14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Karl Einarsson:

Jeg er eini maðurinn í nefndinni, sem vil að frv. þetta nái fram að ganga. Hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) talaði um, að lögin væru óþörf og dýrtíðin væri meiri í orði en á borði, en þótt það sje ef til vill svo nú, þá vitum við ekki, hvað getur skeð, ef atvinnu brestur og stríðinu linnir ekki.

Svo benti hv. þm. (B. Þ.) á ýms ráð, er nota mætti, svo sem að takmarka Bíóin og kaffihúsin. Jeg ætla mjer alls ekki að fara að mæla með kvikmyndahúsunum; jeg held þau sjeu svona rjett í meðallagi nytsöm, en í þessu sambandi hafa þau mjög litla þýðingu.

Hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) var að tala um, að sveitir sumar útveguðu mönnum atvinnu; jeg sje ekki annað en það væri eins hægt í kaupstöðunum, enda er það einmitt það sem frv. þetta sjerstaklega ætlast til að gjört verði. Þessi ummæli hv. þm. eru því með frumv. en ekki móti því.

Þá var sami hv, þm. að tala um, að lögin mundu kveikja barlóm. En á því tel jeg enga hættu. Jeg býst við, að það fari enginn að leita hjálpar nema sá, sem er virkilega þurfandi, því hætt er við því, og jeg er sannfærður um það, að þessi styrkur mundi verða skoðaður sem sveitar¬styrkur, og þó svo yrði ekki, mundu sveitarstjórnirnar gæta þess, að hann yrði ekki misbrúkaður.

Því var haldið fram af einum nefndar¬manni, að það væri mikill vandi fyrir bæjarstjórnir að úthluta styrknum, en það verð jeg að telja að sje vel hægt, því um allt land eru menn svo kunnugir í sveit sinni, að þeir þekkja vendilega hvert heimili. Örðugast er það hjer i Reykjavík, en jeg tel þó engin tormerki á því, þar sem borgarstjóri hefir heila þyrping manna sjer til aðstoðar, alla bæjarfulltrúana meðal annars og fátækrafulltrúana. Þessi um¬mæli eru því að eins sögð út i loftið.

En aðalástæðan, sem þessir herrar hafa á móti frv., er vitanlega sú, að þeir, sem mikil efni hafa, verða að leggja af mörk¬um til hinna fátækustu. Miðstjettin, efna¬lega, greiðir ekkert, hún að eins sjer um sig. Því get jeg vel skilið mótstöðuna, og það, hverjir eru á móti frv.