09.09.1915
Efri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

61. mál, fræðsla barna

Framsm. (Karl Finnbogason):

Úr því háttv. þm. Ísaf. (S. St.) er farinn að rökræða málið frá sinni hlið, þá vil jeg líka leggja orð í belg frá minni. Okkur ber á milli um tvö atriði. Hið fyrra atriði er það, að nýjum kostnaði verði dembt á sveitirnar, ef þær eiga að bera kostnaðinn við hin árlegu próf. En þetta er ekki rjett, því mönnum er alls ekki gjört að skyldu að halda árleg próf, og fellur þá það óánægjuefni burtu. Hitt atriðið er það, að undirbúningur barnanna verði verri, ef hinum árlegu prófum er ekki haldið áfram. En jeg held. að þetta sje alls ekki rjett. Prófdómari stjórnarinnar getur neitað hverju barni, sem hann telur ekki nógu vel að sjer, um prófskírteini, og ætti það að vera nægilegt aðhald að foreldrum og vandamönnum barnanna,að vanrækja ekki fræðsluna. En það eitt skiftir máli, hvort barnið er vel undirbúið að lokum.

Annars verð jeg að játa, að jeg er orðinn sárleiður á þessum eilífu kveinstöfum um fátækt og vesaldóm. Þessi húsgangshugsunarháttur verður hverju góðu máli á fætur öðru að falli. Jeg vildi óska, að hann yrði sem fyrst kveðinn niður.