22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

20. mál, stjórnarskrármálið

Karl Einarsson:

Jeg hefi tekið eftir því af umræðunum, að Heimastjórnarmenn og flutningsmenn þingsályktunartilllögunnar eru á sama máli um till., sjerstaklega að því er mjer skilst um ánægjuna yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar. Stendur einnig í till., að staðfestingin hafi farið fram í fullu samræmi við fyrirvara Alþingis. Jeg sjálfur er nú þeirrar skoðunar, að fyrirvaranum hafi verið fullnægt, ekki að eins eins og Heimastjórnarmenn líta á það mál, heldur einnig samkvæmt hinum upphaflega skilningi Sjálfstæðismanna á honum. Í fyrirvaranum er tekið fram, að uppburður sjermálanna fyrir konungi sje sjermál, sem konungur og Íslandsráðherra einn geti tekið ákvörðun um, og áður stendur, að því er mótmælt, að uppburðurinn sje lagður. undir yfirráð Dana. Staðfestingin hefir farið fram á þann hátt, að ráðherrann lagði fram sjálfan fyrirvarann. Síðan talar hann um, hvað á milli hafi borið, og segir geig þann, er fram hafi komið, sprottinn af því, að Íslendingar hafi óttast, að ef auglýsingin, sem boðuð var í Danmörku, væri gefin út þar, yrði mál þetta ekki skoðað sem sjermál, heldur háð vilja Dana og danskra stjórnarvalda. Þó segir ráðherra ekki beint svona, en það verður að skilja orðin svo, sjerstaklega er hann vísar í fyrirvarann, sem búið var að leggja fram.

Þá talar forssetisráðherra, og heldur því fram, að þessu atriði (ákvæði um uppburð sjermálanna) verði ekki breytt, nema einhver jafn trygg ákvörðun sje gjörð, og að það þurfi að ákveða stað, þar sem málin skuli borin upp. Íslands ráðherra vísar þá til þess, sem hann áður hefir sagt, og heldur fast við það og vísar í fyrirvarann.

Hans hátign konungurinn lýsir því svo yfir, að hann fallist á till. Íslands ráðherra, því annað felst ekki í orðum hans hátignar, og að hann muni ekki breyta þessu í sinni stjórnartíð, nema jafn trygg ráðstöfun sje gjörð fyrir báða aðila.

Jeg lít svo á, að þeir, sem álíta að fyrirvaranum sje ekki fullnægt, mani vilja krefjast þess, að Íslands ráðherra hefði heimtað, að forsætisráðherra tæki aftur kröfu sína um þetta síðast nefnda, en þá hefði ekki orðið úr samþykt stjórnarskrárinnar. Hjer var því úr vöndu að ráða, annað hvort að láta málið falla, eða geyma rjett okkar óviðurkendan. En mjer finst ekki, að hjer beri svo afskaplega mikið á milli, og hefi því staðið upp. Álít jeg skaðlegt að rífast mikið um þessi málefni vor hjer innanlands, og getur verið hættulegt að sannfæra Dana um rjettleysi vort. Meiri kyrð um þau mál væri heppilegri, og sæmra að reyna, að efla eigið sjálfstæði okkar efnalega. Mjer hefir því út af þessu, dottið í hug, að bera fram rökstudda dagskrá, hvort sem hæstv. forseti vill bera hana fram sem brtt. eða sjálfstæða, og hefi jeg orðað hana þannig:

Með því að deildin telur íhlutunartilraun danskra stjórnarvalda um íslensk mál á ríkisráðsfundi 19. júní 1915, er stjórnarskráin var staðfest og útgefinn konungsúrskurður um uppburð íslenskra mála í ríkisráði, skýrt og ótvírætt mótmælt af Íslands ráðherra á þeim fundi, en Danir þektu umboð hans, sem fólst á fyrirvara Alþingis 1914, og þannig kröfu Alþingis í þessu efni, sem þingið heldur fast við, þá lýsir deildin ánægju sinni yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg sje nú ekki betur en að þeir menn, sem halda fram, að ráðherra hafi ekki fullnægt fyrirvaranum, hafi hjer í dagskrá þessari ótvíræða yfirlýsingu um skýran vilja þingsins í þessu atriði, um að víkja ekki frá fyrirvaranum, heldur að danska stjórnin eigi hjer ekkert íhlutunarvald, og jeg skil ekki hvers vegna þeir, sem ánægðir eru með staðfestinguna, geta ekki greitt atkvæði með till., því þeir fá sinn vilja um ánægjuna og samræmið við fyrirvarann. Eins og jeg sagði fyrr, er okkur nær að tala um innanlandsmál vor, en megum gjarna hugsa og ræða sambandsmál vor, en sem minst þó opinberlega.

Jeg skil vel, að þeir, sem eru hræddir við að minnast á íhlutunartilraun Dana, hafi ímugust á þessari dagskrá, en vona þó, að svo sje ekki, eða að þeir sjeu ekki margir. Jeg verð að geta þess, að dagakrá þessi er borin fram í fullu trausti til ráðherra, ekki að eina í þessu máli, viðvíkjandi stjórnarskrárstaðfestingunni, heldur yfirleitt, og álit jeg, að málið hefði strandað, ef hann hefði ekki sýnt þá lægni, er raun varð á.