24.07.1915
Efri deild: 15. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

39. mál, fátækralög

Flutnm. (Hákon Kristófersson):

Frv. þetta kemur fram eftir ósk manna í mínu kjördæmi. Það er ekki fyrirferðarmikið, en hefir þó allmikla breytingu í för með sjer um sveitfestisákvæði núgildandi laga. Reynslan hefir sýnt það, að í mörgum tilfellum getur það verið afar ranglátt, að miða sveitfestistímann við 10 ára samfleytta dvöl í sama sveitarfjelagi. Og það ranglæti kemur oftar niður á fæðingarsveitinni. En menn hefir greint á um, hvaða leið ætti helst að velja til breytinga. Sumir hafa viljað miða við þá sveit, sem maðurinn dveldi í, þegar hann þyrfti styrksins með, og hafa þeir, sem þeirri skoðun halda fram, mikið til síns máls. Aðrir hafa viljað miða við 5 ára dvöl, og enn aðrir skemri tíma.

Fátækralögin eru, sem kunnugt er, frá 1905. Milliþinganefnd hafði þá fjallað um málið, og sjest það á nefndarálitinu, að mjög hafa verið skiftar skoðanir um þetta atriði. Auk þess að mjög voru skiftar skoðanir í þinginu, hafði milliþinganefndin þríklofnað, einmitt á þessu atriði. Sumir hafa viljað miða sveitfestina við 2 ár einungis. Stjórnin, sem lagði frv. fyrir Alþingi, tekur það fram, að hún álíti það óheppilegt, og gjörir ráð fyrir, að þinginu muni virðast það sama. Þegar á þingið kom, urðu þar allmjög deildar meiningar. Framsögumaður hjelt fram 10 ára tímabilinu, en gjörir ráð fyrir, að það fyrirkomulag muni einungis verða um stundarsakir. Hann kveðst einnig geta felt sig við 5 ára tímabilið, en er algjörlega mótfallinn því, að miða sveitfestina við tveggja. ára dvöl. Eins og kunnugt er, varð það ofan á að miða við 10 ár. En nú hafa ýmsar raddir komið fram á móti þessu ákvæði, meðal annars í mínu kjördæmi og Strandasýslu, og telja þetta fyrirkomulag, sem nú er, óhafandi. Jeg hefi farið fram 4, að þessu yrði breytt á þá leið, að maðurinn mætti þar sveit, er hann hafði lengst dvalið samtals, eftir að hann varð 16 ára að aldri. Jeg vil ekki halda því fram, að það sje áreiðanlegt, að þetta sje besta lausnin, en mjer finst hins vegar svo mikið rjettlæti felast í þessu, að rjett sje, að deildin taki það til athugunar, hvort þessi skoðun mín og þeirra, er mjer fylgja, hafi ekki við mikið rjettlæti að styðjast.

Það hefir mjög oft komið fyrir, þegar maður hefir dvalið 9 ár í sömu sveit, að sveitarstjórnin hefir verið hrædd um, að hann mundi ef til vill þurfa síðar á styrk að halda, og hefir þá lagt kapp á að koma honum í burt, til þess að losna við að þurfa að styrkja hann. Verði frumv. þetta að lögum, tel jeg nokkura bót ráðna á þessu.

Oft hefðu menn ef til vill losnað við, að fara á sveitina, sem kallað er, ef þeir hefðu fengið að vera kyrrir á þeim stað, er þeir höfðu ef til vill dvalið mörg ár, en með því fyrirkomulagi, sem nú er, mun síst úr þeim vandkvæðum bætt.

Fæðingarhreppnum er í mörgum tilfell um gjört afar erfitt fyrir. Það væri hægt að hugsa sjer sem dæmi, að 16 ára maður fer úr sinni sveit og dvelur 9 ár annarsstaðar, kemur síðan aftur og er kyr 1 ár, síðan fer hann og er nú enn 9 ár í fyrri staðnum, þá þarf fæðingarhreppurinn samt sem áður að sjá honum fyrir styrk, en ekki hinn hreppurinn, sem hann hefir dvalið lengst í og sem mest not hefir haft af störfum hans. Hver vill nú færa vörn fyrir því; að ekki felist ranglæti í slíku?

Jeg býst við, að sú mótbára komi helst fram móti frv., að kaupstöðunum geti stafað hætta af þessu. En nú er það vitanlegt, að það er helst yngra fólkið, sem í kaupstaðina fer, og ef það dvelur þar mörg ár og eyðir þar ef til vill bestu árum sínum og kröftum, er kaupstaðnum skyldara en fæðingarhreppnum að sjá því fyrir styrk, ef þess þarf við. Það er líka, því miður, sú sorglega reynsla einatt að fara í vöxt, að kaupstaðirnir hafa eitthvað það við sig, að þeir laða til sín margt af ungu fólki úr sveitunum. Þar sem nú þetta virðist ómótmælanlegt, þá er lang eðlilegast, að kaupstaðirnir ali önn fyrir fólki því, er til þeirra hefir flutst úr sveitunum, ef það verður styrks þurfandi, en sendi það ekki úttaugað og öreiga heim í sitt hjerað, eftir að hafa slitið sjer út annars staðar. Jeg get gengið inn á, að þetta er nokkuð athugavert spursmál, og er erfitt að finna meðalveg, er allir sjeu ánægðir með, og er málið mörgum viðkvæmt. Þó býst jeg við, að þetta muni mörgum finnast sanngjarnast. Reynslan hefir sýnt það, að sveitfestin, sem miðuð er við 10 ára dvöl, er næsta athugaverð. Jeg sje ekki ástæðu til að lengja umr. að þessu sinni; þar sem þetta er 1. umræða málsins. En jeg leyfi mjer að gjöra það að till. minni, að kosin verði þriggja manna nefnd í málið að lokinni þessari umræðu.