27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

122. mál, upptaka legkaups

Guðmundur Björnson :

Þetta frv. er fram komið vegna skoðanamunar í kirkjugarðsnefndinni. Við hv. þm. Barð. (H. K.) vorum ekki sammála hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.). Hann vill legkaup um land alt, en við helst hvergi.

Við höfum talið okkur til neydda að mæla með legkaupi hjer í Rvík — í svipinn —, af því kirkjugarðsstæðið hjer verður að kaupa dýrum dómum.

En við játum, að það er mjög óviðfeldið að heimta þennan skatt af Reykvíkingum, þeim einum og engum öðrum. En sje þetta ekki rjett gagnvart Reykvíkingum, þá er það ekki rjétt að gjöra öllum öðrum enn þá meira rangt til; — það er þó forsvaranlegt, að heimta legkaup hjer, af því að landið er svo dýrt, en það er óforsvaranlegt að heimta þennan skatt til sveita, þar sem kirkjugarðsstæðin fást fyrir ekki neitt.

Nú vík jeg að því, hvers vegna jeg tel legkaup ranglátan skatt. Gætum að líkfylgdum – oftast fátæklingar, sem fylgja — og borga — hafa haft stórkostnað oft og einatt af banalegu hins framliðna eða mist forsorgara sinn. — Er það nú ekki óviðfeldið að heimta þennan skatt af sorgmæddum fátæklingum, ekkjum og munaðarlausum börnum ?

Er ekki augljóst, að þetta er óviðfeldnasti skatturinn af öllum okkar sköttum? Rótgrónar landsvenjur herða fastar að fólki en nokkur landslög.

Útfararkostnaður hjer á landi er minst um 70 kr.

Rjettast væri — ekki að taka upp legkaup um alt land — heldur að jarða alla á opinberan kostnað — að hver sveit kosti jarðarfarir sinna manna. Það er þjóðfjelagsnauðsyn, að koma líkinu í jörðina, eins nauðsynlegt og að stemma stigu fyrir farsóttum, það er heilbrigðisráðstöfun, sóttvarnarráðstöfun.

Þess vegna finst mjer að ekki eigi að íþyngja mönnum, heldur ljetta á þeim þessum kostnaði. Við vitum, að frá gamalli tíð hefir það þótt mannsmark að eiga fyrir útför sinni. Margur fátæklingurinn hefir stritað og erfiðað, til þess að geta átt fyrir útför sinni. Þetta er eðlileg og mannleg hugsun. Þess vegna eru líka altíðir í útlöndum „útfararsjóðir“. Menn borga í þá árlega lágt iðgjald, og þegar þeir deyja. borgar sjóðurinn útfararkostnaðinn.

Þá þyrftum við að fá, styrkja þá, — en ekki auka kostnaðinn. Jeg kann ekki við að gjöra leiði framliðinna að fjeþúfu; — jeg tel það neyðarúrræði, að taka upp legkaup hjer í Rvík; — mjer væri kærast, að landið legði til kirkjugarðsstæði, án þess að heimta nokkuð í staðinn. Menn segja, að þetta gjald, legkaupið, verði ekki óvinsælt. Ef ekki strax — þá síðar — það hlýtur að verða óvinsælt.

Jeg ann þjóðkirkjunni alls góðs, en bjarnargreiða hygg jeg það vera, að leggja nefskatt á þjóðina henni til viðhalds. En sje það óviðfeldið að leggja nefskatt á lifandi menn, þá veit jeg ekki hvað jeg á að segja um þetta — þetta að gjöra lík framliðinna að gjaldastofni.