðskiftum. Fjárlaganefnd Nd. hefir lagt þetta til, og óvilhallir menn hafa athugað kröfur smiðanna, og að eins fært þær niður í 1500 kr. Jeg vil skjóta því fram, hvort eigi megi þá heldur finna hjer meðalveg, væri þeim t. d. bót að því, að fá 1000 kr., ef annars er vert nokkuð lækka þetta. Og þá á upphæðin til þeirra að standa óhreyfð til 3. umr.