02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

81. mál, fiskveiðar á opnum skipum

Framsm. (Karl Einarsson):

Jeg hefi borið þetta litla frv. fram samkvæmt áskorun frá fiskifjelagsdeild Vestmannaeyja. Sjómenn þar hafa talið nauðsynlegt, að setja nákvæmar reglur um, hve nær bátar fari til fiskjar á tímanum frá 1. jan. til 30. apríl, en yfir lengri tíma nær fiskveiðasamþykt Vestmannseyja ekki, og sjómönnum þar leikur ekki hugur á að lengja þann tíma. Reglur þessar hafa verið settar aðallega til þess, að bátarnir gætu betur varast línur hver annars, og til þess, að þeir gætu náð lendingu í tæka tíð. Samþyktin nær nú til báta með allskonar veiðarfæri, en samkvæmt viðaukatill. á þgskj. 661 vill nefndin, að hún nái ekki, að því er þessa báta snertir (frá 15–30 smál.), til annara en þeirra, sem veiða á lóð og leita hafnar daglega. Nú ganga víst tveir bátar úr Eyjunum, sem nota net, og er óþarft, að þeir sjeu háðir gildandi reglum um tímatakmörk. Hins vegar er ekki rjett, að mótorbátar, sem eru yfir 15 tonn, sjeu undanþegnir reglunum, og leyfi jeg mjer um það efni að vísa til fylgiskjals á þgskj. 661.

Þar sem frv. þannig fer ekki fram á nein veruleg nýmæli og það nær að eins til Vestmannaeyja, vona jeg, að háttv. deild taki því vel og lofi því fram að ganga.