06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

27. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

Jeg get næstum fallið frá orði, því að háttv. þm. Dala. (B. J.) tók að miklu leyti fram það, sem jeg ætlaði að segja. Þó vil jeg leyfa mjer, að taka fram nokkur atriði þessu viðkomandi. Mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. nefnd tekur Hvammsfjörð með í áætlunina en ekki Gilsfjörð. Ekki svo að skilja, að jeg ætlist til að skipið komi við á Gilsfirði í hverri ferð, eða að Hvammsfjörður verði settur hjá, en Gilsfjörður tekin á áætlun. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, ætlast jeg ekki til, að hið fyrirhugaða skip fari inn á Gilsfjörð í hverri ferð, heldur að eins á þeim tíma árs, er ferðanna væri mest þörf fyrir það hjerað. Ef jeg mætti benda á tíma, er jeg sjerstaklega teldi þörf ferða á Gilsfjörð, þá væri það Apríl og Október og fram í Nóvember.

Mjer skildist það á háttv. framsm. (Þorst. J.), að nefndin legði til að bæta við Tálknafirði í 1. og 5. ferð. Jeg er henni þakklátur fyrir það, en vildi að eins mælast til þess, að hún bætti því við, að skipið skyldi einnig koma á þessa staði, þegar nægur flutningur væri þar fyrir hendi, og sömuleiðis á Kollsvík. Er þar fiskver gott og mikinn fisk að flytja. Verður fyrst að flytja hann á mótorbátum til Patreksfjarðar og er það aukakostnaður, sem nemur, þegar vel er aðgætt, mörgum þúsundum króna. Jeg get upplýst það af eigin kunnugleika, að að öllum jafnaði er hverju gufuskipi vel fært að liggja á Kollsvík að sumri til. Enda er mjer kunnugt um það, að skip Sameinaða fjelagsins, og jafnvel að mig minnir Gullfoss, hafa mörgum sinnum komið þangað, og hafa menn haft af því stórt hagræði.

Enn fremur vil jeg vekja athygli á einum stað enn þá. Það er Bakki í Arnarfirði. Er þar fiskver gott og staðurinn er á leiðinni til Bíldudals; væri æskilegast að staður þessi væri tekinn með á áætluninni. Og með tilliti til ýmsra annara smástaða, er háttv. nefnd leggur til að skipið komi á, þá tel jeg þenna stað sem sjálfsagðan viðkomustað.

Jeg greiddi áðan atkvæði á móti afbrigðum frá þingsköpum í máli þessu. Finst mjer allathugaverð þessi afbrigðaleið. Því var kastað fram, að það mundi hafa verið gjört í því augnamiði, að drepa málið. Vil jeg þó leyfa mjer að halda því fram, að jeg tel mig varla líklegri til þess, að drepa þau mál er til þjóðþrifa horfa, en hvern annan.

Jeg er því samþykkur, að áætlunin verði prentuð upp aftur, og álít, að ekki þurfi kostnaðurinn að vera því til fyrirstöðu; álít hann hlægilega smámuni í samanburði við þann kostnað allan, sem af þinginu leiðir.

Lýk jeg svo máli þessu með þeirri von, að teknar verði til greina athugasemdir þær, er jeg hefi gjört, enda kröfur mínar, hvað þetta mál snertir, svo hóflegar sem frekast var að vænta af mjer, og ómótmælanlega svo vaxnar, að jeg tel sjálfsagt, að háttv. nefnd leggi til að fullnægja þeim í allan máta.